Það sem ég hef lært á öllum þeim árum sem markmiðadrifinn einstaklingur er að áhyggjur af því sem ég get ekki haft áhrif á bara draga úr mér orku og minnka líkurnar á því að ég nái árangri. Það stuðlar að verri líðan og líka fólksins í kringum mig. Eftir að ég áttaði mig á þessu breyttist líf mitt til muna. Eftir efnahagshrunið tók það til dæmis aðeins um eina viku þar til ég áttaði mig og breytti um afstöðu. Ég ætlaði ekki að velta mér upp úr því hverjum væri um að kenna heldur hvernig best væri að komast út úr aðstæðum í rekstri og tryggja mitt nánasta umhverfi. Einbeittur í því án áhyggja um ytri aðstæður eða sökudólga var líklega ástæða þess að markmiðin náðust.
Fréttatímar dagsins eru fullir af framhaldssögum um hræðilega hluti. Hluti sem ég get yfirleitt ekki haft nokkur áhrif á og því óþarfi fyrir mig að hafa áhyggjur af þeim. Þá er ég alls ekki að segja að ég loki augunum fyrir flóttamannavanda í Evrópu, hungursneyð, mannréttindabrotum eða morði frömdu í Noregi sem rata í fréttir á Íslandi. Ég hef bara einfalda reglu: Get ég eitthvað haft áhrif á viðkomandi málefni? Ef svarið er já og köllunin segir mér að aðhafast (sem ég geri oft) þá geri ég það. Alltaf tilbúinn til að taka þátt í vitundarvakningu ef hún gæti gert gagn. Sem dæmi gerðum við á PIPAR\TBWA stórt verkefni fyrir rúmu ári sem fékk nafnið „Við öll“ til að stuðla að betri þekkingu okkar á fólki sem hefur flust til landsins og minnka fordóma. Ef ekki, þá eyði ég orku minni ekki í að hafa áhyggjur af viðkomandi frétt og hún fer jafn hratt út og hún kom inn. En ég vil hafa aðgang að upplýsingunum og ég er ekki að segja að fréttin sé óþörf. Bara það að velta sér upp úr henni og hafa áhyggjur, rífast við fólk eða fá lyklaborðskast á samfélagsmiðla um fréttina. Það er óþarfa orkueyðsla.
„Ég vil hafa aðgang að upplýsingunum og ég er ekki að segja að fréttin sé óþörf. Bara það að velta sér upp úr henni og hafa áhyggjur“
Eitt af því sem pirraði mig mest síðustu ár voru beinar útsendingar frá réttarhöldum yfir Breivik. En það var einmitt það sem hann vildi. Best hefði verið að þessi maður hefði enga fjölmiðlaathygli fengið. Það hefði verið hans mesta refsing. Eins allar fréttirnar af manninum sem keyrði flutningabíl beint inn í mannfjöldann í Nice. Það eina sem hann var að sækjast eftir voru fréttir um allan heim þar sem nafnið hans væri títtnefnt. Best væri ef fjölmiðlar sameinuðust um að nefna aldrei nöfn ódæðismanna sem þessa því það eina sem þeir eru að sækjast eftir er að við öll munum nöfnin þeirra. Þegar sjónvarpsstöðvar sameinuðust um að hætta að mynda strípalinga sem hlupu inn á fótboltavelli þá hættu stípalingar að hlaupa inn á vellina.
Svo er það versta málið af öllu. Hverju breytir það fyrir okkur að fá allar þessar Trump-fréttir? Allavega gerir það ekkert fyrir mig. Ég mun aldrei geta haft áhrif á það hvort Trump er eða verður forseti. Ekki heldur á það hvernig hann hagar sér í embætti. Þegar ég leit yfir forsíðu www.visir.is og sá að þar voru 11 fréttir af Trump á forsíðunni þá kíkti ég aðeins á vefinn og fékk mér Trump Blocker. Svo nú fæ ég engar fréttir af Trump og lífið mitt er mun betra: https://chrome.google.com/
Athugasemdir