Frelsissamtök Palestínu hétu einmitt það og ekkert annað.
Aðskilnaðarsamtök Baska á Spáni og Írski lýðveldisherinn heita ekkert annað. En Íslamska ríkið gengur að minnsta kosti undir fjórum eða fimm mismunandi nöfnum á enskri tungu og getur þetta valdið nokkrum ruglingi, því um mismunandi vísanir til landsvæða og mismunandi hugtaka er að ræða.
Á vefsíðunni VOX.com birtist fyrir skömmu áhugaverð grein sem á ensku bar yfirskriftina „Why John Kerry and the French president are calling ISIS „Daesh“. Í greininni segir að nokkur ágreiningur sé á milli hina ýmsu fjölmiðlafyrirtækja um það hvað eigi að kalla þessi ógnvænlegustu hryðjuverkasamtök veraldar. Samkvæmt Vox.com má þó að mestu leyti kenna samtökunum sjálfum um þetta, því þau séu sífellt að skipta um nafn.
Jórdaninn Zarqawi upphafsmaður
Rekja upphaf samtakanna til ársins 1999 en þá tóku þau sér nafnið „Eining og heilagt stríð“ (Unity and Jihad – Jamaat al-Tawhid wal-Jihad). Upphafsmaðurinn, Jórdaninn Abu Musab al-Zarqawi sór þáverandi Al-Kaída hins vegar eið árið 2004 og breytti nafni þeirra í „Al-Kaída í Írak.“ Þetta er ári eftir að Bandaríkjamenn réðust inn í Írak samkvæmt skipun George Bush, þáverandi forseta. Zarqawi var drepinn sumarið 2006, þá aðeins 40 ára gamall, í loftárás Bandaríkjanmanna í Írak.
Í kjölfar landvinninga í N-Írak árið 2006 breyttu samtökin um enn um nafn og hófu að kalla sig Íslamska ríkið í Írak (Islamic State in Iraq). Árið 2013, þegar samtökin náðu svo svæðum í Sýrlandi bættist svo hugtakið „al-Sham“ og þá hétu þau Islamic State in Iraq and al-Sham, það er að segja, ISIS. Hugtakið „Bilad al-Sham“ þýðir „land norðursins“ og vísar til svæðis sem nær í raun allt frá Spáni, meðfram Miðjarðarhafi og til þess sem er Írak í dag, að Egyptalandi meðtöldu.
Í raun er um að ræða svæði sem nokkur múslímsk kalífadæmi náðu yfir fyrir meira en þúsund árum síðan. Forsvarsmenn íslamska ríkisins hafa einmitt lýst yfir stofnun kalífadæmis á yfirráðavæðum sínum og vísa til þessara fornu kalífadæma í málflutningi sínum.
Sumir vilja einnig kalla ,,al-Sham“- svæðið ,,the Levant“ á ensku og þaðan af sprettur orðið ISIL (Islamic State and the Levant). Forsvarsmenn Hvíta hússins í Washington og þar með bandaríska forsetans hafa meðal annars nota ISIL-hugtakið.
Daesh bannað
Annað nafn sem einnig er notað í umræðunni er „Daesh“ (Dassj í íslenskum hljóðframburði). Þetta er orð sem leiðtogum þessa fyrirbæris líkar ekki við vegna það er svo líkt arabíska orðinu „dahes“ sem þýðir „sá sem sáir illindum“ eða álíka. Innan yfirráðasvæða íslamska ríkisins er því bannað að nota þetta orð. En John Kerry og forseti Frakklands, François Hollande nota þetta orð grimmt.
Samkvæmt greininni á Vox.com er orðið sem leiðtogar allra þessarar nafnasúpu vilja nota þetta: „Íslamska ríkið“. Með því er talið að þeir nái helst að selja boðskap sinn, meðal annars um það að þetta sé það múslímska ríki sem allir múslímar eigi að hlýða. Notkun ráðamanna á hugtakinu „Daesh“ gefur hins vegar í skyn að hér sé hvorki um að ræða lögmætt ríki eða raunverulega fulltrúa hins múslímska hugmyndaheims.
Í greininni kemur einnig fram að þar sem ISIS hafi í raun gert tilkall til ákveðins landsvæðis, þurfi það að heyja „hefðbundið stríð“ til þess að verja það landsvæði, en hér sé t.d. ekki um að ræða sjálfsstæðisstríð, eins og raunin var til dæmis í Víetnam á sínum tíma, þar sem þjóðfrelsisfylking barst fyrir sameiningu og sjálfstæði Víetnams undir merkjum kommúnisma. Það stríð unnu kommúnistar (N-Víetnam og Víetkong skæruliðar) árið 1975 og var það fyrsta stríðið sem Bandaríkjamenn töpuðu, sem studdu ríkisstjórn S-Víetnam.
En hvað segir Google? Samkvæmt könnum sem birtist í greininni er ISIS það nafn sem hefur vinninginn.
Greinileg má álykta af greininni að þetta er ekki bara stríð sem snýst um land, hryðjuverk og sprengjuárásir, heldur líka áróðursstríð og stríð um orð.
Athugasemdir