Greiningardeild lögreglu sem nú starfar, en án forvirkra rannsóknarheimildar, átti einu sinni að heita Þjóðaröryggisdeild. Það er flott nafn og vel við hæfi og lýsir ágætlega tilgangi slíkra stofnanna sem síðan eru kallaðar leyniþjónustur og fá svo torrætt nafn og dularfulla skammstöfun.
Okkar Íslenska leyniþjónusta gæti því fengið nafnið: Íslenska Greiningardeildinn skammstafað ÍGD. Sem er mjög töff. Þjóðaröryggisdeild Íslands yrðið hinsvegar ÞÖDÍ sem er ekki eins töff en samt gaman að hið séríslenska Þorn fái einu sinn að glansa þó það gæti orðið vesen í alþjóðasamskipum.
Aðalatriðið í allri umræðum um ÍGD, sem ég kýs að kalla svo, er hugtakið „skipulögð glæpastarfsemi“.
Hvenær verður glæpastarfsemi skipulögð og hvers vegna er sú tegund glæpastarfsemi svo hættuleg að það réttlætir þessa undantekningu frá grundvallarreglunni um samskipti ríkisvaldsins við borgaranna?
Því er til að svara að máttur samvinnunar er svo mikill að þegar glæpamenn stofna með sér samvinnufélag geta þeir komist upp með glæpi sína jafnvel þó þeir séu framdir fyrir opnum tjöldum.
„Skipulagðir glæpir eru því ekki meira leyndó en aðrir glæpir, þvert á móti geta þeir blasað við öllum“
Skipulagðir glæpir eru því ekki meira leyndó en aðrir glæpir, þvert á móti geta þeir blasað við öllum en engu að síður getur reynst erfitt að upplýsa þá, hvað þá ákæra eða dæma hina seku.
Það sem veldur er það ógnarvald sem svona glæpafélög geta náð. Það getur beinlínist reynst hættulegt að reyna að trufla eða uppræta þessa glæpastarfsemi. Dómurum, embættismönnum, stjórnmálamönnum, lögreglu og almennum borgurum er á einhvern hátt ógnað eða þeir beittir þrýstingi. Hið skipulagða glæpafélag getur þar með orðið ríki í ríkinu. Mikilvægt er að hafa í huga að þessi ógn eða þrýstingur þarf ekki alltaf að vera hótun um beint ofbeldi.
Glæpamenn með félagsþroska eru því hættulegastir af því þeir hafa yfir að ráða svo fjölbreyttu vopnabúri.
Sbr. „Make him an offer he can not deny“.
Auðvitað er það ljóst að ÍGD þarf að fylgjast með og kortlegga þessa venjulegu ofbeldis glæpóna eins og vændiskarla, mannsalsmenn og fíknihunda af öllum sortum.
Hinsvegar eru önnur mikilvæg verkefni af innlendum toga sem greiningardeildin þarf að einbeita sér að og falla fullkomlega undir skilgreininguna: Skipulögð glæpastarfsemi.
Álfyrirtækin og íslenskir samverkamenn þeirra
Hér þarf að kortleggja hin meintu skattaundanskot fyrirtækjanna sem afhjúpuð voru í Kastljósi um árið og ekkert hefur verið aðhafst í.
Það hafa vaknað grunsemdir um glæpsamlegt samband stjórnsýslunnar og stjórmálamanna við erlenda auðhringi og þess vegna er það látið líðast að arðinum af auðlindum okkar sé skotið undan.
Álverin borga alltof lítinn tekjuskatt af því að þau þykjast vera svo skuldug sjálfum sér í útlandinu.
Komið hefur fram að íslensk stjórnvöld gætu komið með krók á móti bragði með reglu- og lagasnúningi en til þess þarf pólitískan vilja.
Hin íslenska leyniþjónusta eða ÍGD þarf að kanna hvers vegna sá pólitíski vilji er ekki fyrir hendi og hvort að glæpsamlegar ástæður liggi þar að baki.
Svo þarf auðvitað að kanna samband Umhverfisstofnunnar við álverin og hvers vegna þessi varðhundur umhverfis og almannaheilla sé orðinn að kjölturakka þessara erlendu iðjuvera eins og dæmin sanna.
Íslenskir útgerðarmenn og dótturfélög þeirra
Hér þarf ÍGD í raun að hreinsa mannorð þessarar mikilvægu stéttar, sem endalaust alt frá dögum Kveldúlfs Thorsaranna til okkar daga, er sökuð um að falsa fiskverðið með því að selja fiskinn frá Íslandi til sjálfs sín í útlandi. Þennan þráláta orðróm þarf að jarða enda er hér um höfuðglæp gegn þjóðinni að ræða og má líkja þessum meinta glæp við starfsemi blóðsugu sem leggst á slagæð og tappar af þannig að hýsillinn liggur eftir slappur og súrefnislaus. Í framhaldi þarf að kanna tengsl útgerðarfyrirtækjana við stjórnmálastéttina á sama hátt og við álfyritækin. Hvers vegna myndast ekki pólitískur vilji um eðlilega gjaldtöku af auðlindum þjóðarinnar henni til heilla. Getur verið að auðræðið sé að spilla lýðræðinu?
