Matur er stór hluti af lífinu, við borðum saman þegar á að gleðjast eða syrgja, þegar við hittum vini eða ættingja og við þurfum, að minnsta kosti flest, að borða nokkrum sinnum á dag til að virka sem best. Til að lifa þarf líkaminn að fá orku og næringu, um það eru allir sammála, um það í hvaða formi næringin á að vera og hvað hún á að innihalda eru alls ekki allir sammála hins vegar. Það virðast vera álíka margir sem trúa því að við eigum eingöngu að borða svokallað vegan-fæði, sem einungis inniheldur fæðu úr jurtaríkinu, og hinir sem trúa því að við eigum að borða mat sem inniheldur sem mest úr dýraríkinu, helst feitt kjöt og mjólkurvörur. Næringarráðleggingar liggja síðan þar á milli, varfærnar, byggðar á vísindalegum rannsóknum og bestu þekkingu hverju sinni. Samkvæmt Hagstofu Íslands eyða Íslendingar um 15% af ráðstöfunartekjum sínum í matvæli, á árinu 2014 voru meðal ráðstöfnartekjur hjóna 7,4 milljónir á ári sem þýðir að ríflega ein milljón fer í mat. Það er því eftir heilmiklu að slægjast hjá matvælaframleiðendum að telja okkur trú um að akkúrat þeirra vara sé sú sem við eigum að kaupa og hafa mikil áhrif á hvaða upplýsingar ná til almennings, fyrir utan að fjölmiðlar vilja gjarna koma með nýjar fréttir um hvað það er sem er hollt eða óhollt að borða. Það er því úr vöndu að ráða fyrir venjulegt fólk að átta sig á hvað sé málið.
Af (oftast) brennandi áhuga hef ég fylgst með alls konar tískubólum koma og fara; blóðflokkamataræðið, hráfæði, south beach, lágfitumataræðið, próteinæðið, atkins, steinaldarfæðið, 5:2, paleo, svo ekki sé minnst á alla megrunarkúrana og þann milljarðaiðnað sem þeim tengist. Matur snertir einhvern veginn kjarna fólks og mörgum verður heitt í hamsi við að tala aðra inn á sitt band, hvort sem það eru sannfærðar kjötætur sem telja að prótein og fita eigi að vera sem mest eða grænmetisætur sem vilja sjá kolvetnin vera uppistaða fæðis, sem og annað fólk sem trúir að það hafi fundið réttu leiðina til að nærast. Gefinn er út fjöldi bóka og bloggsíðna með sögum og rökum sem nota má í baráttunni og þeir sem eru ekki sammála eru oft taldir illa meinandi eða fávísir. Ég leyfi mér að efast um að stríð skili miklum árangri í þessum efnum, frekar en öðru.
„Það hættulegasta er að í öllu þessu óðagoti komum við oft inn samviskubiti hjá fólki sem veikist.“
Það hættulegasta er að í öllu þessu óðagoti komum við oft inn samviskubiti hjá fólki sem veikist þar sem það eru stöðugt í boði upplýsingar um hvað þessi manneskja hefði getað gert til að koma í veg fyrir að veikjast, og það er alvarlegt. Þeir sem vita virkilega hvers virði heilsan er eru þeir sem hafa misst hana. Að ofan á það áfall þurfi að burðast með samviskubit yfir einhverju sem var eða var ekki gert og hefði getað komið í veg fyrir veikindin gerir engum gott. Við þurfum engar matarlöggur, við þurfum heilbrigða skynsemi, umhyggju og virðingu fyrir vali og trú annarra. Við erum öll ólík og það er reyndar svo að margt bendir til að í framtíðinni verði næringarráðleggingar jafnvel einstaklingsmiðaðar þar sem við erum jú öll einstök.
Hvernig væri ef við mundum nálgast umræðuna þannig að við vildum finna hvar við erum sammála í stað þess að takast á? Nánast allir eru til dæmis sammála því að við þurfum að hætta að tala um kolvetni, fitu og prótein og fara að tala um mat. Nánast allir eru sammála um að unnin kolvetni, eins og hvítt hveiti og hvít hrísgrjón, þarf að takmarka og að sykur ætti að vera munaðarvara. Við vitum að margir eru viðkvæmir fyrir efnum sem bætt er í unnin matvæli og að almennt er minna unninn matur heilsusamlegri. Nánast allar rannsóknir sýna okkur að grænmeti og ávextir hafa jákvæð áhrif á heilsuna og salt þarf að vera í hófi. Hvort fólk velur að byggja mataræði sitt með mat úr dýra- eða jurtaríkinu er val. Mikilvægt val út frá mörgum þáttum en ef við horfum einungis á næringarþáttinn þá er hægt að velja báðar leiðir og lifa heilbrigðu lífi. Við erum hluti af stórum heimi, það sem við veljum skiptir máli í stóra samhenginu fyrir þá sem búa til matinn og fyrir jörðina, en mikilvægast er þó að hver og einn velji það sem er rétt fyrir hann, það sem samræmist hans lífsgildum að borða og gefur orku, heilsu og vellíðan. Þótt við séum ekki sammála þá getum við virt val hvert annars og kvatt matarlögguna.
Athugasemdir