Síðustu misseri hef ég þurft að ganga svolítið um miðbæinn sökum vinnu og annarra erindagjörða. Það eru engar ýkjur að miðbærinn sé troðfullur af ferðamönnum. Allir ferðamenn eiga nokkra mannlega þætti sameiginlega. Það á líka við um mig, og þig, það er að segja ef þú hefur ferðast út fyrir landsteinana.
Það er eitthvað sem gerist á flugvellinum í heimalandinu. Það eru þeir sem skipuleggja hvert einasta smáatriði mörgum mánuðum fyrir brottför og skilja ekkert eftir fyrir hið óvænta. Mín reynsla er sú að þetta eru ferðamennirnir sem eiga erfitt með að sætta sig við þá staðreynd að það er veður á Íslandi. Breytilegt veður. Svo eru það þeir sem eru afslappaðri og þeir sem bóka kannski flug með stuttum fyrirvara og mæta í lakkskóm eða stuttbuxum til þess að sjá norðurljósin. Mín kenning er sú að við sem manneskjur tékkum heilann inn með farangrinum en sækjum hann svo ekki á færibandið með töskunum eftir lendingu.
Sögum af veðri og ferðamönnum á ég gnótt af. Ég starfaði í ferðabransanum í rúm tvö ár. Þar er ótrúlega gott og vandað fólk sem leggur á sig ómælda vinnu til þess að tryggja það að þessi iðnaður haldi áfram að blómstra. Launin eru almennt séð lág, svakalega lág miðað við það vinnuframlag og sérfræðiþekkingu sem starfsmenn þurfa að hafa og/eða tileinka sér og vinnutímarnir eru, tjah, eins óreglulegir og þeir gerast.
Af hverju er svona kalt?
Ég skrifaði hjá mér ýmsar uppákomur sem ég lenti í á þessu tímabili, við skulum þó muna að við Íslendingar erum ekki einstök snjókorn, ekkert frekar en aðrar þjóðir, og að sögur af þessu tagi eru líklegast til í einhverju formi hjá fólki sem starfað hefur í ferðabransanum hvort sem það er í Nýja-Sjálandi, Brasilíu eða á litla Íslandi.
Ég fékk að heyra oftar en einu sinni hluti eins og: „Þetta er ógeðslegt veður, er þetta alltaf svona? Af hverju er svona kalt? Hvað á ég að gera, ég vil vera inni, af hverju er ekki byggt yfir Laugaveginn? Mig vantar regnhlíf, af hverju rignir framan í mig, af hverju er rigning úti?“ Við þessum spurningum hafði ég bara eitt svar: „Kæri hr./frú, þér hafið ekki keypt regnlausu ferðaviðbótina?“
Svo voru það blessuð norðurljósin, þessi slóttugu, óáreiðanlegu og ófyrirsjáanlegu náttúrufyrirbæri. Það hafa flestir heyrt af ferðamanninum sem spurði klukkan hvað við kveiktum á ljósunum. Eða þessum sem spurði um hvaða leyti dags væri mögulegt að sjá miðnætursólina. Uppáhaldið mitt er þegar ég var spurð hversu margar dagsferðir væri hægt að fara í á einum degi.
„Get ég farið út að skoða norðurljósin núna?“
„Nei.“
„Af hverju ekki?“
„Af því það er hábjartur dagur.“
Hvernig verður veðrið 21. maí?
Það voru margir ferðamenn sem færðu mér mikla gleði og góðar minningar, eins og konan sem var stærðfræðikennari frá Bandaríkjunum. Hún sagði mér frá því, þó ekki án þess að roðna pínulítið að daginn eftir væri pí dagurinn (14. mars, eða eins og í BNA, 3/14) og í tilefni þess ætlaði hún að ferðast 2 pí, þ.e., bóka ferð í gullna hringinn. Það gladdi litla topplúðahjartað mitt. En svo voru það þeir sem skildu eftir fátt annað en stórt spurningarmerki.
Ég fékk einu sinni símhringingu, á línunni var maður búsettur í London sem spurði með þykkum indverskum hreim: „Fröken, segðu mér hvernig veðrið verður þann 21. maí næstkomandi.“ Enginn átti rétt svar við þessari spurningu. Þetta var í byrjun febrúar. Þegar nær dró 21. maí sá ég mynd af Sigga stormi á forsíðu blaðs. Og fyrirsögnin: „Sumarið hefst 21.maí“.
Hvar er Kolaportið?
