Ólafur Ragnar Grímsson mun ekki bjóða sig fram í forsetakosningunum eftir nokkrar vikur.* Framboð Davíðs Oddssonar hefur gert það að verkum að fram er kominn maður sem mun sækja atkvæði til nokkurn veginn sama fólks og Ólafur Ragnar. Þeir eru báðir málsvarar mildrar þjóðernishyggju, íhaldssemi, útgerðarmanna, stóriðju, íslensku krónunnar og andstöðu við Evrópusambandið.
Táknmyndin Guðni Ágústsson
Táknmynd framboða þeirra beggja er kannski Guðni Ágústsson því það getur verið erfitt fyrir fólk að setja samasammerki á milli Ólafs Ragnars og Davíðs, þessara tveggja gömlu, svörnu fjandmanna í íslenskri flokkapólítík á dögum Kalda stríðsins þar sem hvor um sig var leiðtogi andstæðra póla í samfélaginu. Skærurnar á milli þeirra náðu svo ákveðnum hápunkti í fjölmiðlafrumvarpsmálinu 2004 þar sem Ólafur Ragnar var um árabil illa þokkaður af Davíð og þeim hópi sem í dag er hluti af kjarnakjósendum hans.
En nú mætast þeir og skurðpunktinn má útskýra með Guðna af því hann er táknmynd heimastjórnarmanna sem eru hræddir við Evrópusambandið og það sem þeir kalla gjarnan „erlent vald“ af því þeir hata hugmyndina um valddreifingu; hann er táknmynd Mjólkursamsölunnar og ófrjálsrar samkeppni með landbúnaðarafurðir; hann er táknmynd útgerðarmanna, kvótahafa og ófrjálsrar samkeppni með fiskveiðiheimildir; hann er táknmynd stjórnmálamanna sem styðja stóriðju og ívilnanir til hennar þrátt fyrir að klæða sig einatt í búning ættjarðarástar og nátturudýrkunar; hann er táknmynd þeirrar klisju sem stundum er nefnd „Gamla Ísland“; Guðni er táknmynd þeirra manna og afla sem vilja gera allt til að halda sem mestum mögulegum völdum og fjármunum hjá ákveðnum stjórnmálaflokkum og fyrirtækjum af því þannig treysta þeir eigin völd.
Þetta eru öflin sem vilja halda Ólafi Ragnari sem forseta eða fá Davíð sem hinn nýja.
Guðni Ágústsson, og margir hans líkar, geta sjálfsagt ómögulega valið á milli þessara tveggja frambjóðenda. Hvað á Guðni að gera þegar val hans stendur allt í einu á milli Ólafs Ragnars, sem hann hefur eindregið stutt opinberlega í gegnum árin, og Davíðs Oddssonar sem hann virðir svo mikið, sem honum er svo hlýtt til og á svo vingott við eftir að hafa starfað með honum í ríkisstjórn um árabil?
Þetta er sem sagt svona: Fjandmennirnir Ólafur Ragnar og Davíð eru orðnir vopnabræður sem standa nokkurn veginn fyrir það sama og eru fulltrúar sömu hópa í samfélaginu.
Þess vegna hættir Ólafur Ragnar við
Ólafur Ragnar hefur ekki sagt að hann sé hættur við en hann mun gera það; ég held að það sé einungis dagsspursmál hvenær hann tilkynnir þetta.*
Hann veit að hann og Davíð sækja atkvæði á svipaðar slóðir. Flestir kjósendur Framsóknarflokksins munu velja annan hvorn þeirra þá og stór hluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins, nema frjálslyndi Evrópusinnaði armurinn sem er á svipaðri pólitískri línu og Viðreisn stendur fyrir. Davíð mun taka það mikið af atkvæðum frá Ólafi Ragnari að hann getur ekki náð endurkjöri gegn Guðna Th. Jóhannessyni eða Andra Snæ Magnasyni og á hinn bóginn mun Ólafur Ragnar fá svo mikið af atkvæðum sem Davíð hefði annars fengið ef Ólafur Ragnar hefði ekki farið fram.
Ef þeir verða báðir í framboði er nær ómögulegt að sú hugmyndafræði og sú stefna sem þeir eru báðir fulltrúar fyrir verði á Bessastöðum í fjögur ár til viðbótar. Á endanum þá er þetta mikilvægara atriði en hvor þeirra mun sitja á Bessastöðum. Forsetinn sjálfumglaði Ólafur Ragnar mun bakka og setja sjálfan sig í annað sætið af því það er taktískt rétt hjá honum í stöðunni að Davíð verði einn á sviðinu í forsetakosningum sem fulltrúi heimastjórnarmanna. Annars tapa þeir örugglega báðir út af framboði hins.
