Sagan um langveiku albönsku drengina tvo er auðvitað fyrst og fremst skelfileg harmsaga. Þetta er saga um tvær fátækar fjölskyldur sem taka sig upp frá einhverju allra fátækasta landi Evrópu, knúnar áfram bæði af áhyggjum út af heilsu drengjanna sinna og að einhverju leyti líka af öðrum ógnum sem að fjölskyldunum steðja. Þær taka sig upp af því að heilbrigðiskerfið í Albaníu er skelfilegt, alveg sérstaklega fyrir fátækt fólk, enda er það einkarekið að mestu. Fjölskyldurnar komast til Íslands og leita hér hælis. Hér á heilbrigðiskerfið vissulega við margvíslegan vanda að stríða en er þó miklum mun betur á sig komið en í Albaníu, sér í lagi hvað snertir aðgengi fátækra að kerfinu.
Að vísu er til það fólk hér á Íslandi sem lítur til Albaníu sem fyrirmyndar. Ásdís Halla Bragadóttir lét eins og frægt er orðið svo um mælt í Viðskiptablaðinu að albanska heilbrigðiskerfið væri „ljósárum á undan“ því íslenska, einmitt af því hve einkavæðingin væri þar orðin mikil. Því miður er það svo að einmitt þessi sama Ásdís Halla þykir í sumum kreðsum hér á landi vera hinn fínasti pappír í öllu sem lýtur að heilbrigðismálum, og raunar hefur helst litið út fyrir að stefna hennar og kumpána hennar kynni að verða ofan á á Íslandi – ef núverandi ríkisstjórnarflokkar fá að ráða of lengi.
Ég vona að þeir lærdómar sem við getum nú dregið af málum þeirra Kevis og Arjens um hvernig fer fyrir fátæku fólki í einkavæddu heilbrigðiskerfi verði nú til þess að heilbrigðisstefna Ásdísar Höllu verði nú dregið mörg ljósár út í ystu myrkur og sökkt þar í hyldýpið – og við þurfum aldrei að þola endurreisn þeirra hugmynda.
En þótt heilbrigðiskerfið sem mætti fjölskyldum Kevis og Arjens hér á landi sé betra og manneskjulegra en í Albaníu, þá virðist annað upp á teningnum þegar kemur að Útlendingastofnun. Þar hafa fjölskyldurnar greinilega mætt slíkri vanhæfni að ekki verður við það unað.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra heldur áfram að berja höfðinu við steininn og fullyrða að hún hefði ekkert getað gert til að koma í veg fyrir hina svívirðilegu brottvísun fjölskyldnanna tveggja. Um var að ræða augljóst brot á bæði íslenskum lögum og sæmilegri stjórnsýslu, að ekki sé minnst á það lítilræði sem er barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna. Ólöf reynir samt enn að telja okkur trú um að það sé til marks um hvað hún sé frábær ráðherra að það hafi ekki hvarflað að henni að koma til skjalanna þegar undirstofnun hennar tók augljóslega löglausa og ómanneskjulega ákvörðun. Þetta er sorglegt hlutskipti fyrir Ólöfu Nordal en hið eina jákvæða sem hún hefur lagt til málanna eru hugmyndir um að rannsaka þurfti athæfi Útlendingastofnunar í málinu. Og reyndar hefur umboðsmaður Alþingis nú þegar lagt drög að slíkri rannsókn og fer auðvitað betur á því að hann skoði málið en innanríkisráðuneytið sjálft.
Það virðist nú þegar deginum ljósara að Útlendingastofnun hefur grafið svo undan trausti á sjálfri sér í þessu máli að við það verði ekki unað. Kristín Völundardóttir forstjóri stofnunarinnar var önnur tveggja starfsmanna Útlendingastofnunar sem skrifuðu undir endanlega brottvísun albönsku fjölskyldnanna á þeim grundvelli að farið hefði fram nákvæm rannsókn á albönsku heilbrigðiskerfi sem leiddi í ljós að drengjunum tveim væri engin hætta búin í Albaníu. Í alræmdu viðtali í Kastljósi reyndi Kristín hins vegar að gefa til kynna að hún hefði ekki skoðað málið sjálf – en glopraði því síðan út úr sér að hún vissi ekki einu sinni að albanska heilbrigðiskerfið væri einkavætt.
Þetta andartak, þegar forstjóri Útlendingastofnunar „kom af fjöllum“ hefði átt að duga til að Kristín segði umsvifalaust af sér eða Ólöf Nordal viki henni tafarlaust frá. Svo var ekki gert, en umboðsmaður mun væntanlega leiða þetta allt í ljós. (Nema umboðsmaður verði þá rækilega vængstýfður eins og sumir valdhafar vilja nú.)
En þótt þetta sé harmsaga, þá má draga einn jákvæðan lærdóm af öllu saman. Íslendingum blöskraði meðferðin á fjölskyldunum og andúð almennings og sómakærra virðist nú ætla að valda því að fjölskyldurnar tvær komi aftur til landsins. Við létum ekki varpa ryki útlendingaandúðar og stækrar reglugerðarhyggju í augu okkar, heldur létum mannúðina ráða. (7-9-13!) Það er gott veganesti fyrir næstu kosningar þegar við vitum að fiskað verður af fullum krafti á miðum útlendingaandúðar og rasisma.
Athugasemdir