Nýverið undirrituðu 21 samtök ferðaþjónustufyrirtækja ásamt útvistar- og ferðafélögum yfirlýsingu um þjóðgarð á miðhálendinu. Í kjölfar þess hafa nokkur þúsund manns undirritað yfirlýsinguna auk þess að fleiri samtök hafa lýst yfir stuðningi við málið. Þarna eru á ferð um þrír til fjórir tugir þúsunda Íslendinga, en taka verður tillit til þess að sumir einstaklingar eru í fleiri en einu félagi. Í könnunum hefur komið fram að yfir 80% erlendra ferðamanna nefna íslenska náttúru sem helstu ástæðu ferðar sinnar hingað. Í könnun sem gerð var árið 2015 kom fram að 60% landsmanna styðja það að miðhálendið verði gert að þjóðgarði, einungis 13% eru á móti. Þetta endurspeglar þá staðreynd að á tiltölulega stuttum tíma hafa mál þróast þannig að ferðaþjónustan er orðin langstærsta atvinnugreinin hér á landi. Hún hefur skapað margfalt fleiri atvinnutækifæri en útgerðin og stóriðjan samanlagt og stefnir í að skila á þessu ári um 500 milljörðum króna í þjóðarbúið í verðmætum erlendum gjaldeyri.
Sé litið til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað í nærumhverfi Vatnajökulsþjóðgarðs eftir stofnun hans þá blasir við að tilvist hans hefur skipt sköpum hvað varðar uppbyggingu atvinnulífs. Stofnuð hafa verið fjölmörg ný fyrirtæki sem sinna ferðþjónustunni. Störf sem áður voru tilfallandi sumarstörf hafa margfaldast og eru nú orðin að heilsársstörfum. Heilsársstarfsemi skiptir sköpum þegar leitað er eftir starfsfólki ásamt því að hafa mikil áhrif á allt samfélagið. Sem dæmi má nefna að það var á sínum tíma farið í að loka barnaskólum í nokkrum sveitarfélögum eða það var í undirbúningi. Nú er búið að opna þá aftur. Þjóðgarðurinn varð þannig aldrei sú ógn sem margir héldu fram í upphafi. Hann varð hins vegar að gullnu tækifæri til þess að byggja upp atvinnu og mannlíf í skjóli náttúruverndar, útivistar og byggðaþróunar. Í því sambandi má til dæmis benda á þau áhrif sem garðurinn hefur haft nú þegar á Öræfasveit, ef ekki væri fyrir garðinn þá væru þetta nánast bara öræfi í orðsins fyllstu merkingu. Þar er í dag hins vegar ákaflega blómlegt atvinnulíf. Ferðaþjónustufyrirtækin eru smá en mörg og virðisaukinn verður eftir í héraðinu ólíkt stóriðjunni.
Í stað minnkunar útblásturs er boðuð atvinnustefna með gríðarlegri aukningu í stóriðju og enn fleiri virkjunum.
Þegar áhrif ferðaþjónustunnar og þjóðgarðsins eru skoðuð er hægt að hafa í huga samlíkinguna við sjávarútveginn. Það væri engin útgerð á Íslandi ef bryggjur hefðu ekki verið byggðar, skipin þurfa bryggjur til að koma auðlindinni í land. Ferðaþjónustan þarf líka sína bryggju og þær endurspeglast í þjóðgörðum landsins. Þjóðgarðar og það sem þeim fylgir, eins og aðgengi, merkingar, göngustígar og gestastofur eru bryggjur ferðaþjónustunnar. Þannig er vernd miðhálendisins orðið grundvallaratriði í umræðu um samfélagslega þróun hér á landi. Hún er beintengd loftslagsumræðunni sem kallar á tafarlausa kúvendingu allra þjóða í mörgum málum. Stjórnvöld og stóriðjusinnar komast þannig ekki lengur hjá því að horfa heildstætt á þessi mál. Það vinnulag gengur ekki lengur að lofa stóriðju á einum stað án tillits til aukningar á útblæstri og hvað þurfi af nýjum virkjunum, háspennulínum með tilheyrandi raski í náttúrunni. Það er einkennilegt að lesa ræður talsmanna Íslands á loftslagsráðstefnum og umfjöllun um norðurslóðavernd í samanburði við það sem þeir hinir sömu segja hér heima