Ég fór að pæla í þessu um daginn: Hversu einkennilegt það sé að ég, og bara öll mín ’86-kynslóð, höfum alist upp í þeirri hugmynd að valdafólk þjóðarinnar sé alltaf hálfgerðar skrípafígúrur. Spilltar, kómískar, vanhæfar, sjálfhverfar, nördalegar. Frá því að ég fæddist höfum við varla átt svalan, heillandi ráðherra eða forseta sem maður hefur nennt að leggja eyra eftir – einu dæmin sem mér koma til hugar í svipinn eru konur (t.d. Vigdís og Katrín) – og það er náttúrlega ekki nógu gott, þegar maður byrjar að spá aðeins í spilin, hversu fáir af valdamönnum þjóðarinnar, og þar með fyrirmyndum, eru spennandi týpur. Það gerir ungt fólk fráhverft stjórnmálum og leiðir til þess að við nennum ekki að fylgjast með.
Og svo opnar maður fréttasíður einn daginn, árið 2016, og sér að Sigmundur Davíð, ástríðufyllsta nörd Íslands, botnar nýjasta bréf sitt til meðlima Framsóknarflokksins – afar athyglisvert bréf, by the way – með orðunum:
Íslandi allt!
Og sko … Bara. Vá.
Maður verður orðlaus.
Hversu mikið er hægt að vera á skjön við æskilega hegðun, viðeigandi hugsjónir, árið 2016? Þegar auknar tilhneigingar til þjóðernishyggju og útlendingahaturs ógna friðarjafnvægi um víða veröld.
Íslandi allt!
Fyrst hló ég reyndar bara þegar ég las þetta. Róaðu þig niður, Sverrir, maðurinn er svona ástríðustjórnmálanörd og tekur þetta bara eitthvað aðeins of alvarlega … Síðdegis sama dag fékk ég hausverk, eftir langt Skypesamtal við ömmu mína, og brá þá á sama ráð og ég hef gert alltof lengi – ég seildist eftir áhugaverðara lesefni en fréttum um íslenskt stjórnmálafólk. Skáldsögu eftir Auði Övu Ólafsdóttur, greinasafni um gróðurhúsaáhrif. Ég man það ekki.
En þetta hélt áfram að sækja á mig … Um nóttina hrökk ég kófsveittur upp af martröð og stikaði í óráðsíukasti fram og aftur gólf; fyrir hugsjónum mér þyrluðust myndir af Sigmundi Davíð, bograndi yfir fartölvunni sinni í miklu myrkri, að slá stynjandi inn orðin Íslandi allt! Íslandi allt! Íslandi allt! á fartölvuna sína, aftur og aftur og aftur, staddur einhvers staðar í fallegum, tvö hundruð fermetra sumarbústað: Íslandi allt! Íslandi allt! Íslandi allt! allur rúsínukrumpaður eftir að hafa legið í makindum í heita pottinum á veröndinni síðustu þrjár klukkustundirnar, til að hita sig upp fyrir ritstörfin. Í martröðinni minni ritaði Sigmundur Davíð Íslandi allt! samtals tíu þúsund sinnum í Word-skjalið sitt, blákaldur á svip, haukfrán, sokkin, blóðtætt augun læst við tölvuskjáinn, lambakjötstægjurnar frá kvöldverði gærdagsins ennþá fastar í endajöxlunum, ískalt Mountain Dew freyðandi upp úr flöskunni á borðinu fyrir framan hann. Og hann ritaði þetta sem formaður eins valdamesta stjórnmálaflokks þjóðarinnar: Íslandi allt! Pældu í því … Eftir því sem ég best fæ séð virtist honum vera fúlasta alvara með þessu. Eins má draga þá ályktun af lestri bréfsins, sem hann stílaði um daginn til Framsóknarflokksins, að hann taki hinn „pólítíska slag“, eins og hann orðar það, afar alvarlega, en bréfinu hans virðist hafa verið klambrað saman af þjakaðri vandvirkni, hægt og af lamandi einstefnu í hugsun, nístandi skorti á öðrum áhugamálum en „hinum pólítíska slag“, í von um að setningarnar myndu orka sem sterkast á flokksmenn Framsóknarflokksins. Eins er tekið fram í bréfinu að það hafi verið ritað á meðan „samfélagið [var] í hefðbundnum júlídvala og margir í sumarfríi“. En ekki Sigmundur Davíð – ó, nei.
