Stórmerkilegar eru þær fréttir að tveir menn hafi nú verið handteknir og yfirheyrðir í tengslum við hvarf Guðmundar Einarssonar í janúar 1974. Hvarf Guðmundar og Geirfinns Einarssonar síðar á árinu urðu fáeinum misserum síðar að ótrúlegasta sakamáli Íslandssögunnar, og er óþarfi að fjölyrða um það hér.
Mig langaði hins vegar að rifja upp einn þátt málsins, sem sýnir fáránleika þess mjög vel. Haustið 2002 kom út þriðja bindi ritverksins Íslands í aldanna rás, saga Íslands á 20. öld, sem ég var aðalhöfundur að, og þar skrifaði ég heilmikið um Geirfinns- og Guðmundarmál. Einn kafli bókarinnar fjallar einmitt um meintan flutning á líki Guðmundar Einarssonar, sem ku hafa verið þungamiðjan í yfirheyrslunum yfir tvímenningunum nú.
Því hef ég skrifað hér upp þann kafla bókarinnar, og endurritað að þó nokkru leyti, og þótt þetta sé afar langt á mælikvarða internetsins, þá hvet ég fólk eindregið til að lesa þetta.
Þótt auðvitað sé hér um nokkuð einfaldaða frásögn á mjög flóknu máli að ræða, þá sýnir þetta hvernig málið var vaxið.
Guðmundur Einarsson var 19 ára piltur í Reykjavík sem fór á ball í Hafnarfirði í janúar 1974. Hann hvarf og nokkrum árum seinna voru Sævar Ciesielski, Kristján Viðar Viðarsson og Tryggvi Rúnar Leifsson dæmdir fyrir að hafa drepið hann, og Erla Bolladóttir og Albert Klahn Skaftason dæmd fyrir að vera samsek og hafa hylmt yfir morðið.
Einn sakborninganna, Kristján Viðar, var sagður hafa hitt Guðmund af tilviljun fyrir utan dansstað þann í Hafnarfirði þar sem Guðmundur hafði verið að skemmta sér. Þeir hefðu svo reikað nokkuð um götur og vissulega fundust vitni sem báru að þau hefðu séð Guðmund í slagtogi við annan mann. Þar var fyrst og fremst um að ræða tvær stúlkur sem könnuðust við Guðmund og héldu því fram við lögreglurannsóknina að maðurinn, sem var með Guðmundi, hefði vel getað verið Kristján Viðar, sem þeim var sýnd mynd af.
Hér var reyndar strax maðkur í mysunni. Þegar Sævar Ciesielski lagði fram endurupptökubeiðni sína 1997 tefldi lögmaður hans Ragnar Aðalsteinsson meðal annars fram nýjum vitnisburði stúlknanna tveggja. Þær sögðu að lögreglumenn sem yfirheyrðu þær hefðu ekki greint þeim frá því að Kristján Viðar hafi að líkamsvexti verið áberandi hærri en Guðmundur. Þetta var mikilvægt því þær voru með það alveg á hreinu að pilturinn, sem þær sáu með Guðmundi, hafi verið minni en hann.
Þar með var strax útilokað að það hafi getað verið Kristján Viðar sem var á ferð með Guðmundi nóttina eftir ballið í Hafnarfirði. Annaðhvort fattaði lögreglan þetta ekki á sínum tíma – sem væri vissulega ótrúlegt – eða henni var sama, af því fyrir henni vakti fyrst og fremst að koma sök á Kristján Viðar, því þá hafi verið orðið svo aðkallandi að leysa málið – bara einhvern veginn!
Og mega menn hafa þau orð um það sem þeir kjósa sjálfir.
Alvarlegast við þennan anga málsins er hins vegar að Hæstiréttur úrskurðaði 1997 að þessi nýi vitnisburður stúlknanna skipti engu máli.
Annars vegar væri hann of seint fram kominn! – sem virkar mjög einkennilegt í máli sem snýst einmitt um endurupptöku á gömlu máli – og hins vegar væri ekki líklegt að þessar upplýsingar hefðu breytt niðurstöðu þeirra dómara sem á sínum tíma dæmdu Kristján Viðar og félaga seka um morð á Guðmundi.
