Það var ekki fyrr en ég lenti á flugvellinum sem það rann upp fyrir mér að ég vissi svo til ekkert um Makedóníu. Mér til mikillar furðu skildi ég tungumálið smávegis - það er nægilega líkt öðrum balkanmálum til að ég gat bara látið sem þetta væri bosníska, serbneska, króatíska eða montenegríska. Sem eru öll sama málið, en maður á eiginlega ekki að segja það upphátt.
Við keyrðum inn í miðborg í eftir sexbreiðri hraðbraut, sólskinsfáni landsins blaktandi fyrir ofan veginn á háum fánastöngum með reglulegu millibili. Vorsólin var byrjuð að vekja allt umhverfið úr vetrardvala. Þegar landbúnaður fór að víkja fyrir byggð fór þetta fyrst að verða skrýtið.
Skopje er stútfull af alvörufólki og feik byggingum.
Allsstaðar eru byggingarframkvæmdir í gangi. Yfirleitt er ekki verið að byggja neitt nýtt, heldur aðeins að hjúpa eldri byggingar í nýju ytra lagi. Ætlunin er að láta brútalismann og módernismann víkja fyrir ný-barrokk stíl: kommablokkir faldar inní fíngerðum skreytingum.
Ég hef aldrei séð svona margar styttur á einum stað. Styttan af Alexander mikla trónir yfir miðborginni, kappinn tignarlegur á baki hests með afskorið typpi. Var fákurinn geldur til að gæta siðgæðis.
Rétt hjá er stytta af Prómeþíusi með kyndilinn á lofti. Prómeþíus var um hríð nakinn, en vegna kvartana frá meintum kvenréttindasamtökum var styttunni breytt og hálfguðinn klæddur í boxernærbuxur. Sumir heimamenn telja að kvörtunin hafi verið serbneskt samsæri um að ná meiri peningum út úr hinum digra styttusjóði.
Faðir Alexanders er með hnefann á lofti á gagnstæðum árbakka. Sjálfur er Alexander fastur í áratugalangri faðernisdeilu, því sumir vilja meina að hann hafi verið grískur. Þessi deila, ásamt deilum um nafn landsins - sem er nafn forns grísks héraðs - er ástæðan fyrir því að Makedónía heitir formlega „Fyrrum Júgóslavneska Lýðveldið Makedónía“.
---
Þessi undarlega andlitslyfting borgarinnar er ekki óumdeild. Stelpa að nafni Dona sýndi mér miðborgina, og í frásögn sinni lak af henni háðið. „Verkefnið heitir Skopje 2014 - auðvitað komið fram yfir áætlun, og við fáum ekkert að vita hvað þetta kostar,“ sagði hún. „En ef þú bankar á stytturnar þá sérðu að þetta er allt bara plast.“
Ég bankaði á nærliggjandi jónískri súlu. Ytra byrðið voru marmarapanelar, en innundir heyrðist frekar holt hljóð. Við nánari skoðun voru sumar stytturnar bara gifs, og undir tignarlegu himnafari sást í þykkt lag af frauðplasti.
Þetta vakti auðvitað spurningar.
Makedónísk menning hefur mótast mikið undanfarna öld. Landið fékk friðsamlega sjálfstæði frá Júgóslavíu 1993, að loknu tímabili þar sem öll önnur lönd fyrrum sambandsríkisins höfðu gengið í gegnum stríð. Endurreisnin mótaðist mikið til af löngun til að eiga menningarleg sérkenni, frábrugðin hinum slavnesku löndunum. Þjóðernishyggjan tók á sig þessa skrýtnu mynd þar sem leitað var langt aftur um aldir til tímabils sem flestir í Evrópu sýna ákveðna lotningu. Því er hundsað með mestu tímabilið þar sem Ottomannar réðu yfir landinu og byggðu gamla bæinn í Skopje - þrátt fyrir að sá partur borgarinnar sé einn sá fallegasti, og raunverulegasti.
„Ég bankaði á nærliggjandi jónískri súlu. Ytra byrðið voru marmarapanelar, en innundir heyrðist frekar holt hljóð. Við nánari skoðun voru sumar stytturnar bara gifs, og undir tignarlegu himnafari sást í þykkt lag af frauðplasti.“
En allar þessar holu súlur, gifsstyttur og limlestir hestar segja líka aðra sögu.