Framboð þeirra beggja í sömu forsetakosningunum felur með öðrum orðum í sér pólitískt sjálfsmorð fyrir þá báða.
„Að sjálfsögðu hlýt ég að hugsa það hvernig ég bregst við þessum nýju forsendum“
Að hætta á sínum eigin forsendum
Ólafur var auðvitað búinn að gefa það út fyrir helgi að hann væri hugsi yfir sinni stöðu í kjölfar umfjallana í erlendum og innlendum fjölmiðlum um skattaskjólstengsl Dorritar konu hans í Panamagögnunum og öðrum gögnum. Með tilkomu Davíðs getur hann hætt við að bjóða sig fram á öðrum forsendum en vegna þessara upplýsinga og þeirrar umræðu sem þær hafa leitt af sér. „Það verður bara að koma í ljós hvað ég geri. Að sjálfsögðu hlýt ég að hugsa það hvernig ég bregst við þessum nýju forsendum,“ sagði hann í sjónvarpsþættinum Eyjunni í gær aðspurður um áhrifin af framboði Davíðs.
Hann mærði Davíð svo í þættinum sem einn reynslumesta stjórnmálamann Íslands enda hafði Davíð líka mært hann í útvarpsþættinum Sprengisandi fyrr um daginn. Hver maður sem vill sér að þarna er um að ræða tvo vopnabræður. Þeir eru of líkir hugmyndafræðilega til að bjóða sig fram báðir og eins fáránlega og það kann að hljóma þá verður meiri meðvindur með framboði Davíðs sökum þess hve lengi Ólafur Ragnar hefur setið á Bessastöðum og vegna Panamaskjalanna.
Ólafur Ragnar mun bakka fyrir manninum með „skítlega eðlið“, eins og hann sagði sjálfur um Davíð fyrir tæpum 25 árum, en hann mun segjast gera það á sínum forsendum. Skattaskjólsmál Dorritar kemst svo bara rétt í neðanmálsgrein um forsetatíð hans af því hann spilar þannig úr stöðunni.
„Enginn einn einstaklingur á Íslandi ber eins mikla ábyrgð á efnahagshruninu sem varð á Íslandi árið 2008 og Davíð Oddsson“
Mesti skaðvaldur íslenskrar stjórnmálasögu
Líkindin á milli Ólafs Ragnars og Davíðs Oddssonar eru hins vegar þar með upptalin að mestu. Þó Ólafur Ragnar hafi verið umdeildur á forsetastóli og gert ýmsa hluti sem réttilega má gagnrýna hann fyrir, til dæmis eins og að láta auðmenn misnota sig og embættið á árunum fyrir hrun þegar forsetinn varð eins konar PR-maður íslensku útrásarinnar á alþjóðavettvangi, þá er pólitískt orðspor hans lítt flekkað við hlið Davíðs og afleiðingar gjörða hans á valdastóli langt í frá eins víðtækar og neikvæðar.
Enginn einn einstaklingur á Íslandi ber eins mikla ábyrgð á efnahagshruninu sem varð á Íslandi árið 2008 og Davíð Oddsson. Það er ekki Jón Ásgeir Jóhannesson, Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson eða Björgólfur Thor Björgólfsson sem eru efstir í ábyrgðarröðinni heldur Davíð. Án Davíðs hefðu þessi kaupsýslumenn ekki orðið það sem þeir urðu á Íslandi og gert það sem þeir gerðu - til góðs eða ills - af því hann bjó til samfélagslegan farveg fyrir þá.
Davíð er stundum kallaður „arkitekt hrunsins“ og má það til sanns vegar færa þó ekki sé hægt að segja að Davíð beri einhverja lagalega ábyrgð á hruninu. Þeir viðskiptamenn sem hafa verið dæmdir fyrir efnahagsbrot hingað til hafa heldur ekki verið dæmdir fyrir „ábyrgð sína á hruninu“ heldur vegna tiltekinna viðskipta og lögbrota í þeim. Enginn ber „lagalega ábyrgð“ á hruninu af því það er ómögulegt að heimfæra slíka ábyrgð upp á ákvæði í lögum en Davíð Oddsson ber hins vegar mestu „siðferðilegu ábyrgð“ allra á því.
Og þar sem hrunið er sennilega stærsta polítíska, fjárhagslega og orðsporslega tjón sem Ísland hefur orðið fyrir þá er Davíð Oddsson mesti pólitíski skaðvaldur Íslandssögunnar.