Það er kannski rétt, því svo einbeittir virðast þeir dómarar hafa verið í að líta framhjá öllu sem benti til sakleysis sakborninganna. En eigi að síður verður að telja það einskæra ragmennsku hjá dómurum Hæstaréttar 1997 að hafa að engu þetta mikilvæga atriði.
En látum það duga í bili.
Saga lögreglunnar var sem sé sú að Guðmundur og Kristján Viðar hefðu að lokum mætt að húsi við Hamarsbraut þar sem kunningjakona Kristjáns, Erla Bolladóttir, hafði þá aðsetur. Þangað hefðu svo mætt Sævar Ciesielski, sem stundum og stundum ekki var kærasti Erlu, og félagi þeirra Tryggvi Rúnar Leifsson.
Á Hamarsbrautinni hafi piltarnir reynt að láta sér detta í hug leiðir til að útvega áfengi, en síðan hafi komið til deilna og síðan átaka millum þeirra sem enduðu með því að Sævar, Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar gengu af Guðmundi dauðum.
Annað eins hafði komið fyrir í næturlífi Íslendinga bæði fyrr og síðar, svo í sjálfu sér var þetta ekki ósannfærandi atburðarás. En þegar málið er skoðað kemur hins vegar á daginn að mjög margt orkaði tvímælis varðandi flestar eða réttara sagt allar hliðar málsins.,
Það skal tekið fram að eftirfarandi texti er svo til eingöngu unninn upp úr dómsniðurstöðum Héraðsdóms og síðar Hæstaréttar, en lítt farið í önnur málsskjöl en þar eru birt. Þetta er semsé sá texti sem Hæstaréttardómarar voru að vinna með þegar þeir dæmdu í málunum. Önnur málsskjöl styrkja þó eingöngu þær efasemdir sem hafa verður um hina opinberu niðurstöðu.
Síðar meir héldu Sævar, Tryggvi og Kristján því fram að þeir hefðu alls ekki verið í húsinu við Hamarsbraut þessa umræddu nótt. Og um hugsanlega nærveru þeirra er í raun allt á huldu. Nágrannar Erlu í húsinu höfðu ekki orðið var við neinn gestagang og hvað þá átök, og alls engin ummerki um morð fundust í íbúðinni sem hún bjó í.
Þeir þremenningar játuðu þó allir á sínum tíma að svona hefðu atburðir verið, en drógu þær játningar síðar til baka. Sögðu þeir þá að játningarnar hefðu verið framkallaðar með þrýstingi lögreglumanna. Þeir kváðust í raun aðeins hafa sagt það sem lögreglumennirnir virtust vilja heyra. Og þeim hafi hvað eftir annað verið lögð orð í munn.
Dómstólar tóku ekki mark á afturköllun játninganna. Þar voru hinar upprunalegu játningar því lagðar til grundvallar.
Dómurunum til einhverrar afsökunar má segja að í þá daga – laust fyrir 1980 – var alls ekki búið að sýna fram með sálfræðirannsóknum (þar sem Gísli Guðjónsson sálfræðingur og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður er brautryðjandi) hve auðvelt er í rauninni að fá fram falskar játningar sakborninga við yfirheyrslur.
En það er samt mjög alvarlegur áfellisdómur yfir dómurunum að þeir skyldu líta framhjá þeim ótrúlegum mótsögnum og jafnvel hreinu rugli sem fólst í lögreglurannsókninni.
Og enn meiri áfellisdómur yfir dómurunum sem höfnuðu endurupptökubeiðnum Sævars Ciesielski tuttugu árum síðar.
Og hér verður sem sé aðeins varpað ljósi á einn örlítinn anga málsins. Það verður gert býsna nákvæmlega og í löngu máli, einmitt til þess að sýna fram á hve fáránlegur þessi málatilbúnaður var.
Þessi angi málsins snýst um hvað varð um lík Guðmundar Einarssonar.
Eftir að Guðmundur hafði verið drepinn í húsinu við Hamarsbraut – samkvæmt hinum upphaflegu játningum, sem síðar voru dregnar til baka – þá þurfti sem sé að losna við líkið.
En hvernig átti að fara að því? Enginn fjórmenninganna, sem áttu að vera stödd í húsinu (án þess að nágrannar yrðu varir við!) átti bíl. Ekki var vænlegt að bera líkið burt. Þeir félagar ákváðu því – samkvæmt þessari sögu – að hringja í sameiginlegan kunningja sinn, Albert Klahn. Hann hafði um þetta leyti umráðarétt yfir bíl föður síns.
