Versti lærdómurinn af reykvísk/ísraelska innkaupabannsmálinu er að meirihluti lýðræðislega kjörins stjórnvalds lét undan þrýstingi frá hagsmunaaaðilum og endurskoðaði ákvörðun sem hún virðist hafa tekið í góðri trú út frá ákveðnu prinsippi.
Nú vitum við enn betur en áður að einkaaðilar, fjármagnsöfl, geta lagt sín þungu lóð á vogarskálarnar til að hafa áhrif á og telja lýðræðislegum meirihluta hughvarf. Í þessu tilfelli skiptir ekki máli hver ákvörðun þessa meirihluta var, að hætta að kaupa vörur frá Ísrael eða eitthvað ímyndað annað. Það sem skiptir máli er að lýðræðislega kjörinn meirihluti endurskoðaði ákvörðun sem hann tók, meðal annars út af fjárhagslegum þrýstingi.
Hvað hefði fólk sagt?
Nú er komið fordæmi sem ekki varð til, eða hefur ekki enn orðið til, í Rússlandsmálinu. Hvað hefði fólk sagt ef ríkisstjórnin hefði látið undan þrýstingi vegna viðskiptabanns Rússlands á íslenskan fisk fyrir skömmu og dregið til baka stuðning sinn við viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna og Evrópusambandsins gegn Rússum? Þetta er í stuttu og einfölduðu máli það sem borgarstjórnin í Reykjavík hefur gert.
Og það skiptir engu máli þó einhverjir hafi ætlað að hætta við að koma til Íslands út innkaupabanninu gegn Ísrael, að einhverjir hafi afpantað lundabangsa og lopapeysur í póstsendingu frá Icewear, að einhver verslunarkeðja í Bandaríkjunum hafi hætt við að panta gám af skyri frá MS og að Einstök-bjór verði ekki lengur á boðstólnum í sérverslunum í Portland.
Slík sjónarmið voru líka uppi á teningnum í Rússamálinu en þau höfðu ekki úrslitaáhrif á niðurstöðu Íslands. Í Rússamálinu voru samt einhverjar hundruðir milljóna, jafnvel milljarðar, undir fyrir þjóðarbúið vegna sölu á uppsjávarfiski. Stjórnvald á ekki að hvika frá prinsippákvörðunum út af hótunum um viðskiptaþvinganir sem skipta ekki stórkostlegu máli.
Fordæmi byggt á prinsippi
Málinu sjálfu má eiginlega skipta í tvennt með tveimur spurningum sem svo má meta hvora fyrir sig: (1) Var rétt af meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkurborgar að ákveða að hætta að kaupa vörur frá Ísrael; (2) Var rétt af meirihlutanum í borgarstjórn að hætta við innkaupabann á vörum frá Ísrael á grundvelli pólitísks og viðskiptalegs þrýstings?
Svarið við spurningu (1) er að mínum dómi ekki augljóst í sjálfu sér. Meirihluti borgarstjórnar tók það upp að eigin frumkvæði, á grundvelli prinsipps sem meirihlutinn var sammála um, að Reykjavíkurborg myndi hætta að kaupa vörur frá Ísrael vegna meðferðar stjórnar landsins á Palestínumönnum og hernámi þeirra í Palestínu. Þetta var ekki ákvörðun sem var hluti af alþjóðlegum aðgerðum, líkt og til dæmis í tilfelli stuðnings Íslendinga við viðskiptaþvinganirnar gegn Rússlandi, heldur vildi borgarstjórnin sýna hug sinn á landtöku og ofbeldi Ísraels gegn Palestínumönnum með táknrænum hætti.
Hvað sem fólki kann að finnast um þessa ákvörðun þá var hún tekin af lýðræðislega kjörnum meirihluta, alveg eins og segja má að meirihluti Íslendinga hafi staðið með þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að styðja viðskiptaþvinganir gegn Rússum. Borgarstjórn vildi sýna umheiminum afstöðu sína, sama hversu litlu máli hún skiptir í raun, og kannski búa til fordæmi fyrir aðrar þjóðir eða borgir sem kynnu þá að bætast í hópinn og leggja líkt af mörkum til að bregðast við aðgerðum Ísraelsmanna gegn Palestínumönnum. Að þessu leyti er borgarstjórn í sömu stöðu og ríkisstjórnin í Rússamálinu.
Í báðum tilfellum hafði aðkoma Íslands og borgarstjórnar líka afleiðingar sem sýnir líka að þó Ísland sé fámennt og valdalítið í alþjóðasamfélaginu þá geta ákvarðanir stjórnvalda í landinu haft áhrif í heimsmálunum - þó kannski lítil séu.
