Óttar Guðmundsson.
Ég nenni eiginlega ekki að svara þessu, en það að menntamaður ákveði að úthúða mér á fjölmiðli get ég ekki látið ósnert. Er það ekki svolítið barnalegt að skrifa heila færslu á landlægan fréttamiðil um mál sem þú veist ekkert um fyrir utan Facebook réttlætingar vinar þíns? Hafið þið ekkert annað að tala um?
Ég fór í blaðaviðtal og talaði um mína reynslu af allskonar málum, til dæmis verkefni sem ég var í þar sem ég upplifði hegðun frá samstarfsmanni sem einelti, já einelti. Það er stór munur á vinnustaðaeinelti og einelti skólabarna, það ættir þú að vita Óttar. Ég tiltók tvö atriði sem einhverskonar dæmi úr miklu stærra mengi. Tiltekinn einstaklingur, sem ég nafngreindi ekki og kýs enn þá ekki að gera, setti þá status á sitt Facebook sem gerði lítið úr mér, upplifun minni og allra sem verða fyrir vinnustaðaeinelti og hélt í raun eineltinu áfram með því að gera úr því fjölmiðladrama þar sem hann nafngreinir sig sjálfur og kemur með einhverjar réttlætingar og lítilsvirðingar um mig.
Með fullri virðingu Óttar, hver ert þú að dæma um upplifun manneskju sem þú ekki þekkir, um atvik sem þú varst ekki einu sinni vitni að? Þú hefur einungis réttlætingar og lítilsvirðingu frá meintum geranda málsins sem þínar „sannanir“. Ég hef engan áhuga á því að útlista öll þau atvik sem létu mér líða illa og ætti ekki að þurfa þess. Af hverju? Til þess að dómstóll götunnar gæti ákveðið með hverjum þeir standa?
Ég nefndi tvö dæmi. Annars vegar þegar hann kastaði súkkulaðimolum í ólétta samstarfskonu sem hafði mikið fyrir því að gera sig fína fyrir beina útsendingu í öllu hvítu fyrir úrslitaþátt. Hins vegar þegar maðurinn sagði að ég væri vanhæf móðir, rændi mig þar með augnablikinu þar sem ég tilkynnti um mína fyrstu óléttu, og hvatti yfirmenn okkar til að reka mig fyrir framan alla. Ekki grunaði mig að þessi tvö atvik myndu þykja það lítil að fullorðnir menn myndu setjast niður og skrifa á landslægan fréttamiðil um hversu mikill aumingjaskapur þetta væri af minni hálfu og að ég greinilega skildi ekki djókið. Ef þú nefnir mér eina konu í öllum heiminum sem myndi skilja þetta djók skal ég borða orðin einelti. Ég skal búa til stafasúpu á hverju kvöldi og éta orðin ofan í mig aftur og aftur og aftur þrátt fyrir glútenóþol. Af hverju ætti ég að þurfa að útlista fleiri dæmi ef ég segi að mín upplifun hafi verið einelti? Fyrir karla eins og þig?
Af þessum fjölmörgu afsökunarbeiðnum þá fékk ég enga. Hins vegar voru hans Facebook fylgjendur látnir halda það með einhverjum bullfærslum sem ég sé ekki einu sinni því að ég tók þennan mann út af mínum vinalista því að við erum ekki vinir. Einu orðin sem ég hef heyrt er „ég er búin að biðjast afsökunar“. Á sínum tíma fattaði þessi einstaklingur ekki einu sinni að hann hefði farið langt yfir strikið fyrr en önnur fullorðin samstarfskona þurfti að segja honum það. Þá fékk ég „ekki vera að hlusta á bullið í mér“. Aftur - ekki afsökunarbeiðni. Afsökunarbeiðni er eitt orð: Fyrirgefðu. Og helst með einlægni og skilningi á hvernig maður lét manneskjunni líða.
Eftir þessi atvik var mér sagt upp störfum. Fyrst var ég rekin ólétt úr einu verkefni og önnur kona var ráðin í hitt verkefnið sem ég var í fæðingarorlofi frá sama fyrirtæki. Ég fór ekki í viðtal til þess að tala um þetta mál, ég fór í viðtal og opnaði mig af einlægni um allskonar mál sem gætu jafnvel styrkt og stutt margar aðrar konur sem hafa gengið í gegnum svipaða reynslu. Ég talaði um nauðgun á mínum unglingsárum, ég talaði um að ég fékk áfallastreituröskun eftir Hellp-meðgöngueitrun sem ég tel að sýni styrk og hugrekki og ég ræddi lítillega um þetta mál sem þú vitnar í. Viðtalið snerist ekki persónulega um neinn nema mig og mína upplifun. Engin var nafngreindur.
Eftir að ég fór í þetta viðtal hafa margir miðaldra karlmenn talað um þetta mál í fjölmiðlum, útvarpi, sjónvarpi, blöðum, Facebook og Twitter. Eins og að þeir viti eitthvað um hvað málið snýst. Veistu, akkúrat hér er enginn að óska eftir samúð, auglýsingum eða að lítilsvirða eineltisfórnarlömb nema þú og þessi vinur þinn sem þú sérð þig knúinn til þess að skrifa heilan pistil til varnar um.
Stundum er fallegi hrafninn í raun bara lundi. Uppblásin auglýsingafígúra sem sem snýst í vindinum. Guð bara falsgoð, þannig er lífið.
En þakka þér fyrir að benda mér á hversu mikil vinna er fyrir höndum fyrir mig og aðrar ungar konur sem verða fyrir kynbundnu óréttlæti varðandi uppsagnir þegar við erum óléttar eða með börn á brjósti, hversu lítið er gert úr fólki sem stígur fram, hversu langt í land það er fyrir marga að virðingu, jafnrétti og kærleik og hversu langt frá móðurlandinu þinn bátur ratar.
Komdu bara heim, við skulum knúsa þig.
Ást og friður
Þórunn Antonía
Athugasemdir