Nú er allt að gerast. Það er verið að dæla peningum í heilbrigðiskerfið en samt er afgangur í ríkiskassanum. Jesús minn almáttugur (eða jólasveinn, fer eftir hvað þú trúir á í nafni jólanna) hvað ég myndi óska þess að ég væri svona góð í afgöngum.
Á næsta ári get ég kannski pantað tíma hjá tannlækni, en ég mun samt krossa fingur og biðja til guðs (eða jólasveinsins, sorrí, Ásmundur Friðriks) að engar séu tannskemmdirnar. Einnig gæti ég farið í apótekið og keypt lyf sem ég þarf að taka að staðaldri sökum heilsukvilla og fengið þennan gamla góða fiðring frá 2000ogeitthvað þegar starfsmaður apóteksins rétti mér lyfjapokann og sagði „gjörðu svo vel, þetta gerir 0 kr.“ Ah, gamla góða niðurgreiðsla Sjúkratrygginga ríkisins. Í dag þarf ég fyrst að punga út rúmlega 60.000 kr. svo ég komist í hið heilaga efsta þrep greiðsluþátttöku og geti gengið út með bros á vör og haldið þessum spikfeitu seðlum í veskinu mínu. Geri ég mér þó fulla grein fyrir að þetta eru ekki raunhæfar óskir.
Það voru gömlu góðu dagarnir þegar maður splæsti í kvensjúkdómalækni fyrir reglubundna krabbameinsskoðun, húðsjúkdómalækni til að skoða fæðingarblettina og skellti sér síðan í árlega skoðun hjá tannlækni. Þið vitið, til að fyrirbyggja sjúkdóma og tannskemmdir framtíðarinnar og spara ríkinu frekar stórar upphæðir með því að halda mér í formi.
„Það voru gömlu góðu dagarnir þegar maður splæsti í kvensjúkdómalækni fyrir reglubundna krabbameinsskoðun.“
En ok. Ég er þrátt fyrir allt að ofantöldu ung, hraust kona í blóma lífsins. Ég hlýt bara að vera sú sem Bjarni Ben vísar í þegar hann hann nefnir að við séum að „feta okkur inn á braut sem við höfum áður þrætt, sem er að kunna okkur ekki hóf þegar vel árar. Þá þurfum við aðeins að búa í haginn fyrir framtíðina, fyrir erfiðari tíma.“ En Bjarni, ég bara ræð ekki við mig. Ég verð alveg kaupóð þegar ég þarf að sækja mér læknisþjónustu, láta laga í mér tennurnar, greiða leiguna og skella mér í þessar skoðanir sem eiga að koma í veg fyrir að ég verði enn einn útgjaldakostnaður heilbrigðiskerfisins. Sorrí, Bjarni, froðupeningarnir sem þú vilt að ég spari fyrir framtíðina bara leka úr veskinu mínu. Ég er ógeðslega mikil eyðslukló, kaupfíkill heilsu og framtíðar, bæði minnar og fjölskyldunnar.
Ég er, þrátt fyrir allt saman, alls ekki á flæðiskeri stödd. Það er alltaf til matur í ísskápnum mínum, hef þak yfir höfuðið. Ég nýt þeirra forréttinda að geta verið námsmaður. Enda bý ég ekki ein. Við erum tvö að hjálpast að við þetta allt saman ásamt því að ala upp barn. Þannig að eins og Bjarni segir þá erum við „öll mannleg í þessu og hver hefur sinn mælikvarða á það hvort hann hafi nóg.“ Maður verður að þakka fyrir það að eiga svona góðan fjármálaráðherra sem kann að skilgreina hinn freka, kaupsjúka pöpul.
Nóg af undirritaðri. Til að setja þetta í samhengi þá er Guðný vinkona mín veik. Hún er með krabbamein. Ég hef skrifað um hennar þrautagöngu áður og ég segi bara díses fokkin kræst (sorrí, Ásmundur Friðriks, það er mjög langt síðan ég fór í messu) hvað ég er þakklát fyrir að vera ekki sjúklingur á Íslandi í dag. Hún hefur fengið slæmar fréttir og góðar fréttir. Hún er loksins orðin „nógu veik“ af lyfjameðferðinni svo hún fær niðurgreiddan ferðakostnað fyrir eiginmann sinn þegar hún þarf að fara í jáeindaskannann í Danmörku. Það eru svo sem hvorki góðar fréttir né slæmar.
„Hún er loksins orðin „nógu veik“ af lyfjameðferðinni svo hún fær niðurgreiddan ferðakostnað fyrir eiginmann.“
Nýlega þurfti hún að leggjast inn á 11 G - krabbameinsdeild blóðlækninga. Þar er yndislegt fólk að vinna, reyndar spyr ég sjálfa mig hvað myndi gerast ef eingöngu fólk með þetta hjartalag væri í stjórnmálum.
En það er mikið að gera. Allar stofur eru fullar og því þurfti Guðný að vera á ganginum. Ég sat hjá henni og hlustaði á fólk labba fram og til baka á ganginum með lyf í æð. Það ískraði svo mikið í öllum vökvastatífunum sem sjúklingar drógu á eftir sér að ég var að spá í að koma með WD-40 og ganga á milli þeirra í næstu heimsókn og laga þetta. Mér þótti þetta ískur vera ærandi hátt. Þetta ískur var hin fullkomna myndlíking ástandsins árið 2016. Ískrið var eins og ákall Kára Stefánssonar um endurreisn heilbrigðiskerfisins sem 86.761 hafa skrifað undir. Ærandi til að byrja með, en svo aðlagast maður hljóðinu og skellir bara 7,3 milljörðum króna í stað þeirra 12+ milljarða sem við svo ískrandi þurfum.
Svo tók nóttin við af ískrinu, og Guðný og krabbameinið áttu að sofa á ganginum á 11 G. Spítalagangar eru engir staðir fyrir manneskjur til að sofa á. Hún fór sjálf af stað og fann sér viðtalsherbergi þar sem var sófi til að sofa í. Hún er lausnamiðaður hjúkrunarfræðingur sem lætur ekkert stöðva sig.
Það er afgangur, það er hallalaust fjárlagafrumvarp.
Athugasemdir