Fyrir nokkrum vikum fékk ég stórmerkilega innsýn inn í alþjóðastjórnmál.
Ég var staddur í vinnuferð í Chisinau, höfuðborg Moldóvu, á laugardegi. Þetta var sjöunda skiptið sem ég hafði heimsótt þetta fátækasta land Evrópu, sem er kramið milli Rúmeníu og Úkraínu. Í austurhluta landsins er umdeilt sjálfstjórnarhérað sem rússneski herinn hefur hersetið. Landið heyrir nú undir fimmtu ríkisstjórnina á einu ári. Moldóva er pólitískt jarðsprengjusvæði.
Aldrei þessu vant átti ég frí. Ég fór því til Cricova ásamt kollega mínum og tveimur bandarískum heimildamyndagerðarmönnum.
Cricova er smábær rétt norðan við Chisinau, þar sem stærsti vínkjallari heims er grafinn niður í bergið. Um 120 kílómetrar af jarðgöngum á um 40-80 metra dýpi geyma rúmlega 1,5 milljón vínflöskur. Göngin bera ýmis nöfn, til dæmis Strada Cabarnet. Einn fjögurra kílómetra kafli var undirlagður af einni gerð freyðivíns. Við fengum að sjálfsögðu að smakka.
Undir lok sýnisferðarinnar var farið með okkur í rými þar sem ákveðin einkavínsöfn voru geymd. Við innganginn var veggur sem sýndi ýmis fyrirmenni heimsins í heimsókn í kjallarann.
Fremst voru minniháttar spámenn. Nokkrir framkvæmdastjórar Evrópusambandsins, einstaka forsætisráðherra eða utanríkisráðherra. Svo kom merkilegi parturinn.
„Einkasafn Vladimirs Putins, Rússlandsforseta, er beint á móti einkasafni Johns Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.“
Einkasafn Vladimirs Putins, Rússlandsforseta, er beint á móti einkasafni Johns Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Um þrír metrar aðskildu söfnin. Til hægri við Kerry var Angela Merkel með sitt safn, og svo José Barosso, fyrrverandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Í grennd við Putin voru ýmsir forsetar mið-Asíuríkja. Klaus Johannis, Rúmeníuforseti var þarna einhvers staðar á milli.
Öll uppröðunin var hápólitísk.
Þessi vínkjallari var spegilmynd af pólitísku ástandi heimsins. Það var eins og kjallarinn væri að sameina fólk í víni, fólk sem myndi aldrei sameinast í neinu öðru, en þó urðu samt allir að standa á réttum stöðum og stara á óvinina.
Þessi upplifun sýndi hversu langt stjórnmálaleiðtogar heimsins eru tilbúnir að ganga til að senda skilaboð. Afmarka sér svæði. Þetta sýndi líka hversu mannlegt þetta er allt saman, og kannski hversu barnalegt.
Að lokinni ferð var boðið upp á mat og smakk á níu víntegundum í litlum sal fyrir innan stóra salinn þar sem Putin hafði haldið upp á fimmtugsafmælið sitt. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig það endaði.
En hugsunin fór ekki burt: hvernig væri að fá bara alla stjórnmálaleiðtoga heimsins til að hittast þarna í kjallaranum, opna nokkrar vínflöskur, og læsa svo hurðinni þangað til að stóru málin væru afgreidd?
Friður í Úkraínu og annars staðar þar sem er stríð. Loftslagsbreytingar. Fátækt. Hungursneyð og heimilisleysi. Mengun sjávar og jafnrétti kynjanna. Þrælahald og mansal. Stríðin gegn hryðjuverkum, fíkniefnum og öllu öðru. Allt sem ætti að vera auðveldara en það virðist vera.
Það leysist nefnilega ansi margt með góðu víni í góðra vina hópi.
Athugasemdir