„Ákaflega óheppilegt og hygg ég að sambærilegt berist okkur í bankanum úr öðrum áttum vegna annarra verkefna“
Óeðlilegur þrýstingur og viðskiptaboð bankastjóra
Í ljósi þess að meirihluti borgarstjórnar tók þessa ákvörðun til að byrja með þá held að ég svarið við (2) sé augljóst: Meirihlutinn hefði ekki átt endurskoða þá ákvörðun í kjölfar þrýstings og eiginlegra eða óeiginlegra viðskiptaþvingana eins og þeim sem meðal annars birtust í skammarlegu bréfi frá Höskuldi Ólafssyni, bankastjóra Arion, til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra þar sem hann reyndi að beita hann þrýstingi til að endurskoða ákvörðun borgarinnar út af hótelbyggingunni sem rísa á við Hörpu: „Ákaflega óheppilegt og hygg ég að sambærilegt berist okkur í bankanum úr öðrum áttum vegna annarra verkefna,“ sagði í bréfinu frá Höskuldi sem áframsendi svo líka tölvupóst frá einum af fjárfestununum í hótelinu. Í því bréfi var ekki farið fínt í hlutina og Höskuldur var beinlínis spurður að því hvort hann gæti ekki lagt sitt að mörkum til að hafa „áhrif á hlutina“ og að „láta þetta verða dregið til baka“. Bréf Höskuldar er í besta falli ósvífið.
Svo hefur komið í ljós að ekkert var hæft í þeirri tilgátu Höskuldar að fjárfestarnir í hótelinu hefðu ætlað sér að hætta við bygginguna jafnvel þó einhverjir þeirra séu gyðingar. Bréfið var í stuttu máli bull - við vitum það núna.
Þarna eru samt tveir hagsmunaaðilar í viðskiptaheiminum að rotta sig saman um það hvernig þeir geti haft áhrif á lýðræðislega kjörinn meirihluta í borgarstjórn vegna þess að það þjónar fjárhagslegum hagsmunum þeirra sjálfra eða þeirra aðila sem þeir vinna fyrir og eða stýra. Þetta bréf Höskuldur er þess eðlis að hann ætti að skammast sín fyrir það þó einhver kunni kannski að segja að einu skyldur bankastjóra séu við hluthafa bankans og að honum beri eftir öllum leiðum að hámarka pund þeirra eftir öllum leiðum. Slíkar röksemdir hafa heyrst áður, til dæmis úr munni eins bankastjóra fallins viðskiptabanka í október 2008. Það er ekki þannig: Bankastjórar eiga ekki að gera svona og þeir eiga að sýna samfélagslega ábyrgð; þetta lyktar af tilraun til að fá lýðræðislega kjörinn stjórnmálamann til að taka spillta ákvörðun á grundvelli eiginhagsmuna einkaðila. Persónulega skil ég ekki hvað fór í gegnum höfuðið á Höskuldi bankastjóra þegar hann skrifaði þetta bréf og áframsendi bréfið frá fjárfestinum til borgarstjóra með þessum vafasömu viðskiptaboðum. Ég held að sumir bankastjórar, líkt og aðrir valdamenn, sem lengi hafa verið við stjórnvölinn haldi að þeim leyfist allt, eða að minnsta kosti flest.
Ætli Dagur og minnihlutinn í borginni hafi fengið fleiri slík bréf með viðskiptaboðum? Höskuldur lætur í það skína í sínu bréfi til Dags.
„Ég bjóst við viðbrögðum en ekki svona miklum.“
Viðbrögðin voru ástæðan
Dagur segir svo auðvitað að bréfið hafi ekki haft nein áhrif á sig. Hann hefur þess í stað sagt að tillagan hafi ekki verið nógu vel undirbúin og svo framvegis og að hann sjái eftir því að hún hafi verið lögð fram og samþykkt. Þar af leiðandi eiga að hafa verið tæknilegar ástæður fyrir því að draga tillöguna til baka en ekki grundvallarástæður.
Á sama tíma viðurkennir Dagur svo að ástæðan fyrir því að hún verði dregin til baka séu viðbrögðin sem innkaupabannið fékk: „Ég bjóst við viðbrögðum en ekki svona miklum. Þetta eru mun meiri viðbrögð sýnist mér heldur en þegar Ísland lýsti yfir stuðningi við sjálfstæði Palestínu.“
Hver var raunverulega ástæðan fyrir viðsnúningi Dags og félaga? Viðbrögðin við ákvörðuninni um innkaupabannið. Ef viðbrögðin við ákvörðuninni hefðu verið lítil hefði meirihlutinn ekki ákveðið að draga hana til baka á þeim grundvelli að hún hafi verið illa undirbúin. Dagur, og meirihlutinn, í borgarstjórn stóðu ekki af sér viðbragðastorminn og létu frekar undan og viku frá eigin prinsippákvörðun sem byggir þá greinilega ekki á neinu prinsippi eftir allt saman.