Og samkvæmt sögunni var nú hringt í Albert, hann mætti á staðinn um miðja nótt, féllst á að hjálpa til og í bíl hans var líkið svo flutt út í Hafnarfjarðarhraun og falið þar.
Þannig var hin opinbera og upphaflega útgáfa sögunnar. Ekki er ljóst hvernig það gerðist að Albert dúkkaði upp í yfirheyrslum lögreglunnar yfir sakborningunum, en hann var að minnsta kosti handtekinn og yfirheyrður.
Albert kannaðist í fyrstu ekkert við að hafa keyrt lík út í Hafnarfjarðarhraun þessa umræðu nótt. Lögreglumenn lögðu hins vegar fast að honum og smátt og smátt fór minni Alberts að kvikna. Á einum stað segir í skýrslum um yfirheyrslur yfir Albert:
„Hann segist í rauninni ekkert hafa munað um þessa hluti, er handtakan fór fram, en minnið hafi komið síðar.“
Þetta er auðvitað mergurinn málsins. Þessi setning er þungamiðja þess sem Gísli Guðjónsson og fleiri hafa sýnt fram á, því hún lýsir þeirri þróun sem getur leitt til þess að menn játi að ósekju á sig nánast hvaða glæpi sem er og fari jafnvel að trúa því sjálfir að játningar þeirra séu sannar.
Eftir að minni Alberts fór að skána (!) var samin skýrsla um fyrstu yfirheyrslur yfir honum. Þar staðfesti Albert skýrt og greinilega allt sem hinir sakborningarnir höfðu sagt um meintan þátt hans að málinu.
Hann kvaðst hafa komið á bíl föður síns að húsinu við Hamarsbraut þá nótt þegar Guðmundur Einarsson hvarf en mundi reyndar ekki nákvæmlega hvernig á ferðum hans stóð. Ýmist sagðist hann hafa verið að rúnta með þá félaga Kristján Viðar, Tryggva Rúnar og Sævar þá um kvöldið og nóttina, eða þeir hefðu hringt í hann frá Hamarsbrautinni og beðið hann að koma.
Ekki var í þessari skýrslu reynt að skýra hvernig á því gæti staðið að Albert hefði verið í bíltúr með Sævari og félögum þessa nótt. Staðreyndin var sú að þótt þeir Sævar ættu að heita kunningjar var Albert í rauninni illa við Sævar og sóttist ekki eftir félagsskap við hann.
En ég vík reyndar nánar að þessu atriði síðar í langhundi þessum.
En hvað um það, þarna var – samkvæmt sögunni – Albert alla vega kominn um nóttina að húsinu við Hamarsbraut á bíl föður síns, gulri Toyotu.
Síðan er haft eftir Albert í skýrslunni:
„Ekki veit ég gjörla hvernig stóð á komu minni að húsinu heima hjá Sævari …“
Hér má strax skjóta því inn í að þessi fáu orð og raunar allt orðalagið á skýrslunni sýna svo ekki verður um villst að skýrslur lögreglunnar geta vart talist fullgildur vitnisburður um hvað Albert sagði í raun og veru – með sínum eigin orðum. Albert var vissulega ágætlega máli farinn en útilokað er þó með öllu að venjulegur piltur um tvítugt hafi tekið svona til orða jafnvel fyrir 40 árum:
„Ekki veit ég gjörla …“ og svo framvegis.
Þetta kann að virðast smáatriði, en sýnir þó svo ekki verður um villst að það voru rannsóknarlögreglumennirnir, en ekki sakborningar eða vitni, sem réðu ferðinni við yfirheyrslurnar.
Lögreglumennirnir ákváðu því, meðvitað eða ómeðvitað, hvaða orðalag og blæbrigði enduðu í skýrslum – sem síðan höfðu mjög mikil áhrif við áframhaldandi rannsókn og réttarhöld.
Sama athugasemd á við um yfirheyrslur og skýrslur varðandi aðra sakborninga.
En Albert vissi sem sagt „ekki gjörla“ hvernig stóð á komu hans „að húsinu heima hjá Sævari“.
