Vinur minn er að leita sér að vinnu. Við fórum aðeins yfir hvað væri hugsanlega í boði og hvað hann gæti hugsað sér. Niðurstaðan hjá honum var að sniðugast væri að sækja um sem kynningafulltrúi Costco. Það væri líklegast léttasta djobb sem hægt væri að hugsa sér. Lítil viðvera. Mæta í einstaka viðtal þar sem engu þyrfti að ljúga – Costco er svo frábært – og geta svo bara slakað á þess á milli. En ég var ekki alveg sannfærður um að hann væri rétti maðurinn í þetta djobb. Fyrir utan að ég held að starfið sé ekki laust. Og auk þess væru það yfirleitt svona fréttamannatýpur sem veldust í störf kynningarstjóra eða fjölmiðlafulltrúa. Sumir þeirra vinna sig svo upp í að verða forstjórar. Þessi vinur minn er engin fréttamannatýpa. Jakkaföt fara honum einstaklega illa og svo er hann með vott af athyglisbresti sem kæmi sér illa í fjölmiðlaviðtölum. Hann mundi leika hlutverkið illa.
Það er nefnilega svo að mjög snemma á okkar lífsleið byrjum við að leika hlutverk. Eftir prinsessustigið hjá stelpum og ofurhetjustigið hjá strákum förum við að gera okkur í hugarlund hver við erum eða viljum vera. Við byrjum á búningnum ca á unglingsárum. Sjálfur keypti ég mér leðurjakka í Vinnufatabúðinni þegar ég var 16 ára. Þetta var svona klassískur mótorhjólaleðurjakki sem ég gekk í árum saman. Ég taldi mig hafa fundið minn búning sem hentaði því hlutverki sem mig langaði að leika. Þetta var nokkuð einfalt. Ég þurfti bara að fara á einn stað til að kaupa alla leikbúningana – og það var Vinnufatabúðin. Leðurjakki og hermannaklossar. Þetta var pönk og ég var pönkari. En svo fór ég aðeins að færa mig yfir í nýbylgju og hætti að mestu að hlusta á pönk. Ég byrjaði í hljómsveit og eftir því sem hún þróaðist fór ég meira að klæða mig í hermannafrakka yfir leðurjakkann. Það var ákveðin yfirlýsing fólgin í því. Ég var að mýkjast úr því að vera ógnandi pönkari í að verða aðeins meira svona gáfaður rokktónlistarmaður. Ég fór líka að ganga með trefil.
Og svo á einhverjum tímapunkti lagði ég leðurjakkanum alfarið og fór að ganga í alveg svakalega venjulegum gallajakka. Reyndar var hann keyptur í Vinnufatabúðinni en samt var hann svo langt frá öllu sem ég hafði nokkurn tímann boðið sjálfum mér upp á. En það var heldur ekki ég sem átti upptökin af því. Ég var nefnilega kominn með kærustu. Það var hún sem gaf mér þennan jakka. Ég lét til leiðast í smástund en fann mig samt aldrei alveg og á endanum fann ég einhvern svona öðruvísi mittisjakka sem gerði dálítið sama trikk og gallajakkinn án þess að vera galla – og án þess að móðga kærustuna. En leðurjakkinn var horfinn og birtist ekki aftur nema einstaka sinnum ef ég var að leika í einhverju gríni.
Við tóku áratugir sem ég gekk að mestu í gömlum jakkafatajökkum, skyrtu – stundum bol ef hlýtt var í veðri – og gallabuxum. Úlpa ef kalt var í veðri. Þetta skeið er enn í gangi – með smá tvisti sem kom upp í hendurnar á mér síðasta haust. Kærastan sem ég minntist á áðan – sem nú er orðin konan mín – ákvað að skella sér í Vinnufatabúðina. Á afmælisdaginn minn gaf hún mér þennan líka fína hermannajakka sem hver pönkari frá áttunda og níunda áratugnum hefði getað sómt sér vel í. Það eina sem hefur gerst í millitíðinni er að þessir jakkar eru orðnir meira eins og þeim var ætlað að vera – ósköp venjulegir hermannajakkar fyrir ósköp venjulega íslenska hermenn – nei afsakið, strokum út ‘her’ – íslenska menn. Pönkararnir hins vegar tóku þessa jakka og krotuðu þá alla út og nældu í þá barmmerki. Það var töff.
