„Það er ljóst að kerfið hefur brugðist, algjörlega brugðist. Bæði í aðdraganda efnahagskreppunnar sem reið yfir Evrópu og eins eftir. Ég vona bara að yngri kynslóðir hafi stöðu til þess að búa til betra samfélag, réttlátara samfélag þar sem ekki eru klíkuskapur og pólitík sem ráða för,“ sagði Ólafur Ólafsson, fjárfestir og eigandi flutningafyrirtækisins Samskipa, í viðtali í Íslandi í dag á Stöð 2 í gær.
Viðtalið var við þá Ólaf, Sigurð Einarsson og Magnús Guðmundsson sem afplána fangelsisdóma á Kvíabryggju á Snæfellsnesi vegna Al Thani málsins. Viðtalið er það fyrst sem birt hefur verið við þá í sjónvarpi eftir að þeir hófu afplánun á fyrri hluta árs 2015.
Þegar ég heyrði þessi orð um óréttlæti íslensks samfélags spurði ég mig að því hvort hér væri kominn á skjáinn réttsýnn mannréttindalögfræðingur, forsetaframbjóðandi með hjartað á réttum stað, einhver lærisveinn Abrahams Lincolns eða þá bara sjálf Móðir Teresa. Nei, þetta var kaupsýslumaðurinn harðdrægi Ólafur Ólafsson sem talaði og hann meinaði greinilega hvert orð sem hann sagði um þetta „Nýja-Ísland“.
„Ég vona bara að yngri kynslóðir hafi stöðu til þess að búa til betra samfélag, réttlátara samfélag þar sem ekki eru klíkuskapur og pólitík sem ráða för“
Ummæli Ólafs um mikilvægi þess að búa til réttlátt samfélag á Íslandi þar sem „klíkuskapur og pólitík“ ráða ekki för eru athyglisverð sökum þess að hann var einn af kaupendum Búnaðarbanka Íslands árið 2003 í einkavæðingarferli sem gagnrýnt hefur verið vegna pólitískrar spillingar. Í kynningu rannsóknarnefndar Alþingis á skýrslu sinni sagði til dæmis um einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans: „Stjórnvöld stóðu illa að einkavæðingu bankanna.“
Fjallað er um einkavæðingu ríkisbankanna í sérstökum kafla í skýrslunni í sjálfri og er einkavæðingarferlið gagnrýnt þar í löngu máli.
Einn af öðrum kaupendum Búnaðarbankans var Finnur Ingólfsson, fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins, og varð myndin af honum og Ólafi eftir undirritun samningsins um kaupin á bankanum þekkt hér á landi ákveðið tákn fyrir þessa broguðu bankasölu.
Ólafur varð einn stærsti hluthafi sameinaðs Búnaðarbanka og Kaupþings næstu árin þar á eftir og snerist dómurinn í Al Thani svo um hvernig stjórnendur og hluthafar í Kaupþingi beittu markaðsmisnotkun í þeim viðskiptum til að viðhalda trú markaðarins og almennings á bankanum í september árið 2008. Ólafur hlaut því dóm vegna aðgerða sinna sem hluthafi í banka sem hann eignaðist hlut í í einkavæðingarferli sem er mjög svo umdeilt vegna „klíkuskapar“ og „pólitíkur“.
Afskipti Ólafs Ólafssonar af einkavæðingu Vátryggingafélags Íslands eru einnig kunn en frá þeim var greint í úttekt í Fréttablaðinu árið 2005. Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, var lykilmaður í þeirri ákvarðanatöku ríkisstjórnarinnar að selja hlutabréfin í VÍS og var salan hluti af söluferli ríkisbankanna, Búnaðarbankans og Landsbankans, sem stóð yfir á þessum tíma síðla árs árið 2002.
Á þessum tíma lá fyrir áhugi frá þeim Björgólfi Guðmundssyni og syni hans, Bjögólfi Thor um að kaupa Landsbanka Íslands. Halldór hótaði því að hætta við sölu ríkisbankanna ef hlutabréfin í VÍS yrðu ekki seld út úr bankanum áður en hann yrði seldur þeim feðgum. Í greinaflokki Fréttablaðsins kom fram að Ólafur Ólafsson hefði lagt hart að Halldóri í samtali í síma að sjá til þess að hlutabréfin í VÍS yrðu seld út úr Landsbankanum áður en hann yrði einkavæddur. Meðlimir S-hópsins lögðu mikið upp úr því að Björgólfsfeðgar fengu ekki bæði að kaupa Landsbankanum og eiga áfram bréfin í VÍS sem bankinn átti og var talað um að VÍS-bréfin væru eins konar sárabót fyrir þá vegna þess að þeir fengu ekki að kaupa Landsbankann. Ólafur Ólafsson var því einnig hreyfiafl í þessu pólitíska einkavæðingarferli.
Halldór gekkst við því að hafa rætt við fulltrúa S-hópsins í síma, sem og einstaklinga úr öðrum fjárfestahópi sem kenndur var við Kaldbak, en sagði að það væri ekki óeðlilegt þar sem það væru á endanum ráðherrarnir sem tækju ákvarðanirnar í slíkum málum. Halldór tók hins vegar ekki fram að hann hefði rætt við Ólaf líkt og kom fram í Fréttablaðinu.