Hér má skjóta því að Sævar átti reyndar alls ekki heima í húsinu við Hamarsbraut og það átti Albert að vera fullkunnugt um. Hins vegar kemur oft fram í skýrslum frá þessum tíma að það voru rannsóknarlögreglumennirnir sem virðast í fyrstu hafa talið að Sævar byggi við Hamarsbrautina. Í raun bjó Erla þar ein þótt Sævar væri að vísu nokkuð tíður gestur hjá henni.
En í skýrslunni er síðan haft eftir Albert:
„Ég man að ég sat í bifreiðinni á bifreiðastæðinu Suðurgötumegin við hús það sem Sævar bjó í. Næst man ég fyrir víst að Sævar kom frá húsinu að bifreiðinni og bað mig að opna farangursgeymsluna sem ég gerði. Ég settist svo inn í bifreiðina aftur, en Sævar fór aftur inn í húsið. Eftir nokkra bið komu þeir allir þrír, Sævar, Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar, að bifreiðinni.
Bifreiðin sneri þannig að afturendi hennar vísaði að húsinu, eða öllu heldur að sundi milli hússins og næsta húss. Þar er, eða var, slæm götulýsing og fylgdist ég aðeins með ferðum þeirra í baksýnisspegli bifreiðarinnar, þeim sem staðsettur er á vinstri hlið hennar. ég sá að þeir voru allir þrír með, að ég held, fleiri en einn poka, eða eitthvað sem líktist poka. Eins getur verið að þetta hafi aðeins verið einn poki, eða eitthvað pokalaga sem þeir hafi hver um sig haldið undir á mismunandi stöðum. Ekki sá ég neitt hvað var í þessum poka eða pokum.
Byrði sína settu þeir í farangursgeymslu bifreiðarinnar. Meðan þeir voru að því ruggaði bifreiðin svolítið til og smádynkir heyrðust og virtist mér það benda til þess að verið væri að setja eitthvað fremur þungt í farangursgeymsluna.
Þegar þeir höfðu komið byrði sinni þar fyrir þá skelltu þeir aftur farangursgeymslunni. Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar settust svo inn í bifreiðina, í aftursætið. Sævar kom ekki alveg strax inn í bifreiðina, og held ég að hann hafi farið aftur heim að húsinu. Þegar hann kom þá settist hann í framsætið við hlið mér.“
Síðan segir í skýrslunni að Albert hafi keyrt að fyrirmælum Sævars út í Hafnarfjarðarhraun. Þá stendur orðrétt:
„Að lokum stöðvaði ég bifreiðina ofan í nokkurs konar dæld sem mér virtist gerð af mannahöndum. Þar var svo slétt að ég gat snúið bifreiðinni við. Í þessari dæld held ég að við höfum verið í sjónmáli við Keflavíkurveginn.
Allan tímann hafði ég ekið að fyrirsögn Sævars og hann sagði mér að stöðva þarna. Þegar ég var búinn að snúa bifreiðinni við, þannig að framendi hennar sneri í átt að Keflavíkurveginum, þá fóru þremenningarnir út. Sævar bað mig þá um lyklana að farangursgeymslunni og rétti ég honum lyklana út um gluggann. Hann opnaði svo geymnsluna og lét mig hafa lyklana aftur. Ég fór ekkert út úr bifreiðinni.
Þessir þrír voru svo nokkra stund aftan við bifreiðina og virtust eiga í einhverjum erfiðleikum við að ná einhverju úr farangursgeymslunni, í það minnsta virtist það fyrirhafnarmikið og ekki mjög þægilegt í meðförum. Hvað þetta var, það sá ég ekki enda myrkur úti og engin lýsing eða ljós á bifreiðinni. Þeir lokuðu farangursgeymslunni áður en þeir fóru frá bifreiðinni og sá ég því móta fyrir þeim og byrði þeirra. Þegar þeir gengu frá bifreiðinni þá virtist mér þeir vera með poka meðferðis og bera hann á milli sín á einhvern hátt. Ég held raunar að ég hafi ekki slökkt ljósin á bifreiðinni og hafi ég séð móta fyrir þessu í skini frá afturljósum hennar.
Þeir hurfu svo út í myrkrið. Sirka 15-20 mínútum síðar komu þeir allir aftur og voru þá ekki með neitt meðferðis. Þeir settust inn í bifreiðina og ég ók til baka. Ekki er ég alveg viss um hvert ég ók þeim, en ég held að ég hafi ekið þeim heim til Kristjáns Viðars, þó ég vilji ekki fullyrða það.