Svo voru það yndislegu kverúlantarnir, eldri hjón frá Bandaríkjunum, klædd drapplituðum buxum og jakka í stíl. Með svona hliðartösku fyrir verðmætin. Maðurinn hafði kvartað yfir öllu við mig fyrr um daginn, þessar klassísku rigningin var blaut og það var fluga í klósettvatninu hans-kvartanir. Ég setti upp „ég er að hlusta á þig“-andlitið og rifjaði upp hvað ég ætti í ísskápnum heima og hvað ég gæti eldað í kvöldmatinn. Maður verður að velja sér orustur. Hans versta martröð hafði ræst. Hann rataði ekki í Kolaportið.
„Þetta er búinn að vera ömurlegur dagur! Við keyrðum um borgina í rúmlega tvær klukkustundir og fundum ekki pulsustaðinn sem kollegi þinn var að dásama! Hennar leiðbeiningar voru fáránlegar! OG HVAR ER KOLAPORTIÐ? ÞAÐ ER EKKI Í MIÐBÆNUM! ÞAÐ ER HVERGI AÐ FINNA!“ Svo veifaði hann kortinu af miðbænum framan í mig þar sem ég sá fullkomlega skotheldar leiðbeiningar kollega míns.
Ég ákvað að velja þessa orustu og spurði hann: „Segðu mér, herra, stoppaðir þú á einhverjum tímapunkti og spurðir til vegar?“ „Nei“ sagði maðurinn. „Hvert fórstu, geturðu rakið slóðir þínar á kortinu?“ Hann þenur út brjóstkassann og lætur braka í fingrum sínum, líklega til að undirbúa sannfærandi kortabendingar. „Við stöðvuðum á þessu bílastæði í klukkustund og reyndum að finna Kolaportið og vorum að spá í að fara inn í þessa byggingu og spyrja til vegar en við vorum bara orðin svo örg í skapinu að við ákváðum bara að koma hingað aftur á hótelið,“ sagði hann án þess að draga andann. Maðurinn veifar því næst vísifingrinum framan í mig, teiknar tvo hringi í loftinu áður en hann skýtur fingrinum beint á bílastæðið sem þau stoppuðu á. Beint fyrir framan Kolaportið. Þar sem þau sátu í eina klukkustund. Með Bæjarins bestu í baksýnisspeglinum.
Keypti flíspeysur á 320 þúsund
Að lokum langar mig að segja ykkur frá indverska manninum sem bjó í San Fransisco. Hann var vel gyrtur, svo vel gyrtur að ég furðaði mig á því að þrátt fyrir það hljómaði hann bara nokkuð djúpraddaður. Hann vildi giftast mér. Eða bara einhverri konu, alveg sama hverri. Hann ætlaði sér að kasta netinu langt út og sjá hvað myndi gerast, taka enga sénsa til að koma sér á séns. Þeir fiska sem róa og allt það. „Sæl, fröken, ég frétti af því að þú hefðir gaman af kímnigáfu.“ Ég játaði að svo væri og hann skrifaði niður nöfnin á einhverjum Chaplin-legum „slapstick“-gaurum ásamt nafni sínu, heimilisfangi, netfangi, farsímanúmeri, heimasímanúmeri og vinnusímanúmeri. Svo hvarf hann út í rigninguna, það er að segja, rútan hans var komin til að fara með hann í 8 klst. ferð um gullna hringinn. Hann kom til mín eftir ferðina og sýndi mér hróðugur risastóran poka frá 66° norður sem innihélt 8 flíspeysur. „Sjáðu hvað ég keypti fyrir alla fjölskylduna mína í Indlandi! Ég fékk þetta á slikk! 40 kr. fyrir stykkið!“ Ég fann svo til með honum á þessum tímapunkti að ég spurði hann hvort hann væri með kassakvittun og hvort ég mætti sjá hana. Ég tjáði honum að ég hefði aldrei heyrt um slíkt verð á peysu því þetta dygði varla fyrir tvinnanum sem héldi peysunum saman. Hann tók upp kassakvittunina. Hann keypti flíspeysur fyrir 320.000 kr. Ég útskýrði varlega fyrir honum að hann hefði eytt 3.000 Bandaríkjadollurum í flíspeysur og að þegar vörur væru verðmerktar á 40.000 kr. stykkið væri það ekki vegna þess að við hefðum svona svakalega gaman að því að bæta aukastöfum við. Ég sótti vatnsglas og færði honum, hringdi því næst í verslunina sem var á svæði gullna hringsins og fékk leyfi til að skila peysunum. Hann fór því daginn eftir, í aðra ferð um gullna hringinn, sem hann þurfti að greiða fullt verð fyrir. En hann keypti styttri ferðina sem var 6 klst. Og fékk 3.000 dollarana sína aftur. Hvort hann fann sjálfsvirðingu sína í leiðinni veit ég ekki. En bugunin í augnaráði hans gaf til kynna að hann vissi ekki alveg hvar hana væri að finna.
Athugasemdir