Frá lokum fjármálakreppunnar sem hófst árið 2008 hafa augu samfélagsrýna beinst í auknum mæli til Norðurlanda. Ekki til að leita svara er snúa að uppbyggingu fjármálakerfis heldur vegna þess að Norðurlandaþjóðunum hefur í grófum dráttum tekist að tryggja hraðan hagvöxt, jöfnuð í dreifingu efnislegra gæða, tryggt öllum félagslegt öryggi, tryggt öllum fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu og fyrsta flokks skólakerfi. Til samanburðar virðist sem aðrar vestrænar þjóðir (Bretland, Bandaríki Norður-Ameríku, Spánn, Ítalía) hafi talið sig þurfa að draga úr jöfnuði og jöfnu aðgengi þegnanna að opinberri þjónustu til að örva hagvöxt, en ekki endilega haft erindi sem erfiði.
Efnahags- og félagsþróun á Norðurlöndum hefur mótast af samstöðu aðila vinnumarkaðarins um launastefnu sem tæki mið af markmiðum atvinnurekstrar um samkeppnishæfni og markmiðum launþega um launaþróun og tiltölulega öfgalitla launadreifingu. Stjórnvöld beita víðtæku samráði í efnahagsmálum og samkomulag er um að þau setji atvinnuöryggi og baráttu gegn atvinnuleysi á oddinn. Síðast en ekki síst hafa Norðurlöndin byggt upp umfangsmikið opinbert velferðarkerfi. Tilgangur kerfisins er ekki að henda peningum í ölmusufólk heldur að styrkja og styðja og veita öllum þegnunum tækifæri til að lifa góðu lífi á eigin forsendum.
„Tilgangur kerfisins er ekki að henda peningum í ölmusufólk heldur að styrkja og styðja og veita öllum þegnunum tækifæri til að lifa góðu lífi á eigin forsendum.“
Ákvarðanir um stefnumótun er gerð í víðtæku samráði. Hér á landi höfum við séð nýjar ríkisstjórnir láta það verða sitt fyrsta verk að afturkalla ákvarðanir fyrri stjórnar. Slíkt er fátítt við stjórnarskipti í Danmörku, Noregi og Svíþjóð vegna þess að stjórnmálamennirnir voru búnir að finna rifrildismálum sínum farveg og leysa úr þeim áður en að ákvörðun kom. Norræna líkaninu er ekki haldið uppi með slagorðaköllum og upphrópunum um að Norðurlönd séu „stórustu“ og bestu lönd allra landa. Norræna líkaninu er haldið uppi með þrotlausri vinnu stjórnmálamanna og forystumanna í atvinnu- og félagslífi. Margt mistekst án þess að það sé tekið sem dæmi um gjaldþrot líkansins.
Síðustu tvo áratugi hefur kúrsnum á þjóðarskútunni íslensku verið margbreytt. Á tímabili var stefnt á að gera Ísland að stærsta álframleiðsluríki heims, svona Silicon-valley Norðursins, þá var stefnan sett á að Ísland yrði „fjármálastórveldi“ (á borð við Bresku Jómfrúreyjar, Ermasundseyjar og Lúxemburg!). Núna er kúrsinn settur á að Ísland verði ferðamannaland. Undirbúningur undir allar þessar stefnubreytingar hefur verið heldur klénn. Víst starfar nú á vegum stjórnvalda svokallað atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. En þar á bæ virðist skilvirkni helst felast í því að vera snöggur að afgreiða verðhækkanir á mjólk og hækkun á innflutningstollum á kjöti. Þegar kemur að því að móta umhverfi og stefnu fyrir síðasta drauminn er slegið fram ómótuðum hugmyndum sem jafnóðum eru slegnar í rot af hagsmunaaðilum (ferðamannapassi, komugjöld). Það er gott að búa á Norðurlöndum vegna þess að stjórnmálamenn og hagsmunaaðilar hafa fyrir því að vinna heimavinnuna sína, skrifa allar leiðinlegu skýrslurnar, sitja alla leiðinlegu nefndarfundina, sætta sjónarmiðin. En mestu skiptir markmiðssetningin: Að móta þjóðfélag sem er áhugvert að búa í og sem býr þegnunum sem jafnbest kjör.
Pistill Þórólfs Matthíassonar er innlegg í umfjöllun um flóttann frá Íslandi sem birtist í septemberblaði Stundarinnar.
Athugasemdir