Í Þýskalandi er oft talað um hina þúsund ára skömm. Afleiðingu heimstyrjaldar og helfarar sem sett hefur verið á reikning þjóðarinnar. Spurt hefur verið: Hvar voru réttsýnir Þjóðverjar með vott af sómakennd þegar hryllingurinn gekk yfir?
Í gær gerðist sögulegur atburður á Austurvelli. Fréttastofur sögðu frá nokkrum einstaklingum sem mótmæltu á Austurvelli útlendingalögum, sem þeir skildu ekki til fullnustu. En það sem gerðist á sama tíma var fyrsta opinbera samkoma íslenskra fasista frá lokum seinni heimstyrjaldar. Það er á sama tíma sögulegt og ógnvekjandi.
Akkúrat núna er Íslenska Þjóðfylkingin neðanmálsgrein og brandari. Virkir í athugasemdum búnir að rotta sig saman í ótta. Krumpaðir í leðurjökkum með algjörlega handónýta stafsetningu. Þeir ala á hatri og hræðslu. Lifa og hrærast í sinni eigin litlu bólu þar sem fréttir frá vafasömum miðlum, youtube myndbönd sem rök og illa ígrundaðar skoðanir fá að bergmála þar til engin rök bíta á.
Fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar var Framsókn- og flugvallarvinir líka brandari. Tilraun Framsóknar til þess að trekta kosningarnar niður í eitt mál, flugvöllinn, var ekki að ganga. Þeir höfðu leikið sama leik í síðustu alþingiskosningum, töfrabragðið leiðréttingin, með góðum árangri. Þegar nær dróg kosningum var ljóst að vera eða brottför flugvallarins skipti kjósendur ekki nægu máli til þess að flokkurinn kæmi manni inn. Þá var skipt um Málið Eina og fordómum var troðið í trektina. Skattasniðgangarinn Sveinbjörg Birna stóð á torgum úti og frussaði því út úr sér að hún vildi sko enga mosku sjá. Allar sveitastjórnarkosningar í öllum bæjarfélögum landsins fóru skyndilega að snúast um eitt stefnumál eins smáflokks. Í kjölfarið fór fylgi fasistanna úr 4 upp í 10.7% og úr 0 upp í 2 borgarfulltrúa. Þar við sat. Framsóknar flugslysið hefur svo haldið áfram að puða og stuða með sínu stöðuga tuði, ósmekklegum skipunum í mannréttindaráð og aflandsfélögum.
Þannig Þjóðfylkingin er vissulega enn aðeins neðanmálsgrein. Örfáir illa upplýstir og háværir einstaklingar með læti. En þegar kemur að kosningum munu þeir fá stærra svið til að marsera á. Skáparasistar á Íslandi eru ófáir, eins og árangur Framsóknar í borginni sýndi. Misnotkun á lýðræðinu er ekki lengur tilviljun. Göbbels gerði strengjabrúðurnar kjósendur að listformi, sem það svo hefur verið í 80 ár. Kjósi stjórnmálafólk að nota áróður og höfða til óttans við hið óþekkta til þess að ná völdum er það mjög aðgengilegur möguleiki. Nái þjóðfylkingin að bjóða fram á landsvísu í komandi kosningum þá munu hinir fordómafullu þöglu fara á kjörstað og gefa þeim atkvæði sitt. Íslenskir fasistar munu ná fólki inn á þing. Og þegar það gerist mun brandarinn hætta að vera fyndinn.
---
Fasistarnir koma ekki alltaf marserandi inn með þýskan hreim í leðurstígvélum með hakakross á upphandleggnum hatandi gyðinga.
Stundum læðast þeir inn bakdyramegin með íslenska fánann, syngjandi þjóðsönginn, hatandi múslima og sannleikann.
---
Hvar varst þú þegar íslenskir fasistar marseruðu á Austurvelli? Hvar varst þú þegar þeir komu manni á þing? Hvað sagðir þú þegar öfgar og ótti réðu ríkjum?
Athugasemdir