Hannes Hólmsteinn telur að bankahrunið sé fyrst og fremst Bretum og Bandaríkjamönnum að kenna. Þetta kemur fram í fjögurra blaðsíðna lofgjörð hans um Davíð Oddsson sem var dreift inn á öll heimili í dag. „Þótt Jón Ásgeir Jóhannesson og bandamenn hans hafi vissulega veikt viðnámsþrótt hagkerfisins með skefjalausri skuldasöfnun, eru meginskýringarnar á bankahruninu sjálfu þær tvær, að Bandaríkjamenn neituðu okkur um hjálp og Bretar stuðluðu beinlínis að falli bankanna,“ skrifar Hannes.
Söguskýringin gengur auðvitað í berhögg við niðurstöður vandaðrar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna sem Íslendingar eignuðust 12. apríl árið 2010. Þar er því lýst með ítarlegum hætti hvernig fjárglæframenn þöndu út íslenska fjármálakerfið og sprengdu það í tætlur, allt í skjóli veikra eftirlitsstofnana og meðvirkra stjórnmálamanna sem fjármálaöflin dældu peningum í. Davíð Oddsson kemur víða við sögu í skýrslunni. Til dæmis er greint frá því hvernig hann, sem formaður bankastjórnar Seðlabankans, afþakkaði hjálp erlendra seðlabanka við að minnka hið ofvaxna bankakerfi Íslands.
Sjálfstæðismenn hafa alltaf átt erfitt með að sætta sig við niðurstöður rannsóknarskýrslunnar og gert sitt besta til að draga úr vægi hennar sem og hrunsins sjálfs. Frægt er orðið hvernig Davíð steindrap tilraun sjálfstæðismanna til heiðarlegs uppgjörs á landsfundi 2009 við lófaklapp fundargesta. Ári síðar vakti forystukona í flokknum athygli með ummælum sínum um að rannsóknarskýrslan væri að þvælast tímabundið fyrir Sjálfstæðisflokknum og árið 2013 gerði Geir H. Haarde lítið úr bankahruninu í viðtali við Guardian og sagði suma eldri borgara ekki einu sinni hafa tekið eftir því.
Ummæli Hannesar í dag – þar sem öll ábyrgð á hruninu er færð frá Sjálfstæðisflokknum og yfir á herðar útlendinga og Baugs – koma ekki á óvart, enda fullkomlega í takt við fyrri málflutning prófessorsins og flokkssystkina hans.
En þau eru áhugaverð í ljósi þess að á yfirstandandi kjörtímabili hefur Hannes Hólmsteinn fengið 10 milljónir af opinberu fé til að rannsaka erlenda áhrifaþætti hrunsins. Skattfénu var úthlutað til Hannesar sama ár og skorið var niður til flestra verkefna ríkisins. Ákvörðunina tók fjármálaráðherra og formaður þess flokks sem var við völd þegar bankakerfið hrundi. Hana er varla hægt að túlka öðruvísi en sem pólitíska stuðningsyfirlýsingu formanns Sjálfstæðisflokksins við söguskýringu Hannesar.
Athugasemdir