„Það er vilji þjóðarinnar sem ræður“ segir forsetinn í helgarviðtali DV um síðustu helgi, og „Lærdómurinn er sá að þjóðin ræður“.
Þannig er lýðræðið, – þjóðin ræður. En hvernig ræður þjóðin? Jú, forsetinn hlýtur hér að vera að vísa til þess að það er þjóðin sem gerir upp hug sinn og ræður úrslitum í almennum kosningum, það er að segja þjóðin sem kjósendur ræður. En hver er hann þessi vilji þjóðarinnar? Er hægt að gefa sér að vilji þjóðarinnar sé skýr; nánast fyrirfram skilgreindur vilji? Að þjóðin sé samansafn einstaklinga sem vita nákvæmlega hvað þeir vilja í þessum efnum; að þeir viti sjálfir alltaf best hvað þeim er fyrir bestu og velji og hafni í samræmi við það? Ef það er tilfellið, þá væri engin þörf fyrir auglýsingar og áróður væri tilgangslaus. En eins og við vitum þá virka bæði auglýsingar og áróður með eindæmum vel, einkum þar sem skortur er á góðum upplýsingum og tíma til að vinna úr slíkum upplýsingum. Hvorki stjórnmálin né viðskiptalífið myndu verja milljónum á milljónum ofan í auglýsinga- og almannatengslafyrirtæki, ef auglýsingaáróður virkaði ekki.
Viðtalið í DV um helgina sýnir að forsetinn kann þá list að ögra og kalla fram viðbrögð sem svo gagnast honum til að nota sem dæmi um sundrung og sundurlyndi í samfélaginu; sundruð þjóð þarf sterkan leiðtoga á Bessastöðum; einstakling eins og hann sem lætur „ekki haggast í róti umræðunnar“. Sundurlyndi hefur löngum verið kjörlendi þeirra sem vilja deila og drottna.
„Hvað eftir annað hafa leikir og lærðir klórað sér í kollinum yfir orðalagi forsetans.“
Hvað sagði forsetinn?
Svona fór þá forsetinn að því að tilkynna um framboð sitt til forsetakosninganna 2016. Þetta var ekki beinlínis skýrt orðað hjá forsetanum frekar en fyrri daginn. Það er heldur ekkert nýtt að kalla þurfi til lærða menn og spaka í fræðum forsetans til að ráða í orð þessa forseta þjóðarinnar; forseta þessarar sömu þjóðar sem hann vísar til þegar hann segir „þjóðin ræður“. Hvað eftir annað hafa leikir og lærðir klórað sér í kollinum yfir orðalagi forsetans. Í margar vikur eftir að forsetinn hefur talað hafa menn föndrað við að ráða í merkingu þeirra skilaboða, sem ef til vill má finna þar, ef menn rýna vel í textann. Svo þarf að skoða skilaboðin og skilja þau í stóra samhenginu sem einna helst má finna á taflborði stjórnmálanna. „Hvað sagði forsetinn?“ er spurning sem er orðin að samkvæmisleik hjá þjóðinni, en alls ekki þjóðinni allri.
Þessi forseti talar nefnilega ekki skýrt. Forseti, sem talar þannig að kalla þarf til sérfræðinga í stjórnmálafræðum til að túlka og útskýra skilaboðin, er forseti „elítunnar“ en ekki forseti almennings; fólksins í landinu. Forseti sem er kosinn til embættis í almennum kosningum á að vera forseti fólksins. Slíkur forseti á að tala skýrt og afdráttarlaust svo umbjóðendur hans, kjósendur, skilji forseta sinn án þess að þurfa til þess aðstoð sérfræðinga. Forseti sem aftur á móti virðist nota aðferðir leikjafræðanna og kænskubrögð úr heimi stjórnmálanna, í samskiptum sínum við kjósendur, er að leika sér með athygli kjósenda til að þjóna sínum eigin markmiðum.
„Að vera óskýr og skapa óvissu er stjórntæki í pólitískri umræðu.“
Pólitík óvissu og ótta
Forsetinn talar ekki skýrt og margt bendir reyndar til þess að hann tali óskýrt af ásettu ráði. Þetta er nefnilega forseti sem bæði veit og kann til verka þegar kemur að því að heyja kosningabaráttu. Að ná athygli kjósenda í vaxandi samkeppni við langa vinnudaga, ágengar auglýsingar og afþreyingariðnaðinn er vel af sér vikið. Að ná athyglinni, viðhalda henni og móta um leið skoðanir kjósenda og þar með ráða niðurstöðum kosninga er pólitískt afrek. Slík afrek hafa verið útskýrð með rannsóknum á mannlegri hegðun við ákvarðanatöku í óvissuástandi. Ein uppskriftin að slíku afreki er að höfða til tilfinninga fólks með því að búa til óvissu og ótta. Að tala um óvissu og höfða til ótta hefur meðal annars einkennt framgöngu og boðskap forsetans, einkum í seinni tíð.
Forsetinn talar ekki bara um óvissu, hann er sjálfur uppspretta óvissu með því að tala óskýrt. Að vera óskýr og skapa óvissu er stjórntæki í pólitískri umræðu. Stjórntækið á sér rætur í leikjafræðum. Með óvissu hefur sá sem henni beitir umtalsvert forskot á aðra um leið og hann getur búið til eftirspurn eftir sjálfum sér. Að vekja upp ótta magnar óvissu, sem þannig verður áhrifaríkari sem stjórntæki í umræðunni. Þeir sem hvort tveggja í senn þekkja þessi fræði og hafa öðlast leikni með reynslu af að beita þeim, eru óneitanlega vel settir í samkeppninni um athygli kjósenda. Fáir virðast vera betur að sér í þessum efnum en forsetinn.
„Ungt fólk bæði þorir og getur mætt framtíðinni án Ólafs Ragnars Grímssonar sem forseta.“
Óhrædda unga fólkið
Það er í mannlegu eðli að leita í öryggið. Ótti fær okkur til að forðast óvissu og halla okkur að því sem er kunnuglegt. Þannig getur ótti við óvissu ekki aðeins haldið okkur í viðjum fortíðar heldur staðið í vegi fyrir leitinni að nýjum áskorunum og nýrri þekkingu. Það er vissulega rétt sem forsetinn segir í viðtalinu í DV: „Ungt fólk þarf að fá skilaboð um að það er hægt að ná miklum árangri með því að byggja áfram á Íslandi sem heimavelli um leið og tekist er á við erfiðleika og vandamál á raunsæjan hátt og sameinast um umbætur“.
Aftur á móti veit ungt fólk í dag betur. Ungt fólk bæði þorir og getur mætt framtíðinni án Ólafs Ragnars Grímssonar sem forseta. Ef vandi forsetans, eftir 20 ár í embætti, er sá að geta ekki hætt vegna fjölda áskorana, þá gerir hann þjóð sinni landföðurlegan greiða; hann losar þjóðina úr viðjum kaldastríðsstjórnmála, – og hættir. Það gæti verið betra fyrir lýðræðið í landinu.
Athugasemdir