Fyrir fjórum áratugum voru þau Erla Bolladóttir og Sævar Ciesielski svipt frelsinu vegna gruns um aðild að fjársvikum. Eftir að hafa fært Sævar í járn, og þaðan í kompustærðarklefa hvar hann mátti kúldrast næstu árin, hirtu yfirvöld velflestar eigur hans í sína vörslu. Þegar hann svo krafðist þeirra aftur — að undangenginni langri fangelsisvist vegna morða sem ekkert bendir til að séu annað en leirburður hálfskálda í svörtum og stjörnumerktum búningum — þóttist enginn kannast við hvað orðið hefði af þeim. Til plastpoka sást hér og annars þar, en bróðurpartur eignanna var einfaldlega sagður horfinn — örlög þeirra sömu hulu sveipuð og mannanna tveggja sem sagðir voru myrtir.
Meðal hinna horfnu hluta voru kvikmyndahandrit og filmubútar Sævars. Sköpunarverk stráks sem skoðaði heiminn og hreyfingu sína í honum gegnum linsu myndavélarinnar — hvort sem hún var efnisleg eða smíðuð úr ímyndunarafli og fjórum fingrum til. Að mestu óuppfylltir draumar manns sem sótti menntun sína í kvikmyndir, líkti minningum við filmubrot, og barðist við að halda geðheilsu sinni heilli í áralangri einangrun með framleiðslu hverrar myndarinnar á fætur annarri. Með aðstoð bóka má finna smjörþefinn af uppskriftum sem ætlaðar voru endanlegri raungervingu á hvíta tjaldinu. Verkin sjálf, aftur á móti, eru líklegast glötuð að eilífu: líkurnar á uppgreftri þeirra virðast ámóta litlar og að Guðmundur og Geirfinnur birtist jafnt snögglega og þeir gufuðu upp.
Saga mannfélaga er uppfull af atvikum sem segja má að núllstilli tímann með táknrænum hætti. Hvort sem um er að ræða fæðingu Jesú Maríusonar eða fall Berlínarmúrsins, frönsku byltinguna eða hrun tvíburaturnana, almannavæðingu veraldarvefsins eða jafnvel framtíðarkosningasigur franska múslimaflokksins sem nýjasta skáldsaga Michel Houellebecq kjarnast um — allir rista þessir atburðir línur sem móta vitund og verund bæði einstaklinga og samfélaga. Þeir sem lifa þá komast fæstir hjá því að finna fyrir áhrifum þeirra og afleiddum breytingum á eigin húð og huga. Þeir sem fæðast í kjölfar þeirra skynja flestir hið breytta ástand sem sjálfgefna undirstöðu tilveru sinnar. Meginþorri beggja hópa álítur að burtséð frá öllu því sem kunni að búa í framtíðinni verði að minnsta kosti aldrei snúið aftur.
„Saga mannfélaga er uppfull af atvikum sem segja má að núllstilli tímann með táknrænum hætti.“
Einstaklingar keppast einnig ófáir við að núllstilla sig: lýsa hrakfallaríkum forsögum sínum stríð á hendur, berskjalda sig á fjölsóttum samfélagsmiðlasíðum og í söluvænlegum forsíðuviðtölum, opna sig um allrakynja harmleiki og viðhengdar krísur af ólíkasta toga sem þaðan í frá skulu aðeins heyra sögunni til. Gangi allt eftir áætlun stendur einstaklingurinn tví- eða þríefldur eftir — búinn nýju og vonandi varanlegu eldsneyti sem verður til við þessi geðhreinsandi og valdeflandi tímamót. Höfuðin eru skorin af blóðsugum fortíðarinnar og járnhælar negldir gegnum tjörusvört hjörtun.
Núllstillingu getur þó einnig verið ætlað hið þveröfuga. Með því að láta eigur Sævars Ciesielski hverfa og gera þannig að engu það sem svo marga skiptir einna mestu — hans eigin sköpun — er sem beinlínis hafi verið stefnt að því þurrka út lit- og blæbrigðaríka tilveru hans, smætta hana með útsmognum og kerfisbundnum hætti niður í hið eina hlutverk sem honum var allt sitt líf gert að þjóna í samskiptum sínum og átökum við yfirvöld: hlutverk glæpamannsins, morðingjans, fangans. Skapa þannig aðstæður sem gæfu til kynna að tilvistarlegur upphafspunktur hans væri refsingin — sníða þar með tóm sem tæki á móti honum gæti hann einn daginn frjáls um höfuð strokið.
Birtust Guðmundur og Geirfinnur skyndilega, bókstaflega eða sem upplýsingar um afdrif þeirra, yrði samtímis til núllpunktur sem leitt gæti til sögulegra breytinga. Kæmu handrit Sævars hins vegar í ljós byggðist brú yfir til tíma aftan upphafspunkts. Og þá mætti aukinheldur — með aðstoð kvikmyndavélarinnar — og jafnvel þó ekki væri nema með táknrænum hætti — afturkalla virkni þeirrar óumbeðnu og ofbeldisfullu núllstillingar sem framkvæmd var fyrir fjörutíu árum.
Athugasemdir