Nýlega átti ég fund með manni að nafni Magnús og það vildi þannig til að hann er sonur bóndans sem ég var í sveit hjá þegar ég var krakki. Í kjölfarið birtist æskan mér ljóslifandi og ég fór að hugsa um hluti sem ég hef ekki hugsað um áratugum saman. Loksins hafði ég einhvern til að tala við um þennan tíma. Daginn eftir var ég að hlusta á útvarpið og lenti ég á þætti Mikaels Torfasonar sem heitir einmitt Sendur í sveit. Við það fór hugurinn á enn meira flug. Ég rifjaði upp og jafnvel fann lyktina af heyinu. Sá fyrir mér beljurnar skvetta upp rassinum þegar við hleyptum þeim út að vori. Horfði í augun á heimalningunum sem fengu hjá mér pela og dilluðu dindlinum á meðan. Mundi eftir einstökum fiskum sem ég veiddi í ánni, öllum trjánum sem ég gróðursetti, girðingaststaurunum sem voru lamdir niður með sleggju þegar ég var lítið stærri en sleggjan og rétt náði að lyfta henni nógu hátt til að láta hana falla niður á staurana sem höfðu gengið upp í frostum vetrarins. Mundi eftir öllum hestaferðunum, ferðum á sjúkrahús, kossum, sætabrauði, kvöldkaffi í heyskapnum, kakósúpu, skyrsúpu, veiði í vatninu og heilsteiktum smásilungi, berjatínslunni, sagógrjónagrautnum. Lambinu sem var veikt og skotið í hnakkann, mjólkurbrúsunum, brúsakælinum, heyblásaranum, að keyra traktorana á þjóðveginum (langt undir aldri), strákunum sem voru í sveit á sama tíma, mundi þegar ég prófaði Willis-jeppann sem Maggi var alltaf að gera upp, Landroverinn sem við sátum allir aftur í, mundi þegar ég var stangaður af hrúti, að sækja eggin og gefa hænunum, gera bú og safna leggjum, völum og hornum. Moka flórinn og stinga út úr fjárhúsunum. Að sitja með bóndanum og fá mjólkurglas þegar ég átti erfitt og gat ekki sofið á meðan hann lagði kapal. Mundi margt sem ég gerði af mér, slagsmál, lygasögur sem ég sagði og eftir pólitíkinni sem var til staðar á meðan margir strákar voru í sveit á bænum fyrstu sumrin sem ég var þar. Að sitja í rútunni á leiðinni norður, laugardagsnamminu, fá heimsókn, fá sendan pakka eða símtal að heiman í skrítna sveitasímanum sem allir gátu hlustað á, vera bannað að svara þegar hann hringdi því þetta var ekki okkar hringing. Að borða hratt og vinna mikið. Mundi eftir vinnukonunum (sem voru líklega á bilinu 14 til 16 ára) og lásu fyrir okkur Óskar Alexander Fíli Bom Bom Bom. En ein af stóru minningunum er síðasti morguninn þegar ég var orðinn 14 ára og var að klára mitt sjöunda sumar á bænum. Þá mætti Óskar bóndi til mín og vakti mig. Hann var á hraðferð annað og vissi að hann yrði ekki til staðar til að kveðja mig. Hann rétti mér 5.000 krónur og þakkaði mér fyrir sumarið. Ég var orðinn að manni. Svo fór ég og þar varð endir. Ekkert meira. Engin tengsl og ég fór aldrei aftur að Brekku og hitti aldrei aftur fólkið.
„Allar þessar minningar helltust yfir mig eins og rigning hellt úr fötu og ég þurfti að hafa mig allan við að sortera minningarnar og hugsa dýpra.“
Allar þessar minningar helltust yfir mig eins og rigning hellt úr fötu og ég þurfti að hafa mig allan við að sortera minningarnar og hugsa dýpra. Hvað gerði þetta fyrir mig og af hverju hafði ég aldrei farið aftur þangað í heimsókn frekar en Mikki til þeirra sem hann fór til? Einhvern veginn lokaði maður kaflanum bara eins og skóla að loknum síðasta skóladegi. Oft hef ég keyrt framhjá en þá alltaf á leiðinni annað og alltaf að flýta mér eins og okkur er svo tamt. Svo leið tíminn og aldrei stoppaði ég. Gjáin í huganum breikkaði og erfiðara var að stoppa. Svo dóu hjónin, Óskar og Hebba, og ég náði aldrei að hitta þau. Náði aldrei að eiga samtölin sem Mikki er að eiga svo snilldarlega í þáttunum sínum við fólkið sem hafði hann í sveit. Gera upp fortíðina, sættast við slæmu minningarnar og fylla inn í söguna sem maður myndar sjálfur úr æskunni og skáldar það sem upp á vantar. Tengja púslin, njóta.
Ég er samt svo heppinn að Valdís, dóttir hjónanna, dvelur nú oft á bænum sem og sonurinn Magnús sem er nokkrum árum eldri en ég. Þegar ég var þarna í sveit var Valdís uppkomin og átti sjálf dætur á mínum aldri og bjuggu þær á bænum. Svo eftir hverju er ég að bíða? Valdís var meira eins og sumarmóðir mín á meðan Hebba og Óskar voru meira eins og sumaramma og -afi. Nú þarf ég að mæta á staðinn, upplifa og melta. Líklega er ekki hollt að taka svo stóran hluta af æskunni, loka af og klippa á. Ég þarf að ganga leiðina út í hesthús, skoða trén sem ég tók þátt í að setja niður sem pínulitla sprota, sitja við ána og anda að sér ilminum af gleymméreyjum og bláklukkum, leggjast í grasið og horfa til himins. Njóta fullkomins frelsis í faðmi fortíðarinnar. Tilfinningarnar steyma um mig allan bara við að skrifa þessar hugsanir niður.
Mikið hlakka ég til að hitta Valdísi og fá fréttir af sjálfum mér frá því ég var sjö til fjórtán ára. Prófa að opna hólfið sem hefur að mestu verið lokað af í huganum í öll þessi ár. Líklega bara vegna þess að ég hef ekki haft neinn til að deila minningum mínum með. Fólkið sem nú er í kringum mig hefur fyrir löngu gefið mér til kynna að það sé komið með leiða á að heyra hvernig var í sveitinni þegar ég var lítill. Vonandi á ég eftir að upplifa sjálfan mig í nýju ljósi frá þeim tíma eins og Mikki upplifiði sig í nýju ljósi.
Takk, Mikki, fyrir frábæran þátt. Ég ætla í heimsókn að Brekku í Skagafirði næsta vor.
Athugasemdir