Á milli þess sem viðskipti S-hópsins með hlutabréfin í VÍS - ágúst 2003 - og kaup hópsins á Búnaðarbankanum - janúar 2003 - afsalaði eitt af fyrirtækjum Ólafs Ólafssonar, Ker hf., sér húsi á Hverfisgötunni til Framsóknarflokksins í viðskiptum sem ekki liggja fyllilega ljós fyrir. Ekkert kaupverð er tekið fram í opinberum gögnum. Þau viðskipti áttu sér stað í desember árið 2002. Halldór Ásgrímsson og Guðni Ágústsson skrifuðu undir þau viðskipti fyrir Framsóknarflokkinn en Halldór hafði þá skömmu áður átt í samskiptum við Ólaf út af sölu hlutabréfanna í VÍS.
Að minnsta kosti má segja að það sé grunsamlegt og líti illa út að fyrirtæki tengt Ólafi Ólafssyni hafi afsalað sér húsi til Framsóknarflokksins á nákvæmlega þessum tíma og að forsendur viðskiptanna liggi ekki fyrir. Enn í dag hýsir þetta hús á Hverfisgötunni skrifstofu Framsóknarflokksins.
Ólafur Ólafsson á sér því nokkra sögu þar sem viðskipti hans og stjórnmálaflokks - Framsóknarflokksins - tvinnast saman.
„Þar af leiðandi eru þessi ummæli hans fyrst og fremst bara vandræðaleg og benda til einhverrar blindu sem ég kann ekki við að nefna.“
Kannski telur Ólafur fráleitt að halda því fram að pólitískur klíkuskapur hafi ráðið för við sölu VÍS og Búnaðarbankans og að slíkt sé með öllu ósannað. Þar af leiðandi sé ekkert því til fyrirstöðu að hann gagnrýni „pólitík“ og „klíkuskap“ í íslensku samfélagi. Hvenær nákvæmlega það gerðist að hans mati að kerfið á Íslandi byrjaði að bregðast á árunum fyrir hrunið 2008 liggur þá heldur ekki fyrir. Niðurstaðan í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um þetta er hins vegar nokkuð skýr: Kerfið og stjórnmálaflokkarnir sem seldu Ólafi Ólafssyni og viðskiptafélögum hans Búnaðarbankann gerði mistök. Kerfið byrjaði að bregðast strax árið 2002 og jafnvel fyrr.
Hvað er Ólafur eiginlega að tala um þegar hann talar um að kerfið hafi brugðist? Út frá orðum hans er ljóst að hann telur að það kerfi sem hann var dæmdur innan hafi brugðist og virðist hann telja að niðurstöður dómsmálsins gegn sér séu lituð af „pólitík“ þrátt fyrir afgerandi dóm Hæstaréttar Íslands í málinu.
Ef Ólafur lítur hins vegar svo að „klíkuskapur“ hafi ráðið í viðskiptunum með Búnaðarbankann og Vátryggingarfélag Íslands er heldur ekki ljóst hvort hann sér eftir þeim viðskiptum og telji að ríkisvaldið eigi að læra af þeirri reynslu sinni og selja ríkisfyrirtæki með gagnsærri hætti í framtíðinni. Er Ólafur þá að gagnrýna þau stjórnvöld sem seldu honum og viðskiptafélögum hans Vátryggingafélag Íslands og Búnaðarbankann árið 2003? Felst þá líka sjálfsgagnrýni í þessum orðum hans fyrir að taka þátt í spilltum viðskiptum? Ef hann sér þetta svona þá var kerfið sem seldi honum Búnaðarbankann gallað og litað af „klíkuskap“ og „pólitík“ og eins kerfið sem hann var dæmdur innan.
Alveg sama hvernig Ólafur lítur sjálfur á þessi viðskipti sín við íslenska ríkið á árunum 2002 og 2003 þá er merkilegt að gagnrýni á „kerfið“ á Íslandi komi úr þessari því það var innan þessa kerfis sem Ólafur Ólafsson fékk að kaupa ríkisbanka og margt bendir til þess að það hafi verið vegna sams konar „klíkuskapar“ og „pólitíkur“ og hann gagnrýnir nú. Þetta er kerfið sem átti þátt í að Ólafur Ólafsson komst í þá stöðu að vera stór hluthafi Búnaðarbankans og síðar Kaupþings og þar af leiðandi á það sinn hátt í vegferð hans að Al-Thani málinu sem hann situr í súpunni út af í dag.
Og ef það er eitt sem við vitum um einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands árið 2003 - sama svo sem hvort orðið „spilling“ er notað eða ekki - þá er það að í þeim viðskiptum voru það sannarlega „klíkuskapur og pólitík“ sem voru ráðandi. Í raun er miklu fleira sem bendir til að stjórnmálakerfið sem seldi Ólafi Ólafssyni og S-hópnum Búnaðarbankann hafi „brugðist“ frekar en dómskerfið sem kvað upp dóminn í Al Thani-málinu og Ólafur vænir um ófagleg vinnubrögð.
Þar af leiðandi eru þessi ummæli hans fyrst og fremst bara vandræðaleg og benda til einhverrar blindu sem ég kann ekki við að nefna.
Athugasemdir