Umræðan um flóttamenn einkennist einna helst af óttaslegnum gífuryrðum og svarthvítri heimssýn tiltölulega ríks fólks sem vill ekki missa spón úr aski sínum og harðneitar að sýna samúð með helvítis útlendingunum. Þetta viðhorf er algjörlega andstyggilegt, en ókei, þá það.
Það eru þrír valkostir í stöðunni: að taka við flóttamönnum með opnum örmum og hjálpa þeim að vera gjaldgengir meðlimir okkar samfélags, að hafna þeim og þar með vísa þeim út í opinn dauðann, eða að binda enda á það ófremdarástand sem neyddi fólk til að flýja heimili sín. Það má jafnvel gera tvennt af þessu.
Sú leið sem stórveldin hafa farið að því markmiði að binda enda á stríðið í Sýrlandi, Írak og nú í síauknum mæli í suðurhluta Tyrklands, er að varpa sprengjum í hundraðatali úr mikilli hæð á „hernaðarleg skotmörk“ – til að mynda þorp, skóla, sjúkrahús, og jú, einstaka olíulind verður fyrir slysaskoti. Hvort sem litið er til hernaðarinngripa Rússlands, Tyrklands, Bretlands, Frakklands, Bandaríkjanna eða annarra landa, þá hefur árangurinn verið beinlínis neikvæður, því enn fleiri þjást en áður og ekkert lát er á stríðsátökunum.
Mig langar til að leggja til tvær tillögur um betri nálgun í þessu.
Olíukaup
Það væri ef til vill ráð að hætta að kaupa olíu af þeim sem eru að myrða fólk í massavís á svæðinu, þá sérstaklega ISIS. Nýlegt mat gaf til kynna að ISIS hagnist um rúmlega hundrað milljón krónur á dag vegna sölu á olíu, þótt sú tala hafi líklegast lækkað vegna lágs heimsmarkaðsverðs á olíu. Þessi peningur fer rakleiðis í kaup á vopnum og rekstur óformlegs hagkerfis.
Nú er þessi olía auðvitað ekki keypt beint frá ISIS, heldur fer hún langa leið að markaði. Sjálfstæðir bílstjórar sem eiga tanktrukka keyra að olíulindunum og bíða jafnvel mánuðum saman eftir að komast að dælunni. Þeir kaupa olíuna af ISIS á undirverði, oft í kringum 60% af heimsmarkaðsvirði. Svo keyra þeir til suðurhluta Írak, til Tyrklands, til Ísrael, og til annarra landa – hvert sem þeir telja að þeir geti fengið besta verðið – og selja þar farminn á í kringum 75-80% af heimsmarkaðsverði til braskara. Þessir braskarar setja svo olíuna saman við aðra olíu sem er svo að segja lögmæt, og selja á uppboðsmörkuðunum. Það er eftirlit til staðar, en það er mjög takmarkað, enda ótal aðilar í keðjunni sem græða á þessum viðskiptum.
Í stað þess að reyna að sprengja olíulindirnar með misjöfnum árangri væri hægt að eyða brotabroti af þeim peningum í að efla landamæragæslu, til dæmis með því að hleypa engri olíu út úr Sýrlandi.
„Í stað þess að mata stríðið með frekari vopnum væri hægt að hætta að selja vopn til allra aðila á svæðinu.“
Byssur, sprengjur, og skotfæri
Sum þeirra landa sem hafa verið hvað grófust í höfnun sinni á flóttamönnum til þessa eru lönd sem hafa haft mestan hag af stríðsástandinu í Sýrlandi, og reyndar víðar í Mið-Austurlöndum. Undanfarin ár hafa Evrópulönd margsinnis verið staðin að því að selja vopn til hryðjuverkasamtaka á svæðinu.
Þannig notaðist Jabhat al Nusra lengi vel við króatísk vopn. Serbnesk og búlgörsk vopn hafa verið flutt fjallabaksleiðina í gegnum Líbýu til Sýrlands. Endalaus vopnastraumur frá Rúmeníu og Slóvakíu endar í Saudi Arabíu, og er þar ýmist notaður í Yemen eða Sýrlandi, eða seldur áfram til samtaka á borð við ISIS, eftir því hver kaupandinn er. Þá eru stærstu vopnasalar heims líka inní spilinu: Bretland, Frakkland, Rússland og önnur lönd hafa selt vopn sem hafa með undraverðum hætti endað í höndum ISIS-liða. Já, sama ISIS og þau segjast svo vera að berjast á móti.