Þeir sem hafa ferðast um balkanskagann þekkja Júgóslavneska afbrigði brútalismanns vel, og eru öllu kunnugir skítugum ópersónulegum háhýsum. Þar sem ég bý, í Sarajevo, fylgir þessum byggingarstíl nær undantekningarlaust skotför í veggjum: ummerki stríðs sem lauk fyrir tuttugu árum, sem á enn eftir að laga.
Menningin í Skopje er merkileg. Ólíkt flestum löndum Balkanskagans eru fjölbreytt veitingahús á hverju strái, göturnar eru hreinar, og ekki er reykt innandyra. Lifandi menning ómar um allt. Ungt fólk hefur drauma og væntingar sem ná lengra en að reyna bara að flýja til Vestur-Evrópu. Þrátt fyrir að landið er í miðjunni á stórri stjórnarkreppu, eftir að kom í ljós að forsætisráðherra landsins hafði fyrirskipað hleranir á 20000 borgurum landsins, þá var andrúmsloftið jákvætt og uppörvandi.
„Svona urðu Versalir líklega til,“ sagði ég við Donu, sem fannst samlíkingin fáránleg. En tengingin milli hreinlætis, tignarleika og menningar er ekki alfarið óþekkt. Dominique LaPorte reit í bókinni Saga saursins (Histoire de la merde) um hvernig mikil menningarvakning hafi orðið í Frakklandi í kjölfar þess að Loðvík níundi fyrirskipaði að öll húsin í París skyldu útbúin með vatnsklósettum, saur og þvagi mætti ekki lengur fleygja út um glugga á efri hæðum, og húsdýr skyldu flutt út fyrir borgarmörkin.
Versalir voru örugglega álitin fáránleg og gervileg peningasóun á sínum tíma - sem Versalir og eru enn í dag. En mögulega er eitthvað hægt að segja um jákvæðu áhrifin sem fallegt umhverfi hefur á menningu, jafnvel ef það er allt saman bara plast.
---
„Ekki, ekki, ekki lifa í draumi,“ sagði Owen lávarður, sendifulltrúi Evrópubandalagsins í Bosníu meðan á stríðinu stóð. „Dreymið ekki drauma.“
Á leiðinni heim til Sarajevo gat ég ekki hætt að bera saman hinn kalda grimma raunveruleika sem skotförin í Sarajevo sýna, og hina fölsuðu menningu miðborgarinnar í Skopje, sem Dona kallaði Disneyland. Sarajevo er dásamleg borg sem ber sína sögu tignarlega þrátt fyrir öll vandamálin þar, en innan um skemmtilega og fjölbreytta menningu má finna ákveðna depurð. Sú depurð er drifin áfram af sannfæringu um að allt sé í algjörri klessu, og það sé ekki hægt að laga það. Raunveruleikinn er áþreifanlegari í Sarajevo en víða. Hér er ekkert menningarfals.
Um það leyti sem Júgóslavía var að tvístrast í sundur var glæpatíðnin í New York að hríðfalla. Hluti af ástæðunni var ákvörðun borgaryfirvalda að laga allar skemmdir um leið - að brotnir gluggar, veggjakrot og annars konar skemmdarverk skyldu ekki látin í friði. Mögulega er menningarfalsið tilraun til að skapa ímynd góðæris, og kæta lýðinn - sem gæti hugsanlega svo leitt af sér raunverulegt góðæri. Það mætti svosem líka líta á þetta á einatt neikvæðan hátt: að þetta sé bara spillt tilraun sjálfumglaðra pólitíkusa til að skapa sér arfleið og umkringja sig fínheitum á kostnað skattgreiðenda. En það eru auðveldari leiðir til að gera það en að senda borg í lýtaaðgerð, samanber makrílkvótann á Íslandi.
Ég er ekki lengur viss um að það sé hægt að falsa menningu. Fölsk menning er líka menning. Ómenning er líka menning. Menningarfalsið í Skopje er pínlega kjánalegt, en stundum er nauðsynlegt að búa til Disneyland, svo að fólk trúi því að það megi láta sig dreyma.
Athugasemdir