Hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lygi, orti Stephan G. Stephansson. Undanfarna daga og vikur hefur Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hrakist úr einu víginu í annað. Svör hans við spurningum fjölmiðla og þingmanna um tengslin við Orku Energy hafa einkennst af skætingi og tregðu til að koma hreint fram.
Enda er sannleikurinn óþægilegur fyrir Illuga: Á stuttum ráðherraferli hefur hann þegið fjárhagslega hjálp frá stjórnarformanni fyrirtækis, setið fundi sem menntamálaráðherra með fulltrúum fyrirtækisins á erlendri grundu og verið viðstaddur undirritun viðskiptasamninga þess við aðila erlendis.
Að Illugi hafi ekki lagt öll spilin á borðið strax lýsir ótrúlegum dómgreindarbresti. Hann virðist ekki skilja hugtakið hagsmunaárekstur, né rísa undir þeirri kröfu að stjórnmálamenn forðist athafnir sem orka tvímælis vegna hagsmunatengsla.
Illugamálið er skólabókardæmi um það samkrull stjórnmála og viðskiptalífs sem hrunið og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis hefðu átt að bólusetja okkur fyrir.
Ef Illugi hefur ekki það siðferðisþrek sem þarf til að segja af sér ráðherraembætti er boltinn hjá flokknum hans. Sjálfstæðisflokknum gefst þá tækifæri til að sýna og sanna að hann hafi dregið lærdóm af hruninu.
Athugasemdir