Á leiðinni til baka þá barst í tal milli okkar Sævars, en hann sat í framsætinu við hlið mér, hvað í pokanum hefði verið. Sævar sagði þá berum orðum við mig að lík hefði verið í pokanum. Mér fannst það svo fjarstæðukennt að ég tók ekkert mark á þessu og hugsaði ekki frekar um það.
Síðan þetta gerðist hef ég hitt alla þessa þrjá menn oftar en einu sinni en aldrei hefur verið minnst á þessa ferð, svo ég heyrði, eða hvað það hefði verið sem ég flutti í Toyota-bifreið föður míns þessa nótt.“
Þetta var sem sé ein fyrsta skýrslan um yfirheyrslur yfir Albert.
Sumt hljómar vitaskuld mjög skringilega. Til dæmis virðist Albert hafa verið undarlega laus við forvitni úr því hann spyr ekki hvað sé á seyði, heldur situr bara rólegur í bíl sínum, hvað sem á gengur.
Og að honum hafi síðan þótt „fjarstæðukennt“ að þeir hafi verið að flytja lík er … ja, fjarstæðukennt. Hvað annað gátu þremenningarnir verið að flytja með svo laumulegum hætti um miðja nótt?
En ýmislegt annað í framburði Alberts hljómar vissulega sannfærandi og ekki síst að hann lýsir alls konar smáatriðum sem við fyrstu athugun virðist erfitt að trúa að lögreglumenn hafi lagt honum í munn eða minni.
Nefna má hvernig bíllinn ruggar þegar þeir félagar skella líkinu í skottið á Toyotunni, en Albert fylgdist með í baksýnisspeglinum.
Eða hvernig skinið frá afturljósunum lýsir þremenninga upp þegar þeir basla af stað út í hraunið með líkið.
Rétt er að taka fram að eftir að minni Alberts um þessa atburði fór að kvikna, þá var hann afar samvinnufús við lögreglumennina og virðist hafa lagt sig í líma við að segja þeim það sem þeir vildu heyra. Það babb sem síðar kom í bátinn stafaði því alveg örugglega ekki af nokkurs konar vísvitandi tilraunum hans til að afvegaleiða lögregluna.
Enda voru lögreglumennirnir hinir ánægðustu með Albert og honum var tjáð að hann væri aðeins vitni í málinu. Honum var frá byrjun sagt að hann þyrfti ekki að sæta neinni refsingu ef hann aðeins væri duglegur í yfirheyrslum. Og það virðist hafa rekið Albert áfram.
En nú kom sem sagt alvarlegt babb í bátinn.
Allt virtist klappað og klárt þegar lögreglumaður nokkur, sem var að fara yfir ýmsa pappíra í málinu, rak augun í vandræðalega staðreynd.
Faðir Alberts hafði alls ekki átt gula Toyotu í janúar 1974 þegar Albert kvaðst hafa ekið þeim bíl fullum af fólki og með lík í skottinu suður í Hafnarfjarðarhraun. Gulu Toyotuna hafði faðir Alberts ekki eignast fyrr en í febrúar, eða nokkrum vikum seinna. Í janúar hafði hann átt svarta Volkswagen Bjöllu og það var sá bíll sem Albert hafði til umráða á því tímabili sem hér um ræðir.
Og þar með hrundi allur vitnisburður Alberts til grunna.
Því eins og allir bílaáhugamenn vita, þá er sitthvað Volkswagen Bjalla og Toyota Corolla. Ef um hefði verið að ræða annan japanskan bíl hefði misminni Alberts um bílategundina varla skipt sköpum. Japanskir bílar eru hver öðrum líkir og ekki goðgá að rugla tegundunum saman.
En það þurfti ekki mikla íhugun til að átta sig á að hin ítarlega og sannfærandi frásögn Alberts um líkflutningana frá Hamarsbrautinni út í Hafnarfjarðarhraun gat með engu móti staðist ef Albert hafði verið á Volkswagen en ekki Toyotu.
Ekki var nóg með að Volkswagen Bjalla var töluvert minni en Toyota Corolla, heldur eru bílarnir líka allt öðruvísi uppbyggðir. Mestu skiptir að vélin í Bjöllunni er að aftanverðu og farangursgeymslan að framan.
