„Hvernig er veðrið þarna uppi? Ert þú ekkert í körfunni? Hvað ertu stór? Viltu barna mig?“ Já, reglulega er ég spurður spurninga sem bróðurpartur fólks fær mjög sjaldan. Ástæðan er sú að ég er 198 cm og tilheyri hávaxnasta 0,5% þjóðarinnar. Við fyrstu sýn virðist það kannski vera eftirsóknarvert, en trúið mér, þetta er ekkert spes.
Vissulega á ég auðveldara með að ná í hluti í efstu hillunum og útsýnið á tónleikum er betra. En þar kemur á móti að hlutirnir í efstu hillunum eru þar vegna þess að þeir eru mjög sjaldan notaðir (og það er hægt að standa upp á stól til þess að sækja þá) og svo finnst mér sjúklega leiðinlegt á tónleikum af því almenningur er andfúll og flestir tónlistarmenn eru narsissískir fúskarar.
Þá stendur eftir að ég er risi í samfélagi sem hannað er fyrir meðalmanninn. Öll farartæki eru of lítil. Í bílum, flugvélum, rútum og lestum stingast hnén inn í alla fleti og eru yfirleitt nánast uppi í nefinu á mér og passa hvergi vegna þess að aldrei er gert ráð fyrir svona löngum löppum. Ljósakrónur eru í passlegri hæð fyrir mig til þess að skalla og dyrakarmar í eldri húsum eru stórhættulegir.
Auk þess búum við í litlu landi þar sem vöruúrval handa risastórum minnihlutahóp er fátæklegt, þannig ég geng ekki í skónum sem mig langar í heldur skónum sem passa. Skyrtur og peysur eru annaðhvort eins og tjald um búkinn og ermarnar passa, eða þá að þær passa á búkinn en eru með of stuttar ermar. Og þetta er aðeins brot af því versta.
Þannig að næst þegar þið sjáið hávaxinn mann, hafið þá aðgát. Hann er líklega bakveikur með verk í hnjám, í ljótum skóm og illa sniðinni skyrtu, með höfuðverk eftir að hafa skallað allt sem þið gangið undir og á leiðinni inn í eða út úr gríðarlega óþægilegu farartæki. Ekki spyrja hvað hann sé stór. Segið bara „ég samhryggist“.
Athugasemdir