Ég efast um að nokkuð muni sjást af þessari tillögu um innkaupabannið eftir að hún hefur verið felld úr gildi í kvöld með öllum greiddum atkvæðum í borgarstjórn. Meirihlutinn klórar í bakkann og segist ætla að vinna tillöguna áfram en það er bara gert til að halda einhverjum hluta af andlitinu tímabundið. Þessi tillaga heyrir sögunni til.
Pólitískt fíaskó út af svarinu við (2)
Svarið við spurningu (1) er alls ekki augljóst en málið varð ekki pólitískt fíaskó fyrir meirihlutann í borgarstjórn fyrr en eftir að hann svaraði spurningu (2) og dró fyrri ákvörðun sína til baka á grundvelli þrýstingsins. Sú ákvörðun að setja innkaupabann á vörur frá Ísrael var ekki pólitískt fíaskó í sjálfu sér af því meirihlutann í borginni var samkvæmur sjálfur sér þar til hann endurskoðaði eigin ákvörðun - og prinsipp að því er virðist.
Í ljósi niðurstöðunnar við spurningu (2) er ákvörðunin sem var svar við spurningu (1) auðvitað fáránleg. Frumhlaupið í málinu kom frá meirihlutanum í borgarstjórn sem ætlaði að sýna í verki fyrir hvað prinsipp hún stendur. Nú vitum við hins vegar að borgarstjórnarmeirihlutinn stendur ekki fyrir þessi prinsipp þegar pólitískum og efnhagslegum þrýstingi, eins og þeim frá Höskuldi, er beitt gegn ákvörðunum meirihlutans. Meirihlutinn er eins og strá í vindi, stjórnvald sem er vingull - því miður fyrir hann. Þar af leiðandi hefði meirihlutinn aldrei átt að taka ákvörðunina sem var svar hennar við spurningu (1) af því hann þorði ekki að standa við hana. Þess vegna var ákvörðun meirihlutans sem byggði á spurningu (1) fáránleg af því hann meinti greinilega ekkert með henni.
Á sama tíma liggur fyrir að meirihlutinn hefði hæglega getað staðið við ákvörðun sína ef hann hefði sannarlega viljað standa með þessu prinsippi sem grundvallaði ákvörðun hans í síðustu viku. En hann kaus að draga í land.
Andstæð niðurstaða
Þannig að niðurstaða málsins er andstæða þess sem meirihlutinn í borgarstjórn ætlaði í byrjun. Í staðinn fyrir að sýna að meirihlutinn standi fyrir eigin prinsipp í verki með því að senda Ísraelsstjórn dálítinn diplómatískan selbita á innlendum og alþjóðlegum vettvangi þá hefur þessi meirihluti sýnt að hann stendur ekki við eigin ákvarðanir og lætur fjármagnsöfl og einkahagsmuni úr viðskiptalífinu stýra ákvörðunum sínum. Í staðinn fyrir að hafa búið til fordæmi fyrir aðrar þjóðir og borgir hefur meirihlutinn í Reykjavíkurborg orðið að aðhlátursefni fyrir vingulsháttinn.
Ætli peningarnir, með Höskuld bankastjóra sem bréfbera, sigri ekki bara prinsippin, og pólitíkina, að lokum og sem fyrr. Betra hefði verið fyrir meirihlutann að gera ekki neitt, og sleppa því að þykjast standa fyrir prinsipp í verki, fyrst þetta endaði svona. Sá lærdómur af málinu er auðvitað, tja, hörmung: Prinsipp í pólitík eru lítils virði.
Meirihlutinn í Reykjavík tók því ranga ákvörðun á röngum forsendum þegar hún endurskoðaði fyrri ákvörðun sína, fyrst hún samþykkti innkaupabannið til að byrja með á grundvelli pólitísks meirihluta.
P.S. Ég hef viljandi sleppt því að ræða um meintan and-semitisma meirihlutans í borginni í þessum pistli af því sá áróður sumra í málinu á opinberum vettvangi stenst ekki skoðun. Slík umræða í málinu drepur því bara á dreif þar sem ekkert í því bendir til að slíkir fordómar gegn gyðingum hafi ráðið ákvarðanatökunni til að byrja með.
Athugasemdir