Ég safna brjálæðingum. Það hefur sína kosti og galla og stundum þarf að grisja. Einu sinni þekkti ég mann. Hann var með mér í bekk fyrsta árið mitt í menntó. Hann var fallisti og því var ákveðinn ávinningur í því að hafa sigldan mann nálægt sér í hinum framandi og yfirþyrmandi frumskógi sem heimur busans er.
Við reyktum sígarettur og drukkum kaffi á Prikinu. Hann hafði verið í viðtali í Séð&heyrt út af vel heppnuðu megrunarátaki sem hann fór í og þetta var því eins nálægt því að þekkja selebb og ég komst á þessum tíma. Hann gekk stundum með blaðið á sér, sem var pínu skrítið, en ok.
Hann hlustaði á Útvarp Kántrýbæ, fyrst í gríni, svo í alvöru. Svo reyndi hann að stofna kántrísveit í skólanum, sem hefði verið fyndið ef honum hefði ekki verið svona fullkomlega alvara. Svo fór hann að ganga með kúrekahatt og sagðist hafa farið að hitta kántrýstjörnu á hótelherbergi þar sem hún ætlaði að gefa honum geisladiska en læsti hann þess í stað inni og reyndi að fara í sleik við hann. Þessi skólafélagi minn var 18 ára á þessum tíma. Þannig það var pínu skrítið, en ok.
„Svo sagði hann okkur frá því þegar hann fór heim til hennar og svaf hjá henni á 12 ára afmælisdaginn hennar. Flissandi. Svaka fyndið.“
Þessi náungi var alltaf á ircinu, að spjalla við rosalega ungar stelpur, 11–12 ára gamlar. Svo sagði hann okkur skólabræðrum sínum frá þessu. Flissandi. Eins og þetta væri eitthvert grín. Svo sagði hann okkur frá einni sem hann var svaka mikið að spjalla við. Hún bjó í Hafnarfirði. Eða Keflavík. Ég man það ekki. Svo sagði hann okkur frá því þegar hann fór heim til hennar og svaf hjá henni á 12 ára afmælisdaginn hennar. Flissandi. Svaka fyndið.
Þá hætti ég öllum samskiptum við þennan náunga. Þetta var orðið eitthvað meira en bara skrítið. Ég safna bara brjálæðingum, ekki barnaníðingum. Takk.
(Höfundur vill árétta að með pistlinum vildi hann hvorki afsaka né gera lítið úr gjörðum barnaníðinga. Það sem vakti fyrir honum var að lýsa upplifun unglings í aðstæðum þar sem þroska- og hugsunarleysi getur komið í veg fyrir að réttar ákvarðanir séu teknar. Ef atvikið kæmi upp í dag myndi hann leita til yfirvalda með málið.)
Athugasemdir