Næsta kynslóð Íslendinga er upplýstari og hæfileikarríkari en fyrri kynslóðir enda alast þau upp við aðgengi að upplýsingum um allt sem þau mögulega vilja fræðast um. Það er nóg að googla til að fá svör við nánast hverju sem er. Skuggahlið netsins er hins vegar að það býður upp á óendanlega mikið af aðgengilegu, ókeypis eða ódýru klámi.
Samkvæmt bandarískum rannsóknum er stærsti aldurshópurinn sem skoðar klám 12-17 ára börn og algengast var að barn skoðaði klám í fyrsta skiptið 11 ára. Samkvæmt annarri rannsókn hafa 90% barna á aldrinum 8-16 ára skoðað klám á netinu. Það hefur engin kynslóð áður alist upp við svo mikið aðgengi að ofbeldisefni eins og kynslóðin sem er að alast upp núna, það má því segja að í gangi sé ein risastór samfélagstilraun því enginn veit hvaða áhrif það hefur á börn og ungmenni að horfa á klám.
Í Bandaríkjunum eru sum ríki að setja lög um smokkanotkun í klámmyndum og samþykkja með því eins konar fræðslugildi klámsins sem kynfræðslu. Sem er kannski ekki skrítið þegar horft er til þess að klámsíður fá fleiri heimsóknir í hverjum mánuði en Netflix, Amazon og Twitter til samans og samtals er klámefni 35% af öllu því efni sem hlaðið er niður af netinu.
Það er því afar eðlilegt að það að vera á móti klámi í svo klámvæddum heimi er ekki töff. Við erum meira að segja farin að tala um matarklám, eða myndaklám en með því að nota orðið klám með þeim hætti erum við í raun að segja að klám sé eitthvað sem fólki finnst spennandi.
„Klámáhorf hefur slæm áhrif á sjálfstraust stráka og stelpna og tækifæri þeirra til að eiga gott líf.“
Klám er auðvitað ekki allt eins og ekki er ætlunin hér að útiloka að til sé einhvers staðar klám sem sýnir fólk njóta kynlífs en því miður er það þá afar afar sjaldgæft. Mikill meirihluti klámefnis gengur út á það að hlutgera konur sem leikfang fyrir karla, þeim er misþyrmt og nauðgað til að fólk geti skemmt sér við að horfa á. Áhorfendum er talin trú um að þær vilji ólmar fá að leika í þessum myndum, já eða jafnvel að þær séu alls ekki að leika. Sannleikurinn er hins vegar sá að árlega notar „klámiðnaðurinn“ milljónir manna til að framleiða sitt efni. Veltan er samkvæmt fréttum NBC 97 billjónir Bandaríkjadala á ári og hagnaður með því sem best gerist í viðskiptum.
Það eru því miklir hagsmunir í húfi fyrir framleiðendur að sem flestir horfi á klám og því verður alltaf að bjóða upp á nýja vöru sem gjarnan felur í sér að klám verður sífellt ofbeldisfyllra og mörkin á milli fullorðinskláms og barnakláms verða óskýrari. Meðan foreldrar, skólakerfið, er önnum kafið við að fræða ungmenni um skaðleg áhrif áfengis og tóbaksneyslu grunar mig að við séum að gleyma stærstu heilsuógninni sem forvarnastarf með ungmennum þarf að fara að beinast að. Það er nefnilega sannað að því yngri sem drengir eru þegar þeir byrja að horfa á klám því erfiðara munu þeir eiga með að eiga náin sambönd við konur eða sýna tilfinningum þeirra skilning í sínu lífi. Klámáhorf hefur slæm áhrif á sjálfstraust stráka og stelpna og tækifæri þeirra til að eiga gott líf, því meðan ungmenni horfa á klám sem kynfræðslu þá eru tilfinningar einfaldlega ekkert sem er til staðar heldur ofbeldi, kúgun og niðurlæging.
Það er því afar mikilvægt að við kennum börnunum okkar að klám er jafn ólíkt kynlífi eins og Hogwarts-skóli Harry Potter er ólíkur grunnskólum landsins. Þó maður horfi á ævintýramynd þá getur maður ekki búist við að geta flogið um á eftir eða tamið dreka. Undanfarið hafa ungmenni stigið fram og sagt sögur af kynferðisofbeldi sem oft er nánast eins og lýsingar á klámmyndum. Um daginn voru 5 drengir sýknaðir af því að hafa nauðgað unglingsstúlku og samkvæmt því sem fram kom í blöðum trúðu þeir því að það sem fram fór væri eðlilegt kynlíf. Við sem samfélag verðum að taka á okkur hluta af skömminni hér og snúa við blaðinu og tryggja öllum ungmennum kynfræðslu við hæfi ásamt því að tala opinskátt um þessi mál við börnin okkar, heilsa þeirra, kynheilbrigði og hamingja getur verið í húfi.
Athugasemdir