Þar með var öll hin samviskusamlega frásögn Alberts gjörsamlega fallin um sjálfa sig.
Það gat ekki hafa átt sér stað að hann hefði setið undir stýri á Volkswagen Bjöllu og fylgst í baksýnisspeglinum með Sævari, Kristjáni Viðar og Tryggva Rúnari troða líkinu af Guðmundi Einarssyni aftan í bílinn.
Sú hugmynd var í fyrsta lagi fáránleg að þeir hefðu reynt að koma líkinu fyrir ofan á vélinni í bílnum, en í öðru lagi: Þótt þeir hefðu reynt það, þá var bara alls ekkert pláss til þess.
Og raunar er farangursgeymslan framan í Volkswagen Bjöllu líka svo lítil að jafnvel þar hefði verið ómögulegt að koma fyrir líki af manni.
Albert var nú kallaður fyrir að nýju og honum var bent á að framburður hans gæti ekki staðist. Hér yrði að bæta úr skák.
Rétt er að árétta að ekkert bendir til að Albert hafi vísvitandi verið að afvegaleiða lögregluna. Þó ekki væri annað: Úr því að Albert var á annað borð búinn að játa að hafa flutt lík frá Hamarsbraut út í Hafnarfjarðarhraun, af hverju hefði hann átt að fara að ljúga blákalt til um smáatriði eins og bíltegundina eða hvar í bílnum líkinu var komið fyrir?
Því fór líka fjarri að Albert reyndi nokkuð að malda í móinn eða þvælast fyrir tilraunum lögreglumannanna til að koma þessu heim og saman. Þvert á móti var hann allur af vilja gerður að leggja þeim lið við að leysa þetta vandræðalega mál.
Hann lýsti því nú yfir að öll frásögn sín af líkflutningunum hefði verið byggð á hrapallegu misminni og vissulega hefði hann verið á svörtum Volkswagen en ekki gulri Toyotu.
Engin athugun virðist hafa verið gerð á minni Alberts yfirleitt, eins og þó má ætla að fullt tilefni hafi verið til, fyrst hann mundi ekki betur en þetta eftir svo óvenjulegum atburði eins og líkflutningi að næturþeli.
Augljós ályktun er því sú að Albert hafi meðvitað eða ómeðvitað lagað „minni“ sitt að því sem hann skynjaði að lögreglumennirnir vildu – bæði í vanmáttugri og misskilinni tilraun til að losna sem fyrst úr greipum þessa máls, og líka einfaldlega af því hann stóðst ekki þrýsting lögreglumannanna og vildi gera þeim til geðs.
Hin nýja útgáfa um líkflutningana sem Albert og lögreglumennirnir suðu saman gerðist nú æði fjarstæðukennd.
Eftir sem áður stóð óhögguð sú staðhæfing Alberts að hann hefði komið að Hamarsbrautinni nóttina örlagaríku og hann hélt fast við að hann hefði setið kyrr í bílnum þegar Sævar, Tryggvi Rúnar og Kristján Viðar komu út með lík Guðmundar. Hann sagði að vísu hugsanlegt að hann hefði farið út til að opna farangursgeymslu svarta Volkswagnsins þegar þeir félagar reyndu fyrst árangurslaust að koma líkinu þar fyrir.
Bara sú fullyrðing stenst reyndar ekki, því farangursgeymsla í Volkswagen Bjöllu var opnuð innan úr bílnum, úr bílstjórasætinu.
En hvað um það, hann hélt því fram að þremenningarnir hefðu um síðir komist að hinu augljósa: Ekki var pláss fyrir heilt lík í farangursgeymslu á Volkswagen.
Eftir nokkrar vangaveltur Alberts og rannsóknarlögreglumannanna, sem önnuðust yfirheyrslurnar, þá varð niðurstaðan sú að líki Guðmundar hefði verið komið fyrir í aftursæti Volkswagnsins og síðan hefðu þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar troðist þar inn líka og sest sinn til hvorrar handar líki Guðmundar.
