Meðvirkni er meinsemd í fjölskyldum, á vinnustöðum og í pólitík. Meðvirkni í stjórnmálum er samfélagsleg meinsemd. Meðvirkni er meinsemd vegna þess að fólk aðgreinir ekki meðlíðan og samkennd frá mikilvægi þess fyrir þroska og velferð einstaklinga og samfélags að allir læri að þekkja og bera ábyrgð, gangast við ábyrgðinni þegar á reynir og taka afleiðingunum. Meðvirkni getur farið mjög leynt. Undanfarið hefur meðvirkni þó birst almenningi umbúðalaust í yfirlýsingum um forsætisráðherra Íslands sem hrökklaðist úr embætti á dögunum. „Þetta er persónulegur harmleikur,“ „ekki sparka í liggjandi mann“ er lýsing sem ber vott um meðvirkni.
Framganga Sigmundar Davíðs sæmir einfaldlega ekki manni sem gegnir stöðu forsætisráðherra, hvernig sem á það er litið. Framkoma hans undir það síðasta minnir á óstýrilátan ungling sem með barnslegu yfirklóri og ásökunum neitar að gangast við ábyrgð. Hér færi betur á því að segja „svona gera menn ekki“, og láta hann horfast í augu við það sem hann gerði þjóð sinni og taka afleiðingunum.
Þessi maður á margt ólært. Stjórnmálamaðurinn, Sigmundur Davíð, lét hafa það eftir sér í DV 2012 að kosturinn við að vera í jafn góðum efnum eins og hann og eiginkonan væri sá að „maður þarf ekki að hafa áhyggjur af því þótt maður segi það sem manni finnst. Ekki að hafa áhyggjur af því að það geti leitt til tekjumissis“. Þetta viðhorf afhjúpar þær aðstæður sem almenningur, fjölmiðlar og háskólasamfélagið hefur búið við á Íslandi, það er að hér er ekki lýðfrjálst samfélag meðan tjáningarfrelsinu fylgir sá ótti að missa af tekjum og tækifærum. Þessi stjórnmálamaður þarf ekki aðeins að læra það að auðvitað eiga allir að geta sagt það sem þeim finnst án ótta við tekjumissi, heldur þarf hann einnig að læra það að þótt honum finnist hann alltaf geta sagt það sem honum finnst, þá getur hann ekki alltaf gert það sem honum sýnist án þess að taka afleiðingunum.
Stærsta skuldaleiðréttingin
Forsætisráðherrann, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafði skotið upp kollinum í íslenskri pólitík með tilþrifum þegar hann með sögulega eftirminnilegum hætti var kosinn formaður Framsóknarflokksins. Hann kom inn á Alþingi kenndur við hetjulega baráttu fyrir hagsmunum Íslands í Icesave-deilunni. Hann var tákn um endurnýjun Framsóknarflokksins eftir Hrunið. Nýi formaðurinn, studdur sigurvímu Icesave-dómsins í janúar 2013, leiddi flokkinn sinn til sigurs í kosningunum 2013 með loforðum um stærstu skuldaleiðréttingu heimila sem sést hafði á byggðu bóli. Þá „leiðréttingu“ ætlaði hann að sækja í vasa vondu erlendu kröfuhafanna, sem sátu um Ísland. Erlendu kröfuhafarnir hefðu komist að því með aðstoð almannatengla og persónugreinenda, að hann og Framsóknarflokkurinn væru öflugasta fyrirstaðan; ósveigjanlegir verjendur íslenskra hagsmuna.
Stærsti gagnalekinn og alþjóðleg niðurlæging íslenskra stjórnmála
Allir vita nú hvernig fór. Nýja hetjan, leiðtoginn mikli í íslenskum stjórnmálum, leyndist sjálfur meðal „erlendu“ kröfuhafanna. Það þurfti aðstoð alþjóðlegra rannsóknarblaðamanna til að afhjúpa þessi svik við íslensku þjóðina. Þegar þætti íslenska forsætisráðherrans í aflandsvæðingu íslenska viðskiptalífsins var sjónvarpað samtímis um víða veröld með stunum, lygum, vandræðagangi og tilraunum hans til að þagga niður í íslenskum blaðamanni, hrundi þetta leiksvið Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Við blasti niðurlæging íslenskra stjórnmála sem nú voru í vondum félagsskap í alþjóðasamfélaginu. Nýtt hrun virtist hafið; að þessu sinni hrun trausts og tiltrúar á stjórnmálin, enda grunnt á gömlu sárin frá 2008.
