Penninn er máttugri en sverðið! segir mantra sem endurtekið ómar út um munnop hins riti borna manns. Og þó bókstafleg túlkun dragi fram ótvíræða þversögn — téður blekhólkur dvelur jú á botni ruslflokks allra oddum gæddra vopna — er það hinn óorðaði boðháttur sem hér skiptir sköpum. Þar sem hríð orða er siðaðri en holskefla högga, skurða og kúlna, skal hið síðara víkja fyrir hinu fyrra: erjur skulu leystar með kerfisbundinni uppröðun tákna, ekki ofsafenginni útrás frumstæðra kennda.
Útvaldir eru þó undanskildir boðorðinu. Það sætti til að mynda furðu ef yfirvöld frelsiselskandi þjóða fyrirskipuðu að skriffærum, frekar en sprengjum, skyldi varpað úr þotum yfir landsvæðum skilgreindra óvinaríkja. Andstæða nálgunin hringir kunnuglegri bjöllum: sökum hins áralanga viðskiptabanns á Írak, sem sett var á eftir að búið var að rústa því sem rústað varð, urðu pappír og blýantar að næsta ófáanlegum munaðarvörum þar í landi. Geta þau ekki bara skrifað í sandinn?
Í kjölfar árásanna á höfuðstöðvar franska skopmyndatímaritsins Charlie Hebdo óx pennanum feitur fiskur um hrygg. Frá Banksy til Benjamin Netanyahu með viðkomu í sjónvarpshandbókum og á færiböndum ísskápaseglaframleiðenda — allir vildu Charlie hafa kveðið. Og þó mörgum finnist það ennþá spennandi að í fyrndinni leynist menn sem vega mann og annan samhliða kveðskapnum sammælast þó flestir um þá skapandi þversögn að í afhelguðu samfélagi sé tjáningarfrelsið heilagt.
Akkúrat þar stendur hnífurinn í kúnni. Það sem er heilagt er ósnertanlegt. Og ólíkt því sem margir halda nú fram stendur helgidómnum ekki alvarlegust ógn af wahhabistum og salafistum ættuðum austan úr Mesópótamíu, vopnuðum sveðjum og sprengjum huldum í höfuðklútum, heldur inngrónu æxli — hópi fanta sem beita tjáningarfrelsinu af sömu barbarísku hörku og sá sem heggur eyrun af andmælanda sínum. Sumir kalla þá hyski, aðrir pakk, enn aðrir virka í athugasemdum — en réttast er að kalla þá frelsishetjur. Eins og uppreisnarseggir sem ráðast gegn byltingunni þegar hún tekur á sig hryllingsmynd þess sem átti að bylta eru þetta hinir einu sönnu skæruliðar tjáningarfrelsisins.
Þeir eru andskotarnir innan frá, með bækistöðvar á blaðinu miðju jafnt sem á spássíum þess. Þeir vilja sprengja upp stafrófið, mölva skurðgoð málfræðinnar, rífa niður aðskilnaðarmúra og girðingar greinamerkjanna. Árásir þeirra beinast gegn samfélagssáttmála sem úthýsir kröfunni um rétthugsun en leggur blessun sína yfir hlekki sem nefndir eru réttritun — enda setur hið síðarnefnda stólinn fyrir frjálsa tjáningu með sama hætti og hið fyrrnefnda skerðir möguleikann á fjötralausri hugsun.
Tungumálið er jú bara hækja, búin tækjum og táknum, sem upp að ákveðnu marki er þess megnug að koma kenndum, tilfinningum, hugmyndum og upplifunum til skila á vegu sem auðvelda göngu bæði mælenda og hlustenda. Og frelsið er bara hugmynd, alveg eins og guð sem samkvæmt John Lennon er hugmynd sem við notum til að mæla sársauka okkar. Á sama hátt berum við ófrelsi okkar í sífellu saman við frelsið — þessa guðlegu vog sem metur bæði verðgildi okkar og kaupmátt í alltumlykjandi hagkerfi þvingunarinnar. Sjálft krefst það þó alltaf eigin algildis: leggur öll spilin á borðið, býður allt eða ekkert, heimtar að menn séu ýmist frjálsir eða ófrjálsir — aldrei hálffrjálsir.
Í þessum skilningi er frelsið, og þar með tjáningarfrelsið, ekki til sem raunverulegt ástand — ekki til sem endanleg niðurstaða, heldur einungis sem markmið sem stöðugt er stefnt að. Aðgangur að blaði og penna nægir ekki. Sé þess vænst að menn hlýði boðhættinum, brýni fremur blýantinn en hnífinn, dúndri á lyklaborðið frekar en úr byssunni, stilli klukku orðaskákinnar en ekki tímasprengjunnar, þá verða þeir að geta beitt hækjunni og brúkað hana samkvæmt eigin tilfinningu og jafnvægisskyni. Og verða að fá að nota hana til tjáningar þeirra frumstæðu kennda sem annars sækja stuðning í sverðið.
Athugasemdir