Fjölskyldan sem býr í íbúðinni á móti lítur ekki út eins og fólkið sem ég teiknaði mynd af við þessa grein. Stelpan er ekki með slæðu, heldur slétt ljósbrúnt hár niður á axlir. Strákurinn er glaðlegur, tólf eða þrettán ára gamall gutti. Mamman klæðir sig í gallabuxur og peysur frekar en búrku. Hún er óvopnuð og veik fyrir stuttum leðurstígvélum líkt og konan mín. Pabbinn er ekki með arnarnef, alskegg og túrban á hausnum, hann rakar sig daglega og klæðist stuttum svörtum jakka eins og íslenskur smáborgari í Kringlunni. Fólkið á móti lítur út eins og ósköp venjulegt fólk á Vesturlöndum. Svona líta 90% múslima í Evrópu út.
Þetta er fólkið sem þú lest aldrei um í blöðunum því stærstu fjölmiðlar Vesturlanda nenna ekki að segja frá því þegar svona sakleysingjar fara í mótmælagöngur að mótmæla viðbjóðslegum glæpum ISIS.
Fólkið á móti er svo venjulegt að ég nenni ekki einu sinni að teikna það eins og það lítur út, það er svo miklu auðveldara fyrir mig að draga upp staðalímyndina; búrkuna, feðraveldið, illskuna og vopnin.
Það er svo miklu auðveldara að fjalla um sirkusmúslimina því þeir eiga umræðuna með sitt tjásuskegg, mættir í annan hvorn umræðuþátt hérna í Þýskalandi. Stundum er það Imman úr Neukölln sem minnir svolítið á Mikka ref. Hann glottir lymskulega meðan sýnd eru myndskeið úr falinni myndavél þar sem hann hvetur menn til að berja konur. Salurinn tekur andköf. Í öðrum sjónvarpsþætti er ungri svissnseskri móður boðið í umræðuna. Hún sem var einu sinni pönkari er nú klædd í búrku svo ekki sést framan í hana. Hún hvetur ungt fólk til að leggja í heilagt stríð og miljónir áhorfenda súpa hveljur.
Sirkusmúslimar eru auðvitað gott sjónvarp. Það er svo gott að bera sig saman við þá. Það er til dæmis alveg sama hversu íhaldssamur ég verð með aldrinum, það verður alltaf til einhvers staðar klikkaður Salafisti sem er verri en ég.
Ég á vini sem draga konur sínar í moskur af því er virðist í þeim tilgangi einum að láta einhvern ofsatrúarsauðinn sýna eiginkonunni dónaskap. Sá bókstafstrúaði gerir auðvitað eitthvað sniðugt eins og að neita að heilsa frúnni eða heimtar að hún hylji hár og útlimi. Þá er hægt að hneykslast aðeins og láta sér líða vel yfir því að maður sé ekki jafn mikið íhaldspakk sjálfur. En á sama tíma er það auðvitað viss tegund af masókisma að leita uppi fólk sem er svona ólíkt manni sjálfum. Svipað og ef ég færi á landsþing Sjálfstæðisflokksins til að hneykslast á því að konurnar væru með snyrtar augnabrýr og karlarnir í jakkafötum með bindi.
Sirkusmúslimarnir hafa algjörlega hertekið umræðuna en þeir eiga hins vegar fátt sameiginlegt með þessum venjulegu múslimum sem ég hitti á hverjum degi.
Nú getum við auðvitað ekki talað um „hófsama“ múslima því þá kemur einhver strangtrúaður og heldur því fram að með slíkri skilgreiningu sé ég að gera lítið úr múslimum eins og þeir leggja sig. Fólk sé annaðhvort trúað eða ekki.
Gott og vel. Snúum upp á það. Tölum um gott fólk sem er kennt við Múhameðstrú.
Til dæmis sjoppukarlinn hérna úti á horni sem sonur minn heldur mikið upp á og kallar gúmmí-bangsa-manninn. Fjölskylduna sem rekur bakaríið úti á horni og sparar ekki ráðin ef barnið hóstar eða ef það þarf að kaupa sérvöru einhvers staðar. Eða náungann í símabúðinni sem ég hitti um daginn.
Ég þurfti að fá nýtt símkort í græju sonar míns. Náunginn sem afgreiddi mig var mjög hress og þegar ég minntist á son minn áttum við eitthvað sameiginlegt því dóttir hans reyndist vera fædd sama ár. Hann var nýbúinn að kaupa handa henni forljótan róbothund sem hann hafði fengið í Toy4Us fyrir lítið.
Hundar eru skítug dýr, sagði hann. Við getum ekki haft alvöru hund inni í stofu. Ég get ekki beðið til guðs þrisvar á dag með hundaskít á nefinu, ég er nú einu sinni múslimi. Kettir eru kannski í lagi, ekki hundar. Og vélhundar eru í fínu lagi.
Þetta virtist allt í einu alveg augljóst, ég hafði einmitt verið í sveit sem barn og þá var hundum aldrei hleypt lengra inn en í forstofuna. En ég nennti ekki að segja frá því vegna þess að það er svo mikil langloka að útskýra fyrir útlendingum hvers vegna mín kynslóð var send í sveit á Íslandi. Símasölumaðurinn myndi aldrei skilja það fullkomlega frekar en ég fæ skilið hvers vegna fullorðinn maður nennir að nudda enninu á sér í gólfið þrisvar á dag.
Við myndum aldrei skilja hvor annan til fulls. En samt getum við talað saman. Báðir pabbar sem elskum börnin okkar og kaupum handa þeim vita gagnslausa tækni við hvert tækifæri.
Þannig að þú ætlar að gefa henni þennan rafhund í jólagjöf? spurði ég varlega, skyndilega í vafa um hvort eða hvenær múslimar halda upp á jólin.
Nei, maður, sagði hann. Ég bara hendi þessu í stelpuna þegar ég kem heim á eftir, ha?
Svo kvöddumst við með handabandi og hann hrópaði á eftir mér að við værum vinir og ég ætti að koma sem oftast.
Svona virka mannleg samskipti. Við finnum eitthvað sem við eigum sameiginlegt og síðan látum við tímann vinna með okkur. Það þýðir ekki að ég verði að samþykkja íslam að öllu leyti eða berjast fyrir að moska sé reist í Reykjavík.
Meðvirkni með trúarbrögðum – sérstaklega hjá hundheiðnum manni eins og mér – hlýtur að vera svik við fólkið sem mér þykir vænt um. Þetta fólk sem ég hitti á hverjum degi og gerir líf mitt og minna ríkara. Þetta er fólkið sem mun á endanum færa íslam nær mínum eigin gildum. Hægt og rólega, á sínum hraða. Líkt og dropinn holar steininn.
Athugasemdir