Það getur verið hrellandi tilhugsun að henda í pistil og hvað þá um hamingjuna. Í mínu tilfelli vegna ótta um að hljóma eins og ódýr bensínstöðvarsjálfshjálparbók löðrandi í frösum sem allir þekkja nú þegar eða ranghvolfa augunum yfir. Mögulega hef ég þó skorið á óttahnútinn gagnvart þessum hugsunum, með því að leiða hugann að því hvaða fólk ranghvolfir augunum yfir því sem ég segi og af hverju það geri það.
Hver getur í alvöru verið fúll yfir sólskini eða hlátursköstum? Raunin er víst sú að það er nóg af slíku fólki. Ég hef oft verið álitin rugludallur og vitleysingur af því að ég er alltaf svo hress. Ég hef í alvöru átt samræður við fólk sem tilkynnti mér að það hefði verið visst um að ég væri ógurlega vitlaus því ég væri alltaf svo hress, en þegar það kynntist mér þá fannst því ég bara ekkert svo vitlaus. „Uhh … ok, takk.“ Átti ég að segja það? Takk fyrir að halda ekki lengur að ég sé vitleysingur af því að ég hlæ of hátt eða tala of mikið, nú eða klæðist pallíettukjól án þess að biðja um leyfi fyrir svoleiðis brjálæði?
Ég fann nefnilega leyndarmálið, leysti gátuna fyrir löngu, lykilinn að hamingjunni. Jú, haldið ykkur fast – ég veit hver ég er og ég veit hvað ég get, en ég veit ekki hver ég verð og það er í finasta lagi.
Ta daa! Æði, ekki satt? En þetta verður því miður ekki selt í lyfjaglösum eða handhægum umbúðum í sjoppum. Leiðin að þessari vissu hefur verið bútasaumsteppi af upplifunum, lærdómum, mistökum (sem ég tel reyndar að séu raunverulega ekki til), erfiðleikum, ferðalögum, fjölskyldu og vinum. Þetta er um það bil það sem allir ættu að þekkja.
„Leiðin að þessari vissu hefur verið bútasaumsteppi af upplifunum, lærdómum, mistökum.“
Ég er gríðarlega heppin að vera með mikið jafnlyndi sem ég fékk frá pabba mínum og er afar þakklát fyrir. Fyrir vikið hef ég getað haldið áfram þótt erfiðleikar bjáti á í stað þess að sökkva mér í neikvæðar hugsanir, því ég treysti alltaf á að hlutirnir fari nú einhvern veginn.
Til að viðhalda hamingjunni hef ég sankað að mér ótrúlegum vinum í gegnum lífið, og eins og er tiltölulega algengt á meðal einkabarna, sem ég er, geri ég vini mína að fjölskyldu minni. Ég á því tugi systkina sem ég get leitað til í gleði eða leiðindum. Það er fátt betra en að sitja saman, borða og hlæja þar til þú grætur, eða gráta þar til þú byrjar aftur að hlæja.
Ferðalög, hvort sem þau eru stutt eða löng, eru besta leiðin til að víkka sjóndeildarhringinn. Þá sér maður hversu ógurlega gott maður hefur það eða finnur einhvern tilgang og sér ástæðu til að taka 180 gráðu snúning. Fátt er hollara en að skipta um skoðun og vera sveigjanlegur.
Á meðal þess sem ég hef alltaf reynt að temja mér er að klára verkefni eða tikka í boxin á to-do listanum. Bara það að setja mér markmið, jafnvel þótt það sé lítið verk eins og að sópa gólfið, búa til sushi-rúllu, læra að baka súrdeigsbrauð eða sitja og anda í tíu mínútur, þá get ég sagt að það lífgast upp á sálartetrið þegar ég hef lokið einhverju. Þetta er að sjálfsögðu mjög íslenskt, því við eigum það til að meta okkur út frá því hversu dugleg við erum. Ég er dugleg, þú ert duglegur, við erum öll svo svakalega dugleg. Því fylgja oft neikvæðar hugsanir, þegar fólk byrjar að draga sig niður eða gera lítið úr sér fyrir að vera ekki nógu duglegt – alltaf. Ég á það líka til að gera samninga við sjálfa mig þegar ég nenni ómögulega að gera eitthvað. Ég gef mér þá daginn í hangs eða leti, því um leið og ég hef gert það líður mér betur og get notið dagsins, vitandi að á morgun er skuldadagur. Það bregst yfirleitt ekki. Sektarkennd er tiltölulega gagnlaust fyrirbæri.
Þá byrja Oprah Winfrey-klisjurnar. Þú getur nefnilega ekki gefið mikið af þér ef glasið er ekki fullt og sjálfsvæntumþykja ekki til staðar. Ef þér þykir ekki vænt um þig er erfitt að gefa öðrum væntumþykju. Af því að ísskápurinn er einfaldlega tómur. Þess vegna verðum við að passa upp á eigin hamingju og lífsfyllingu, sama hver hún er. Best er að reyna að láta álit annarra á því hvað þú gerir sem vind um eyru þjóta, því ég hef séð það nú þegar á mínum 37 árum, að eftirsjá upplifum við aðeins vegna þess sem við gerðum ekki, en ekki þess sem við gerðum.
Ég er vel gift og vil vanda mig í hjónabandinu til að jafnvægi geti ríkt á heimilinu. Ég vil ekki enda uppi sem skoðanaskriðdreki sem telur sig alltaf hafa rétt fyrir sér en veldur óhamingju og einmanaleika innan veggja heimilisins. Til að gæta þess reyni ég að halda í nokkra möntrur sem minna mig á. Lífið er núna, þetta er ekki búningaæfing, er ein. Hin sem ég nota reglulega er að það er mikilvægt að fólk sé á sömu blaðsíðu í lífinu, en það þarf alls ekki að vera að lesa sömu bókina.
Þrammaðu bara eftir eigin takti, maður … nú eða kona!
Athugasemdir