um uppbyggingu atvinnulífsins. Í stað minnkunar útblásturs er boðuð atvinnustefna með gríðarlegri aukningu í stóriðju og enn fleiri virkjunum. Þar til viðbótar má einnig spyrja: Hvaðan á vinnuafl nýrrar stóriðju að koma? Í fréttum undanfarið hafa verið fjölmörg viðtöl við unga bændur sem í skjóli fjölgunar ferðamanna eru að byggja upp margskonar fyrirtæki. Ferðaþjónustan er í vanda vegna skorts á vinnuafli, sama á við um flugfélögin, hótelin og veitingaþjónustuna, hestaþjónustuna, nýtæknifyrirtækin, heilsugæsluna og byggingariðnaðinn
Undanfarið hafa komið fram ábendingar um þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið hér á landi áratugum saman. Þöggunarhefðin og fjarstýring ráðandi valdastéttar á umræðunni. Aðilum sem bent hafa á göt í rökstuðning stjórnvalda og/eða orkufyrirtækja fyrir aukinni stóriðju hefur með óbeinum hætti verið hótað með atvinnumissi eða verulega skertum tækifærum hvað varðar aðkomu að stórum verkefnum. Þetta endurspeglast vel í varfærni hins svokallaða fræðasamfélags við að meta störf og stefnur ríkjandi stjórnvalda. Ég þekki þetta vel úr fyrri störfum þegar við í verkalýðshreyfingunni höfum tekist á við fyrirtæki sem tóku að sér að reisa Kárahnjúkavirkjun, sama á við Sultartangavirkjun svo maður tali nú ekki um rússneska fyrirtækið sem tók að sér lagningu Búrfellslínu III. Þar stóðum við ráðherra og embættismenn ítrekað af því að kippa úr sambandi gildandi reglugerðir, en mæta síðan í fjölmiðla og bera á okkur trúnaðarmenn launamanna þungar og afbakaðar ásakanir. En þetta hefur verið að breytast eins og svo margt í íslenskri umræðu.
Stjórnvöld ráða ekki lengur hvað fer út í umræðuna, enda eru áhrifaríkustu fjölmiðlarnir í dag ekki lengur prentmiðlar þar sem ráðandi stjórnmálamenn ákveða hvað er á dagskrá í þjóðmálaumræðunni hverju sinni. Í dag eiga þeir erfitt með að sætta sig við að geta ekki tekið einhliða ákvarðanir um að sniðganga niðurstöður rammaáætlunar og krefjast endalausrar endurupptöku mála þar til niðurstaðan verður þeim þóknanleg. Eins og fram hefur komið meðal annars í umræðum á Alþingi og hjá starfsmönnum orkufyrirtækja. Þeim ber að virða niðurstöður og vera hlutlausir hvað varðar staðarval, þannig er unnið í nágrannalöndum okkar. Ástæða er að halda því til haga að í dag gilda allt önnur sjónarmið en voru ráðandi um síðustu aldamót þegar rammaáætlunarverkefninu var hrundið af stað. Þá snérust verkefni rammaáætlunar einungis um virkjanakosti þar sem hver virkjun var metin sem sjálfstæð eining, en ekki var litið til heildstæðra víðerna og stórbrotinna landslagsheilda eins og alls staðar er gert í dag.
Viljayfirlýsingin sem tugir þúsunda Íslendinga standa að baki er fyrsti áfangi í langri vegferð. Í henni birtist vilji stórs hluta þjóðarinnar til þess að nýta hálendi Íslands án þess að eyðileggja heildstæðar landslagsheildir og skila þeim óskemmdum til barna okkar. Sætta sig við þær framkvæmdir sem þegar hafa átt sér stað, en eyða frekar orkunni í að byggja framtíð okkar á því að viðhalda og vernda náttúruna með því að setja upp heilstætt skipulag í sátt við þjóðina og ekki síst nærsveitirnar. Þar skiptir miklu að eðlilegur hluti af þeim 500 milljörðum sem ferðaþjónustan skilar inn í hagkerfið renni eftir ákveðnum farvegi til nærsveitarfélaganna þannig að þau geti verið virkir þátttakendur í að þjónusta og vernda ferðamenn og ekki síður náttúruna.
Athugasemdir