„Við verðum að átta okkur á því að slík útbreiðsla hópgeggjunar gerir þjóðir berskjaldaðar.“
Samfélag Davíðs
Samfélagið sem hrundi 2008 var mannfélagið sem Davíð hafði lagt grunninn að og byggt upp með nær óhefta markaðshyggju sem leiðarstef þegar hann var forsætisráðherra á árunum 1991 til 2004. Á þessum tíma einkavæddu hann og Halldór Ásgrímsson - formannsræðið í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum á þessum tíma var nær algjört - ríkisbankana upp í hendurnar á pólitískum vildarvinum flokkanna og hófu bankarnir í kjölfarið gengdarlausar lántökur erlendis.
Þessi útlánasöfnun bankanna, og annnarra fjármálafyrirtækja á Íslandi, leiddi til þess að skuldir íslenska bankakerfisins urðu tólfföld landsframleiðsla og af því að það samræmdist ekki hugmyndum stjórnvalda og ríkisstjórnar Davíðs þá var fjármálaeftirlitið á Íslandi ekki styrkt og bætt samhliða vexti bankakerfisins. Bankakerfið á Íslandi var nær eftirlitslaust og af því það var ekki vilji til að veita því almennilegt og gagnrýnið aðhald þá fór sem fór.
Samhliða þessari þróun þá átti sér stað á Íslandi markaðsvæðing á samfélaginu öllu sem litaði flest önnur svið mannfélagsins, markaðs- og einkavæðingin seytlaði niður frá banka- og fjármálakerfinu og yfir til annarra sviða eins og mennta- og menningarsviðsins.
Í stuttu máli: Samfélagið varð allt gegnsýrt af einka- og markaðsvæðingunni og mennta- og menningarsamfélagið veitti stjórnvöldum og bankakerfinu ekki nægilegt aðhald. Í vissum skilningi má segja að stóru bankarnir og eigendur þeirra hafi orðið að æðsta yfirvaldinu á Íslandi á árunum fyrir hrunið 2008, ríkisstjórnin og opinberar stofnanir máttu síns lítils gegn þessum aðilum og þeir fengu að leika lausum hala án eftirlits. Það var meðvituð ákvörðun Davíðs Oddssonar og ríkisstjórnar hans að búa þetta samfélag til og meirihluti Íslendinga kaus hann og Framsóknarflokkinn í þrjú kjörtímabil þar sem þessar breytingar á samfélaginu voru gerðar.
Hagfræðingurinn Willem Buiter er sennilega sá sem náð hvað best utan um þetta ástand sem ríkti í samfélaginu á Íslandi á þessum árum. „En hér létu líka nær allir skynsemina lönd og leið og slíka múgheimsku hef ég hvergi séð í þróuðum löndum.Mér finnst alltaf jafnótrúlegt að þjóð með 300.000 íbúðum hafi talið sig standa undir þremur alþjóðlegum bönkum þar sem hlutfall eigna bankanna á móti landsframleiðslu var 1000%, það er með ólíkindum. Við verðum að átta okkur á því að slík útbreiðsla hópgeggjunar gerir þjóðir berskjaldaðar,“ sagði hann eitt sinn í fyrirlestri.
Þetta samfélag sem Buiter lýsti er samfélagið sem Davíð bjó til, auðvitað með vitund og vilja íslensku þjóðarinnar sem kaus hann og flokk hans trekk í trekk.
„Ábyrgð Davíðs á hruninu er því að minnsta kosti tvíþætt.“
Samfélagstilraun sem endaði illa
Enginn vissi auðvitað að þessar breytingar á samfélaginu myndu leiða til efnahagshruns. Davíð vissi það ekki. Auðvitað ætlaði Davíð að gera vel; hann ætlaði að búa til samfélag sem að hans mati var „gott samfélag“ og meirihluti kjósenda var sammála honum.
En samfélagstilraun Davíðs endaði alls ekki eins og hann hafði ætlað sér því bankarnir átu börnin sín, kjósendurna sem höfðu veitt Davíð umboð til að einkavæða bankakerfið og markaðsvæða samfélagið. Allt hrundi - allt bankakerfið eins og það lagði sig. Samfélagið hrundi.
Ábyrgð Davíðs á þessari stöðu leiddi svo meðal annars til þess að tímaritið Time valdi hann sem einn af þeim 25 einstaklingum í öllum heiminum sem mesta ábyrgð báru á efnahagskreppunni árið 2008.