Þar hafa þá þröngt mátt sáttir sitja því plássið í aftursæti Volkswagens er svo lítið að þar rúmast varla þrír fullorðnir svo sæmilega fari. Bæði Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar voru reyndar fremur hávaxnir en máttu þó troðast þarna með líkinu, en Sævar – sem samkvæmt sögunni sat í framsætinu – var lágvaxinn. Eigi að síður varð sagan svona.
Albert sagði ennfremur að líkið hafi verið hulið einhvers konar ábreiðu meðan því var ekið út í Hafnarfjarðarhraun og því hefði honum ekki verið ljóst hvað þarna var á ferðinni. Og heldur ekki þegar líkinu var dröslað út úr bílnum í Hafnarfjarðarhrauninu og félagarnir þrír hurfu með það út í myrkrið.
Albert verður því – ef eitthvert mark á að taka á þessari frásögn – ekki aðeins sakaður um furðulega gloppótt minni og algeran skort á forvitni, heldur og um ótrúlega lélega athyglisgáfu.
Með engu móti er hægt að ímynda sér að það hefði getað farið framhjá honum þegar líki var troðið inn í aftursætið og svo baslað út aftur – nánast beint yfir hann sjálfan, því svo lítið var plássið í Bjöllunni – en þetta töldu rannsóknarlögreglumennirnir samt gott og gilt.
Er frá leið fóru efasemdir að vakna hjá lögreglumönnunum um að þetta gæti staðist. Frásögn Alberts um líkflutninginn á Toyotunni hafði þrátt fyrir allt verið svo nákvæm og ítarleg að það var eiginlega ekki með nokkru móti hægt að afgreiða hana til lengdar þannig að hún hefði einfaldlega verið misminni Alberts – með öllum sínum sannfærandi smáatriðum um baksýnisspegilinn, bjarmann frá afturljósunum og svo framvegis.
Því var það að þegar lögreglumennirnir fundu hvergi lík Guðmundar úti í Hafnarfjarðarhrauni, hvernig svo sem leitað var eftir mjög svo misvísandi leiðbeiningum allra sakborninga, þá var gripið aftur til frásagnar Alberts um líkflutninginn á Toyotunni!
Lögreglumennirnir kölluðu nú Albert enn til yfirheyrslu og spurðu hvort verið gæti að hann hefði þrátt fyrir allt staðið í þessum líkflutningum eftir að faðir hans var búinn að losa sig við svarta Volkswagninn og búinn að kaupa gulu Toyotuna.
Hvort það gæti sem sé verið að líkið hefði vissulega verið flutt út í Hafnarbrautarhraun á svörtu Volkswagen Bjöllunni, en frásögn hans um flutningana á Toyotunni hefði hins vegar átt við annað skipti nokkru síðar.
Líkið hefði sem sé verið flutt tvisvar.
Og jú, svei mér þá, Albert rámaði nú skynilega í að einmitt þetta hefði verið raunin!
Það gekk ekki þrautalaust að koma þessu heim og saman. Nú var búið að kalla til aðstoðar lögreglunni þýska lögreglumanninn Karl Schutz og hann stóð lengi á því fastar en fótunum að báðar lýsingar Alberts á líkflutningunum frá Hamarsbraut væru sannar, en um það bil mánuður hefði liðið á milli þeirra.
Karl Schutz, hinn rómaði lögreglumaður, trúði því sem sagt að um það bil mánuði eftir morðið á Guðmundi og flutning Alberts á líki hans út í Hafnarfjarðarhraun á svörtu Bjöllunni, þá hefðu Sævar, Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar farið á einhverjum óþekktum bíl út í Hafnarfjarðarhraun, náð í lík Guðmundar, flutt það á Hamarsbrautina af öllum stöðum, og síðan hringt aftur í Albert sem hefði nú komið á gulu Toyotunni og flutt líkið aftur út í Hafnarfjarðarhraun!!
Þið fyrirgefið þó ég segi það, en að einhver svokallaður heilvita maður skuli hafa trúað þessu rugli, það bendir til þess að viðkomandi hafi að minnsta kosti alls ekki verið starfi sínu vaxinn sem lögreglumaður.
En reyndar var Albert brátt alveg til í að muna að einmitt svona hafi þetta verið.
Um síðir kom samt í ljós að þetta gekk ekki.
Ekki var nóg með að í febrúar hafi Erla Bolladóttir verið flutt af Hamarsbrautinni, heldur hafði Sævar þá setið inni fyrir minni háttar fíkniefnabrot.
