Á Íslandi talar bróðurpartur fólks íslensku. Stærsti hluti þeirra hafa málið að móðurmáli, fengu það með móðurmjólkinni. Íslenska er eina opinbera tungumál landsins og þar af leiðandi tungumál stjórnsýslunnar. Það er ríkismálið. Til að eiga við íslensk yfirvöld er eingöngu til framdráttar að vera vel að sér í íslensku. Það liggur í augum „úti“.
Íslenska er heilsteypt mál, því að gera allstaðar eins. Litlar líkur eru á að svæðisbundinn munur tungumálsins leiði til samskiptaörðugleika þótt einhver munur sé, vel að merkja, á talsmáta eftir landshlutum. Í samanburði við önnur lönd er íslenska klippt og skorið tungumál. Tali viðkomandi það á annað borð getur sá hinn sami gert sig skiljanlegan á meðal þeirra sem einnig tala íslensku. Slíku er ekki endilega fyrir að fara hvað viðkemur öðrum tungumálum, sé litið til mállýskna.
Það er nokkuð almenn vitneskja að lýður sá sem Ísalandið byggir er einsleitur etnískur hópur; hann er hvítur á hörund, hefir íslensku að móðurmáli, rekur einkum uppruna sinn til norðmanna og kelta sem, samkvæmt Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar og Landnámu, settust að á eyjunni. Hópur þessi lifir og hrærist í svipuðu menningarlegu umhverfi og fæðist inn í evangelísk-lútherska kirkju, ríkiskirkju.
Ber nú svo við að samsetning fólks á Ísafold breytist. Vill svo til að um 27.000 þeirra sem Ísland byggja eru erlendir ríkisborgarar. Á fjórða ársfjórðungi síðasta árs bjuggu 332.750 einstaklingar á landinu. Sama ár voru innflytjendur með íslenskt ríkisfang 7392 og 21.800 innflytjendur með erlent ríkisfang. Til samanburðar má nefna að árið 1950 var hlutfall erlendra ríkisborgara 1,9% eða 2696 einstaklingar. Árið 1990 var 4.812 einstaklinga að ræða eða hlutfallslega 1,9% og árið 2000 voru það 7271 eða 2,6%. Tölur þessar eru fengnar hjá Hagstofu Íslands.
Hvað má ráða af þessu og hvað viðkemur það yfirskrift þessarar greinar? Jú, það má ráða af tölum þessum að æ fleiri einstaklingar hafi annað mál en íslensku að móðurmáli. Hugsanlega má og gefa sér að litasamsetning fólks sé að breytast sem og menningarlegur bakgrunnur. Í stuttu máli fer einsleitni Íslendingar víkjandi sakir þess að æ fleiri ákveða eða þurfa að setjast að á Íslandi til lengri eða skemmri tíma. Sumir hverjir koma hingað af efnahagsástæðum, sumir vegna þess að þeir féllu í stafi fyrir landi og þjóð og enn aðrir sakir þess að þeir neyddust til þess sakir stríðs eða annarra lífshættulegra aðstæðna. Um þessar mundir koma jú allnokkrir flóttamenn frá stríðshrjáðum svæðum til Íslands til að hefja nýtt líf. Svona af því að þeir eru enn á lífi.
Nú er það að búa í nýju landi, hver svo sem ástæðan fyrir verunni er, er ekki alltaf tekið út með sældinni. Stundum er það erfitt. Ýmislegt er framandi og annað ill- eða óskiljanlegt. Til að mynda er tungumálið mörgum allt að því lokuð bók. Hvernig það reynist að opna bókina fer mikið til eftir þjóðerni viðkomandi aðila. Til að mynda reynist íslenska öllu auðveldari þeim sem hafa mál að móðurmáli sem svipar til þess íslenska; þar sem líkindi eru á milli orðaforða, setningarskipan og málfræði. Hér er einkum og sér í lagi horft til germönsku málanna því allajafna tekur skemmri tíma fyrir þá sem tala germanskt mál að ná einhverjum tökum á íslensku vegna ofangreindra atriða. Þeir aðilar sem hafa annað tungumál að móðurmáli eiga oft í erfiðleikum með þessi atriði. Svo skiptir bakgrunnur og menntun fólks einnig umtalsverðu máli sem og það vægi sem tungumál hafa yfirhöfuð í fæðingarlandinu. Íslenska er þó, í grunninn, hvorki erfiðari né auðveldari en önnur tungumál.
Þetta eru svo sem engin ný sannindi en ágætt að benda á fyrir þær sakir að flestir sem setjast að á Íslandi hafa hug á að læra tungumálið. Slíkt tekur auðvitað mislangan tíma. Þar að auki er ekki úr vegi að benda á þau algildu sannindi að því betur sem sem fólk kemst inn í tungumál nýja landsins þeimur betur er það í stakk búið að taka þátt í samfélaginu; skilja menningu landsins og tileinka sér hana að einhverju leyti sem og að skilja réttindi sín og hvað um er að vera í landinu.