En þetta þýðir ekki að ég sé búinn að leggja gömlu kennarajökkunum. Þeir detta inn þegar hlýtt er í veðri en ég er ekki frá því að þessi blanda af hermanni og kennara sé eiginlega nákvæmlega þeir leikbúningar sem láta mér líða sem best.
„Jakkafötin eru leikbúningar þeirra sem eru með frekar staðlaðar hugmyndir um sjálfa sig“
Vinsælasti leikbúningur karlmanna frá örófi alda eru vitanlega jakkafötin. Það er alveg magnað hvað þau tóra þrátt fyrir allar þær stórkostlegu tækniframfarir og menningarbyltingar sem átt hafa sér stað á undanförnum hundrað árum eða svo. Jakkafötin eru leikbúningar þeirra sem eru með frekar staðlaðar hugmyndir um sjálfa sig – verandi karlmenn eru þeir svona helst á því að rétt sé að gegna einhvers konar millistjórnendastarfi og vinna sig svo hægt og rólega upp í forstjórastöðu. Forstjórastaðan tryggir þér inngöngu í sérdeilis eftirsóknarverðan strákaklúbb. Starf forstjóra hjá stóru og stöndugu fyrirtæki er nefnilega staðan sem ansi marga stráka dreymir um. Samkvæmt hefðbundinni starfslýsingu á forstjóri að hafa yfirsýn yfir starfsemi fyrirtækisins. Hann ræður öllu, en má samt ekki gera of mikið, því þá er hætta á að hann glati yfirsýninni.
Og til að forstjóri glati ekki yfirsýninni þarf hann að halda sig aðeins utan við þetta daglega puð sem undirmenn hans sitja sveittir yfir. Því gefast ansi mörg tækifæri fyrir forstjórann að skreppa í golf eða dvelja erlendis vikum og mánuðum saman á allslags ráðstefnum sem hannaðar eru fyrir hann og aðra forstjóra í svipaðri stöðu.
Og forstjóraklúbburinn er ekkert svo gríðarlega stór hér á landi. Því verða til þeir sem ég kýs að kalla „farandforstjórar“. Þeir ferðast á milli stórfyrirtækja. Ef ný stjórn tekur við í stórfyrirtækinu sem ákveður að fara í endurskipulagningu og reka forstjórann þá á hann alltaf jakkafatasafnið sitt í fataskápnum og fer bara með það á slánni yfir í næsta fyrirtæki, þar sem hann heldur áfram að leika forstjóra.
Þegar þú ákveður að klæðast jakkafötum ertu að segja að þú meinir bissness. Þú ert að leika staðfastan mann sem hægt er að treysta á. Þetta er spurning um að skuldbinda sig til æviloka. Eiga alltaf nóg til skiptanna af vel pressuðum skyrtum og vera helst aldrei í sömu jakkafötunum dag eftir dag. Þetta kostar peninga. Jakkaföt eru líka sérlega óþægileg og sá sem velur þetta hlutverk sýnir að hann er tilbúinn að leggja óþægindin á sig fyrir vel launað og stabílt starf.
Við hinir sem kjósum þægilegri klæðnað verðum hins vegar að treysta á eitthvað aðeins annað en traustvekjandi útlit. Menntun getur komið að góðum notum. Til eru týpur sem leika menntamenn frá því þeir eru í grunnskóla til æviloka. Þeir hafa það samt sjaldnast eins gott og jakkafatamennirnir.
Sumir kjósa að ganga í íþróttafötum alla daga. Þeir eru annaðhvort mjög heilbrigðir eða sérstaklega óheilbrigðir.
Og svo eru það leiktjöldin. Stór festivöl eru haldin einungis fyrir þá sem kunna að meta þungarokk og klæða sig samkvæmt því. Þetta eru gjarnan dagfarsprúðir iðnaðarmenn eða tölvuséní sem vilja hittast og fá útrás. Jakkafata- og dragtarfólkið skemmtir sér á ráðstefnum. Heilu bæjarfélögin verða til í kringum hlutverkin sem menn velja sér. Garðabær er gott dæmi um leikmynd jakkafamannsins. 101 Reykjavík og 107 Vesturbær er leikmyndin fyrir listaspíruna og menntamanninn. Þeir sem búa í miðbænum og kvarta hvað hæst yfir túristum finnst eins og þeir séu að eyðileggja leikmyndina sína. Sem þeir eru jú á vissan hátt að gera. Dálítið eins og áhorfendur sem fara upp á svið og tala við leikarana.
Ert þú kominn með hlutverk, lesandi góður? Hvern leikur þú?
Athugasemdir