Stóru svikin og stærsta gjáin í íslensku samfélagi
Forsætisráðherrann fyrrverandi leyndi vísvitandi hagsmunatengslum sínum með eftiráskýringum sem staðfesta einbeittan ásetning um leyndina og þar með svik við það sem honum var trúað fyrir af kjósendum og samherjum í stjórnmálum. Það eru svik við íslenskt samfélag að hafa komið milljörðum út úr íslenska bóluhagkerfinu fyrir hrunið 2008, í skjól frá íslenskum sköttum og vernd gagnvart íslenskri krónu, sem veiktist enn meira fyrir vikið. Þessi forsætisráðherra ákvað síðan að þykjast vera „einn af okkur“, það er íslenskum almenningi, meðan hann var og er í raun „einn af þeim“, það er „erlendu“ kröfuhöfunum sem afhjúpuðust í þessum stærsta gagnaleka sögunnar. Stóru svik forsætisráðherrans felast ekki hvað síst í því að sniðganga og endurskilgreina þær reglur stjórnsýslunnar sem eiga að tryggja gagnsæi og trúverðugleika til þess að geta sjálfur komist hjá því að gera grein fyrir sér.
Nú blasir við stærsta gjáin í íslensku samfélagi, gjáin sem slær öllum gjám milli þings og þjóðar við. Það er gjáin milli þeirra fáu sem hafa í skjóli stjórnvalda komist í aðstöðu til að skara eld að eigin köku á kostnað þeirra mörgu sem létu telja sér trú um að stjórnmálamenn tækju alltaf almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni. Svona gjá verður til þegar stjórnmálamenn bregðast almennu trausti og þar virðist Sigmundur Davíð hafa gengið lengst allra.
Að bregðast almennu trausti og komast upp með það
Stjórnmálamenn sem bregðast almennu trausti hafa brotið gegn almenningi og þegar það er látið viðgangast þá er það spilling. Spilling varðar við siðferðilega og pólitíska ábyrgð, einnig við lagalega ábyrgð, ef lög reynast brotin. Þegar stjórnmálamenn komast upp með spillta hegðun án þess að taka afleiðingunum þá skapast hefð; ný viðmið um það sem má og hvað hægt er að leyfa sér í íslenskum stjórnmálum verða til og móta þá stjórnmálamenningu sem verður arfleifð til næstu kynslóðar. Þannig verður meðvirkni í stjórnmálum að freistnivanda sem erfist til komandi kynslóða.
Meðvirkni og meðsekt
Forsætisráðherrann braut ekki aðeins gegn almennu trausti, heldur brást hann samherjum í pólitík. Samherja sína skildi hann eftir, stamandi og stynjandi frammi fyrir fjölmiðlum og þjóðinni. Gagnvart almenningi höfðu þeir því miður gerst meðsekir vegna þess að í meðvirkni sinni höfðu þeir gengið harkalega fram í vörnum fyrir formanninn og þar með komið í veg fyrir að ábyrgð virki með sæmd í íslenskri pólitík. Þá tóku þeir til varna með stóryrðum og árásum þar sem vegið var að starfsheiðri þeirra einstaklinga og stofnana sem hafa hlutverki að gegna í lýðræðisríki. Vel færi á því að biðjast afsökunar á þessari framkomu. Ef þeir sem stjórnmálamenn vita ekki að það er við hæfi, þarf einhver að segja þeim það. Ef þeir vita það, en gera það ekki þá kunna þeir sig ekki sem stjórnmálamenn við svona aðstæður. Ef svo er, þá ættu þeir ekki að bjóða sig fram aftur til þjónustu við almenning.
Athugasemdir