Því miður fylgir auknum íslenskuskilningi líka að átta sig á þeim óhróðri sem dreift er víðsvegar um fólk sakir einhvers sem viðkemur uppruna þess. Getur það víst lítið að upprunanum gert. Enginn getur að sinni tilveru gert.
Nú fyrirfinnst sannlega ótti gagnvart innflytjendurm og flóttamönnum á Íslandi. Það er allljóst því annars hefðu Framsóknarflokkurinn og flugvallarvinir varla náð 10,7% fylgi í síðustu bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík. Þar að auki þarf ekki að dveljast lengi við að skoða ummæli við fréttir sem lúta að innflytjendum og flóttafólki til að sannfærast um að ótti er til staðar. Um þessar mundir virðist uggurinn aðallega beinast að múslimum og fólki sem kemur frá löndum þar sem sú trú er ríkjandi. Eru sumir hverjir óhræddir við að fjölyrða ýmislegt miður gott um það fólk sakir uppruna þess og óttast hið versta verði því hleypt inn í landið.
Þeir óttaslegnu ættu máski að spyrja sig nokkurra spurninga.
a) Hvað hægt væri að gera til að vinna meinbug óttanum? Ætti máski að leitast við að hitta fólkið og mynda sér síðan skoðun? Ætti að reyna að hafa samskipti við innflytjendur, bjóða fram aðstoð þannig að þeir aðlagist íslenskum aðstæðum sem fyrst. Hugsanlega myndi slíkt hafa í för með sér að viðkomandi kæmist að því að engin ástæða sé fyrir hræðslu eða að hann geti látið sitthvað gott af sér leiða til að sambúðin við nýja Íslendinga gangi sem best fyrir sig.
b) Svo gæti sá skelfdi tekið annan pól í hæðina og spurt sig hvort réttast væri að berjast fyrir lokun landins, að Ísland taki ekki við fleiri innflytjendum og flóttafólki; að þetta sé komið gott, við reddum þessu sjálf, segjum okkur úr Schengen og Evrópska efnahagssvæðinu og segjum goodbye, auf wiedersehen, au revoir og arrivederci! Og ef sá hinn sami vildi bæta um betur spyrði hann hvort rétt væri að vísa þeim sem fyrir eru úr landi og taka Trumpinn á þetta og meina sumu fólki að heimsækja landið.
Nú má nokkuð ljóst þykja að b-liðurinn er illframkvæmanlegur auk þess sem hann er frekar ósanngjarn að segjast verður. Auk þess er staðreyndin sú að innflytjendum fer fjölgandi og mun sjálfsagt gera enn um sinn. Þannig er aðstæðum háttað. Þar af leiðandi á a-liðurinn fremur við að mætti ætla.
Auðvitað hafa ef til vill ekki allir hug á að leggja sig í líma við kynnast nýjum Íslendingum. En það sem er frekar auðvelt að gera er að tala íslensku á móti þegar þeir bregða fyrir sig íslensku. Það ætti einnig að vera næsta auðvelt að stýra hraðanum, tala skýrt og skilmerkilega og umorða hlutina ef viðkomandi skilur ekki.
Lykillinn að íslensku samfélagi, menningu, venjum þess og hefðum er nefnilega tungumálið og ættu allir að geta lagt sitt af mörkum til að stuðla að því að innflytjendur læri málið sem fyrst með því einfaldlega að tala íslensku og sýna þolinmæði gagnvart þeim sem er að læra hana.
Það liggur í augum uppi að allir geta lagt sitt af mörkum með því einfaldlega að tala íslensku við viðkomandi og aðlaga íslenskuna að færni þess sem lærir hana. Það getur verið strembið að læra erlent tungumál og enn meira strembið ef innfæddir leggja ekki á sig að gera sitt til að hjálpa við lærdóminn og notast ekki sífellt við lingua franca dagsins í dag, ensku, nema þá til útskýringar. Tungumálskólar er sannlega góðir en besta æfingin er hugsanlega sá skóli sem fæst í hvunndeginum.
Já, á Íslandi tölum við íslensku og sumir læra hana. Og þegar þeir sem hana læra hafa öðlast nógu góða færni í málinu eru meiri líkur á því að úr verði góðir og gildir þjóðfélagsþegnar og þótt menningarlegi bakgrunnurinn sé ef til vill annar sem og hörundslitur og trúarbrögð. Með því kann óttaslegnum innfæddum einnig að fækka.
Athugasemdir