Skemmdarverkamenn innan Mjólkursamsölunnar
MS hefur orðið uppvíst að því að týna uppskriftinni af skyri og skemma mysuna. Þannig hefur MS breytt framleiðsluháttum sínum á skyri á þann veg að MS-skyr er í mesta lagi skyrlíki – jafnvel hefur það verið kallað „sýrður undanrennubúðingur“ eða eitthvað ámóta. Íslenska skyrið er eina umtalsverða framlag okkar til matarmenningar heimsins og því er þetta menningarlegt skemmdarverk á heimsmælikvarða sem einungis er mögulegt vegna einokunnarstöðu MS á markaðnum. Einnig er mikil áhersla fyrirtækisins á að bæta við sykri í vörur sínar ógnun við heilsu og heill þjóðarinnar sérstaklega vegna fyrrnefndar einokunnarstöðu og ÍGD þarf að kanna bakgrunn forsvarsmanna fyrirtækisins og fá fram hvað þeim gengur til og hversu einbeittur brotavilji liggur þarna að baki.
Að lokum þarf að huga vel að stöðu leyniþjónustunar innan stjórnskipunarinnar.
Þar er margt að varast.
Innan rússneska kommúnistaflokksins var það ritari flokksstjórnarinnar sem fékk forvirkar rannsóknarheimildir. Það varð til þess að ritarinn varð Aðal-ritari og formannsembættið varð að þykjustu embætti. Maður með rétt lundarfar og forvirkar rannsóknarheimildir getur auðveldlega orðið aðal-maðurinn.
Ef stjórnskipan Amríkumanna hefið verið öðruvísi og J. Edgar Hoover haft einhvers konar ráðherraembætti auk þess að stjórna FBI hefið hann líklega orðið Aðalritar Bandaríkjanna. Fór hann samt mjög nálægt því enda hafði hann forvirkar rannsóknarheimildir.
Vandinn við að koma þessari þjóðþrifastofnun á fót hér á Íslandi snýr helst að því hve margir eru vanhæfir sem samkvæmt stjórnskipun okkar ættu að koma að borðinu.
Ríkislögreglustjóri og Lögreglan öll liggur undir grun um óholl tengsl við Amríkana.
Innanríkisráðherran okkar nýji er vanhæfur vegna tengsla við álfyrirtækin.
Það sama má segja um flesta ráðherra og þingmenn varðand öll þau rannsóknarefni sem að ofan greinir bæði í þessum pistli og hinum fyrri.
Mér dettur helst í hug að ÍGD ætti að vera undirstofnunn undir Umboðsmanni Alþingis og heyra þar með beint undir Alþingi. Stjórnmálaflokkar mættu ekki að koma að skipun stjórnar ÍGD. Þeir eru í eðli sínu of skyldir skipulögðum glæpasamtökum. Hér þurfum við fólk sem ekki er í talsambandi við þá sem síst skyldi.
„Stjórnmálaflokkar mættu ekki að koma að skipun stjórnar ÍGD. Þeir eru í eðli sínu of skyldir skipulögðum glæpasamtökum.“
Líklega væri best að leita til ljóðskálda, þjóðfræðingar eða íslenskufræðinga til að sitja í stjórn leyniþjónustunnar og móta henni starfsreglur. Þessháttar fólk hefur augljóslega ekki vakand áhuga á völdum en hefur á sama tíma ríka þörf fyrir ríkisvald um leið og það byggir tilvist sína á íslenskri þjóðmenningu.
Stjórnin skipaði svo forstjórann eða yfirmann leyniþjónustunnar. Við erum að tala um einstaklinginn sem fengi forvirkar rannsóknarheimildir í sínar hendur. Og þá vandast valið. Eiginlega treysti ég engum núlifandi mann til verksins nema þá sjálfum mér. Verst er að það yrði varla gerlegt fyrir mig nema þá milli verkefna og þá í hlutastarfi. En ef til mín væri leitað mætti kannski finna einhver flöt á því. Eitt er víst að einhver þarf að fórna sér.
Benedikt Erlingsson er margreyndur leikari og gerði garðinn frægan með Fóstbræðrum á sínum tíma. Þá hefur hann leikstýrt fjölda leikverka og var margverðlaunaður fyrir kvikmyndina Hross í oss, fékk meðal annars kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs.
Athugasemdir