Jafnvel í þeim tilfellum sem þessi lönd selja vopn til „vottaðra uppreisnarhópa“ sem eru að berjast gegn ISIS og sambærilegum hópum (Jabhat al Nusra, FSA, Jaish al-Fatah og ADF eiga það til að gleymast núorðið, svo einhverjir hópar séu nefndir), þá tapa þau lið stundum og missa vopn í hendurnar á óvininum.
Í stað þess að mata stríðið með frekari vopnum væri hægt að hætta að selja vopn til allra aðila á svæðinu. Með aukinni landamæragæslu og lokun loftrýmis mætti stórminnka vopnasölu inn á átakasvæðin. Þannig verður vandamálið sjálfdautt með tíð og tíma.
Raunhyggjan lætur á sér kræla
Ef þessar lausnir hljóma fáránlega einfaldar þá er það vegna þess að þær eru það. En hvers vegna eru þessar leiðir þá ekki farnar? Jú, því Vesturlönd höfðu framan af engu að tapa á áframhaldandi stríðsátökum.
Aukið aðgengi að olíu á undirverði á heimsmarkaðnum grefur undan hagkerfi Rússlands, sem hentar Evrópulöndum ágætlega. Að hluta til vegna þessa fór tunnan niður fyrir $29 á dögunum. Royal Bank of Scotland spáir því að tunnan fari niður í $16 á árinu, sem gæti verið nóg til að eyðileggja hagkerfi ýmissa landa. Þannig fleytti Azerbaijan manatinu sínu á dögunum, en það hafði verið bundið við Bandaríkjadollar, en við þá fleytingu hrundi manatið um ríflega 40%. Rökin fyrir aðgerðinni voru að viðhalda erlendum olíuviðskiptum, þótt það þýddi verri efnahag innanlands – svo ekki sé talað um hvað það er dýrt að viðhalda bindingunni.
Svo er efnahagur mjög margra Evrópulanda að furðulega miklu leyti háður sölu á vopnum hvert sem hægt er. Ýmsar reglur eru viðhafðar til að skapa þá ímynd að eingöngu sé verið að selja vopn í varnarskyni, en það þarf engan snilling til að sjá að það er meira góðæri hjá vopnasölum á stríðstímum.
Það sem er áhugavert er að frá því síðasta sumar hefur þessi raunhyggja snúist upp í sjálfsskaðafíkn. Þau Evrópulönd sem græða mest á því að kynda undir stríðsátökin hafa fengið yfir sig holskeflu af flóttamönnum sem þau vita ekki hvað á að gera við. Sum löndin, á borð við Slóvakíu og Ungverjaland, hafa farið þá aumkunarverðu leið að loka landamærum sínum fyrir fólki á grundvelli trúarbragða og þjóðernis, í gargandi andstöðu við alla hugsanlega mannréttindasáttmála. Önnur, eins og Serbía, hafa tekið upp á því að skutla fólki frá einum enda landsins til annars, í von um að sem fæstir setjist að. Ef skynsemin væri ráðandi mætti spara sér tíma með því að fylla rúturnar af skotfærum á bakaleiðini, en hún er það ekki.
Svo er það Tyrkland. Recep Tayyip Erdoğan er hugsanlega orðinn meiri ógn við heimsfrið en sjálfur Vladimir Vladimirovich Putin. Með valdagræðgi sinni og þjóðernishyggju potar hann í alla þá dreka sem hann finnur. Með því hefur hann kallað yfir Tyrkland þvílíka reiði að þegar sprengja springur í Ankara eða Istanbul er vandkvæðum háð að vita hverjir stóðu að verki. Og þetta var tilfellið áður en hann fór að skjóta niður rússneskar herþotur og handtaka fræðimenn fyrir undirskriftasöfnun. Þetta kemst hann upp með af því að enginn þorir að segja neitt. Tyrkland er stuðpúði fyrir önnur NATO-lönd, og Erdoğan veit það.
Þangað til að evrópskir leiðtogar stíga á bremsuna gagnvart allri þessari klikkun mun ekkert skána í Sýrlandi. Hundruð þúsunda í viðbót munu deyja, hundruð þúsunda í viðbót munu flýja, og öll útlendingahræðsla ríka fólksins á Vesturlöndum verður gjörsamlega gagnslaus.
Annað hvort frið eða hagnað. Það er ekki hægt að fá bæði lengur.
Athugasemdir