„[Ég hef] notað tímann til að skrifa, fræðast og leita nýrra sóknarfæra fyrir landið okkar.“
Íslandi allt!
Eftir því sem ég hugsa meira og meira um þetta, verður þessi kveðja hans, þessi sláandi upphrópun, bara skrítnari og skrítnari og skrítnari.
Íslandi allt!
Hvað felst í orðinu „allt“? Og um hvaða „Ísland“ er maðurinn að tala?
Talandi um Ísland … Þessi orð mín eru rituð í New York og nú minnist ég þess þegar í hitti daglega hér í borginni – í vikunni eftir að Sigmundur Davíð laug að allri íslensku þjóðinni (og raunar öllum heiminum) – gáfað, vel upplýst fólk frá öllum heimshornum (t.d. Ítalíu, Ekvador, Frakklandi, Bandaríkjunum, Danmörku, svo að fáein lönd séu nefnd) og allir höfðu séð Wintris-myndbandið skemmtilega af þessum einkennilega, svifaseina manni með signu ugluaugun og einhæfa fatasmekkinn. Og litu á hann sem dæmigerðan holdgerving spillingarinnar sem alls staðar grasserar í stjórnmálum Vesturlanda.
Og ég spyr: Ætlum við virkilega að halda áfram að hafa slíkan mann yfir okkur, næstu árin, jafnvel áratugina? Skuldar þjóðin ekki yngri kynslóðunum að færa valdataumana í hendur frambærilegra fólks, sem ekki lýgur, sem ekki rær einungis öllum árum að því að vernda eigin hagsmuni, sem ekki læðir fjármunum úr landi inn á sína eigin aflandsreikninga, sem stundum segir eitthvað áhugavert, fyndið og/eða heillandi, sem er ekki jafn ógeðslega hallærislegt, lúðalegt og sláandi úrelt í hugsun?
Sem botnar ekki bréf með upphrópun sem ætti besta falli heima í illa skrifaðri barnabók sem gerist á skátamóti árið 1947:
Íslandi allt!
Þegar Sigmundur Davíð strýkur Frónkex-mylsuna af lyklaborðinu sínu og slær Íslandi allt! inn í fertugasta uppkastið af bréfinu sínu til Framsóknarflokksins, þá beitir hann lymskubragði sem stjórnmálamenn af sama sauðahúsi nýta sér auðvitað ítrekað; hann þykist bera hagsmuni íslensku þjóðarinnar fyrir brjósti, vera mikill föðurlandsvinur, en í raun og veru hefur hann aldrei, svo að merkja megi, hegðað sér með bestu hagsmuni þjóðarinnar í huga. Hann er ekki, og hefur aldrei verið, neinn sérstakur föðurlandsvinur. Fólkið sem raunverulega elskar landið okkar eru hversdagshetjurnar sem daglega vinna göfugt starf á sjúkrahúsunum okkar og í skólunum, menn sem sækja föng til sjávar, fólkið sem passar börnin okkar á leikskólunum og rithöfundar sem skrifa bækur þar sem samfélagið okkar er endurhugsað á tungumálinu okkar fallega og brothætta; það er fólkið sem heldur samfélaginu gangandi á sinn hljóðláta, hógværa hátt – og uppsker miklu minna fyrir sinn snúð en þrútni haninn sem galar Íslandi allt! svo að undir tekur í öllum fjölmiðlum þjóðarinnar. Ég tíni auðvitað aðeins til örfá dæmi um fólkið sem vill Íslandi allt hið besta – og ekki einungis Íslandi, heldur öllum heiminum. Því að fólk sem raunverulega elskar landið sitt, menninguna og íbúana þar, er ófært um að aðskilja landið sitt frá heiminum í stóra samhenginu. Það elskar líka Bandaríkin og Evrópu og Asíu og Afríku – því að það veit að þetta er í rauninni allt sama landið. Það elskar allan heiminn. Það lifir og hrærist árið 2016.
Og satt að segja misbýður mér – annars nokkuð jafnaðargóðum manninum – þegar ég les aðra eins væmni og steypu sem kemur frá einum valdamesta stjórnmálamanni landsins.
Íslandi allt!
Það væri svo gaman ef hægt væri að sökkva sér í íslensk stjórnmál án þess að fá aulahroll á fimm mínútna fresti. Er það til of mikils mælst?
Ísland sé frjálst meðan sól gyllir haf,
Sverrir Norland.
Athugasemdir