Þórður Snær birti góðan leiðara í Kjarnanum um helgina þar sem hann fjallar um atburði síðustu viku, svo sem nýjustu vendingar í Illuga sögu Gunnarssonar, fréttir af hlutafjárútboði Símans, himinháum arðgreiðslum til eigenda útgerðarfyrirtækja, pilsfaldarkapítalisma í ferðaþjónustunni og frændhygli og bitlingagjöf til vildarvina stjórnarflokkanna. Í niðurlagi greinarinnar spyr Þórður hvort „við“ höfum eitthvað lært af fyrri mistökum og kemst að þeirri niðurstöðu að „hér [hafi] ekkert breyst“.
Ég held að sú niðurstaða sé röng.
Eitt af ljótustu einkennum útrásartímans er kannski það hvernig fólk lokaði augunum fyrir misnotkun valds og samkrulli stjórnmála og peningavalds. Flestum var bara nokk sama, að minnsta kosti meðan hagtölur vísuðu upp og hægt var að halda partýinu gangandi.
Í 12 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins voru ríkisfyrirtæki seld góðkunningjum á undirverði, skattkerfið flatt út, skattbyrðinni velt yfir á lágtekjufólk og náttúruperlum fórnað fyrir nokkurs konar brunaútsölu á íslenskri raforku sem mannréttindabrjótandi stórfyrirtæki græddu á. Íslensk stjórnvöld kóuðu með kínversku alræðisvaldi með því að hrúga Falun Gong-iðkendum inn í Njarðvíkurskóla og brjóta á þeim persónuverndarlög, og þau beygðu sig undir hernaðarstefnu Bandaríkjanna með því að gera Ísland að stuðningsaðila ólöglegs stríðs í Írak.
Góðærisstemningunni fylgdi skoðanakúgun og tuddaskapur gagnvart þeim sem settu spurningamerki við ráðandi gildismat. Davíð Oddssyni fannst Þjóðhagsstofnun óþekk og lagði hana niður. Eftir að Skipulagsstofnun lagðist gegn Kárahnjúkavirkjun og spáði réttilega fyrir um skaðann sem framkvæmdirnar áttu eftir að valda Lagarfljóti var stofnunin hressilega vængstýfð. Pólitískar ráðningar voru nánast eins og óskrifuð regla með tilheyrandi tjóni á stjórnkerfinu – og sami ósiður tíðkaðist meira að segja við skipan dómara.
Þetta var ljótt tímabil. Meirihlutinn valtaði yfir minnihlutann; hagvöxtur og gróði var tekinn fram yfir mannréttindi og prinsipp, ýmist með afgerandi stuðningi eða þöglu samþykki almennings.
Ég held – og ég vona innilega að það sé rétt hjá mér – að eftir hrun hafi eitthvað breyst. Að núna sé erfiðara fyrir spillta stjórnmálamenn að vera spilltir, erfiðara fyrir óheiðarlega stjórnmálamenn að skrökva og að almenningur sé gagnrýnni og kröfuharðari í garð kjörinna fulltrúa en áður.
Maður með skegg sagði að sagan endurtæki sig; fyrst birtist hún sem harmleikur og síðan sem farsi. Mig grunar að margir upplifi einmitt ýmis uppátæki sitjandi ríkisstjórnar og hina ýmsu atburði á kjörtímabilinu sem einhvers konar kómískt framhald af útrásartímanum. Grínútgáfuna.
Laun eru bæði fyrirframgreidd og eftirágreidd. Framkvæmdastjóri hálfríkisrekins apparats er ráðinn án auglýsingar, segist engin tengsl hafa við Sjálfstæðisflokkinn en var samt skráður til þáttöku á landsfundi. Ættingjar fjármálaráðherra kaupa hlut í fyrirtæki af Landsbankanum, sem er í 98% ríkiseigu, án þess að formlegt söluferli fari fram. Einn helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins fær ríkisfé til að rannsaka hrunið sem varð á vakt flokksins hans. Byggðastefna Framsóknarflokksins birtist í geðþóttastjórnsýslu, sms-styrkveitingum og klaufalegri tilraun til að vippa ríkisstofnun út á land. Hvalveiðirembingur skilar sér óvart í bjór úr hvalakúki. Forsætisráðherra platar Sameinuðu þjóðirnar en kvartar svo í hundraðasta skiptið yfir því að þjóðin misskilji sig (sami ráðherra hefur einmitt lýst áhyggjum af veiru í erlendu kjöti sem geti breytt hegðunarmynstri heilu þjóðanna). Þingmaður Framsóknarflokksins ælir rauðvíni yfir ferðamenn og vinur hans úr samstarfsflokknum lýgur því að blaðamanni að atvikið hafi ekki gerst. Forsætisráðherra er beittur fjárkúgun sem tengist vinskapi hans við Björn Inga, mann sem hrökklaðist úr pólitík vegna jakkafata- og hnífasettahneykslis en breyttist í Rupert Murdoch Íslands nánast á einni nóttu.
„Spillingin, frændhyglin, ójöfnuðurinn og græðgin“ sem einkenndi tímabilið fyrir hrun er vissulega enn til staðar. Munurinn er hins vegar sá að almenningi er ekki sama. Aðhaldið er öflugra og olnbogarými valdsins um leið minna.
Sigurður Ingi var gerður afturreka með flutning Fiskistofu og náttúrupassi Ragnheiðar Elínar virðist úr sögunni. Hanna Birna sagði af sér í kjölfar afskipta af lögreglurannsókn, síendurtekinna lyga og lögbrots aðstoðarmanns. Illugi er eltur á röndum þessa dagana og ábyrgir fjölmiðlar kappkosta að rýna í orð hans og athafnir. Græðgi er ekki lengur töff, heldur asnaleg. Spillingin er klaufalegri en hún var og fólk sér betur í gegnum óheiðarlega stjórnmálamenn en áður.
Kannski var sú ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem tók við stjórnartaumunum árið 2013 einmitt það sem við þurftum til að geta gert upp útrásartímann og hrunið. Síðasta vika var ekki „vikan sem opinberaði að hér hefur ekkert breyst“. Vikan afhjúpaði hins vegar að ráðandi öfl standa ekki undir kröfunni um vandaða stjórnsýslu og heilbrigð stjórnmál.
Athugasemdir