Og hér nefni ég bara í framhjáhlaupi starf Davíðs sem seðlabankastjóra. Í stóra samhenginu þá skiptir það starf hans litlu máli miðað við umfang ábyrgðar hans sem stjórnmálamanns. Davíð var búinn að leggja grunn að samfélaginu sem hrundi um haustið 2008 þegar hann settist í stól seðlabankastjóra. En seðlabankastjórinn Davíð var auðvitað einn af þeim tólf einstaklingum sem Rannsóknarefnd Alþingis taldi að hefði gerst sekur um mistök eða vanrækslu í starfi. Ábyrgð seðlabankastjórans Davíðs Oddssonar bætist við ábyrgð stjórnmálamannsins Davíð Oddssonar. Ábyrgð Davíðs á hruninu er því að minnsta kosti tvíþætt.
Póltískari forseti en Ólafur Ragnar?
Nú vill Davíð verða forseti Íslands og stýra því áfram í öðru valdahlutverki hvernig ísland á að vera og verða til framtíðar. Eðli forsetaembættisins mun gera honum kleift að túlka stjórnarskrána eins og hann vill og skilgreina hlutverk forsetans eftir eigi höfði.
Allir sem vita eitthvað um Davíð Oddsson vita að hann mun túlka hlutverk forsetans sér í hag og taka sér allt það vald sem hann getur og nota það eftir eigin höfði. Ef þú selur Davíð Odddssyni sjálfdæmi um hvernig hann megi skilgreina eigin völd þá gerir hann ítrustu kröfu sem tryggja honum sem mest völd. Hann mun örugglega verða umtalsvert pólitískari forseti en Ólafur Ragnar og mun kannski beita neitunarvaldi forsetans enn oftar og á öðrum forsendum en Ólafur Ragnar gerði.
Fordæmið er fyrir hendi: Ólafur Ragnar endurskilgreindi hlutverk forsetans eftir eigin höfði enda heimilaði stjórnarskráin honum það. Forsetaembættið getur verið valdamesta pólitíska embætti landsins, allt eftir því hver situr Bessastaði hverju sinni. Þess vegna er forsetaembættið í höndum Davíðs Oddssonar vægast sagt hættulegt af því hann kann ekki að fara með völd og misbeitir þeim alltaf, eins og til dæmis þegar hann lagði niður Þjóðhagsstofnun um árið. Davíð Oddsson styður alltaf meiri völd fyrir sig og sína og minni valddreifingu.
„Dýr verður Davíð allur“
Hver verða áhrif Davíðs til framtíðar ef hann nær kjöri?
Stundum hefur verið sagt um áhrif Davíðs Oddssonar á Ísland og Íslandssöguna á liðnum árum: Dýr verður Davíð allur. Sú staðhæfing hefur vísað að vissu leyti til fortíðar þar sem Davíð var ekki lengur í opinberu starfi og því ekki í aðstöðu til að valda þjóðinni beinum skaða sem kjörinn fulltrúi almennings eða sem seðlabankastjóri þó hann hafi verið ritstjóri Morgunblaðsins.
Nú þarf hins vegar að umorða staðhæfinguna og setja hana fram sem spurningu í ljósi þess að Davíð gæti aftur orðinn kjörinn fulltrúi almennings í hlutverki sem í reynd getur veitt honum meiri völd persónulega en forsætisráðherrastarfið sem hann gegndi einu sinni og gerði honum kleift að móta samfélagið í þá mynd sem það hrundi í árið 2008.
Ekki tala um Davíð Oddsson í þátíð sem fyrrverandi stjórnmála- og embættismann: Davíð er núna í nútíð; Davíð tilheyrir nútíðinni. Hann á mikla möguleika, sennilega álíka mikla möguleika og Ólafur Ragnar átti áður en Davíð ákvað að bjóða sig fram, á að verða næsti forseti Íslands. Davíð Oddsson tilheyrir ekki lengur fortíð íslenskrar stjórnmálasögu heldur mögulegri framtíð hennar.
Spurningin er: Hversu dýr verður Davíð allur? Og þá er ekki bara átt við beint fjárhagslegt tjón heldur siðferðilegt tjón, lýðræðislegt tjón, stjórnmálalegt tjón, orðsporslegt tjón; tjón af því að hafa þennan valdasjúka fulltrúa sérhagsmunafla í mögulega valdamesta, pólitíska embætti landsins í fjögur ár eða jafnvel lengur. Davíð hefur nú þegar valdið Íslandi djúpum og langvinnum pólitískum skaða.
En ef íslenska þjóðin vill fá hann í þetta valdamikla embætti þá fær hún auðvitað vilja sínum framgengt og þá á þjóðin Davíð forseta skilinn. Á endanum ræður þjóðin því auðvitað hvern hún kýs yfir sig.
*Tilkynning um að Ólafur Ragnar muni ekki gefa kost á sér í forsetakosningunum hefur verið birt á heimasíðu forsetaembættisins.
Athugasemdir