Því gat allt hið einkennilega ferðalag með lík Guðmundar í febrúar frá Hafnarfjarðarhrauni að Hamarsbraut á ókunna bílnum og síðan aftur út í hraunið á Toyotu Alberts, það gat bara ekki hafa átt sér stað.
Nú var enn kallað á Albert og lagt að honum að muna betur.
Og já, nú rifjaðist upp fyrir Albert að ferðalagið á Toyotunni út í Hafnarfjarðarhraun með lík Guðmundar, hefði vissulega átt sér, en þó með þeirri mikilvægu breytingu að þeir hefðu nú verið að SÆKJA líkið, en ekki flytja það þangað. Áður hefði hann hins vegar flutt það út í hraunið á svörtu Bjöllunni.
Svo hefði líkið verið flutt á einhvern ennþá óþekktan stað. Og þessir flutningar hefðu átt sér stað eftir að Sævar losnaði úr sinni skammvinnu fangavist í febrúar.
Þessi nýja vending þýddi að minningar Alberts um að hafa setið í Toyotunni meðan þremenningarnir báru líkið út úr húsi og settu í skottið á bílnum, þær gátu ekki staðist. En við það varð ekki ráðið.
Skýring Karls Schutz og annarra rannsóknarlögreglumanna á þessum minningum Alberts var einfaldlega sú að Albert hefði ruglað saman líkbíltúrum, svo minnistæpur sem hann virtist óneitanlega vera.
En hvert hafði lík Guðmundar þá verið flutt þegar Sævar, Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar sóttu það út í Hafnarfjarðarhraun í fylgd Alberts á hinum nýja gula bíl föður síns?
Því var nú verr, að það gat Albert alls ekki munað, hvernig sem hann reyndi.
Hann rámaði helst í að þeir hefðu ekið með það út í einhvern kirkjugarð og síðan leiddi Albert rannsóknarlögreglumennina í halarófu á eftir sér um alla kirkjugarða á suðurvesturhorni landsins meðan hann reyndi að muna hvar þeir hefðu holað niður líkinu.
Rétt er að taka fram að þótt Albert hafi verið óvenju meðfærilegur við yfirheyrslur hjá lögreglunni, og sé þess vegna tekinn hér til dæmis um furður málsins, þá mátti í rauninni segja mjög svipaða sögu um hina sakborningana. Þótt Sævar og félagar hafi fljótlega byrjað að reyna að draga hinar upphaflegu játningar sínar til baka, þá létu þeir oft undan þrýstingi, féllust aftur á málatilbúnað lögreglumannanna og tóku lengi þátt í tilraunum þeirra til að koma einhverri glóru í frásögnina.
Sömuleiðis er rétt að taka fram að um leið og Albert skipti um frásögn, þá breyttust minningar hinna sakborninganna yfirleitt um leið.
Meðan Albert lýsti því hvernig kunningjar hans hefðu borið lík út af Hamarsbrautinni og komið því fyrir í gulu Toyotunni, þá mundu þremenningarnir Sævar, Kristján og Tryggvi einmitt eftir því að Albert hefði komið á gulri Toyotu og þeir sett lík Guðmundar í skottið.
Þegar svarti Volkswageninn kom til sögunnar, þá rifjaðist líka um leið upp fyrir þeim að – já, Albert hafði reyndar verið á svartri Bjöllu og Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar höfðu setið með líkið á milli sín í aftursætinu á leið út í Hafnarfjarðarhraun.
Kváðust þeir einfaldlega ekki hafa munað eftir því smáatriði fyrr.
Meðan Karl Schutz trúði því svo að þremenningarnir hefðu flutt líkið úr hrauninu og aftur á Hamarsbrautina á öðrum bíl, en svo enn út í hraunið á Toyotunni, þá mundu þeir líka einmitt eftir því!
Og þegar rifjaðist svo á endanum upp fyrir Albert að þeir hefðu flutt líkið í einhvern kirkjugarð, þá laust þeirri minningu umsvifalaust niður í þremenningana líka.
Og Sævar Ciesielski fór, rétt eins og Albert, margar ferðir um kirkjugarðana á suðvesturlandi í fylgd Schutz og íslenskra lögreglumanna í von að hann rámaði allt í einu í hvar þeir hefðu falið lík Guðmundar.
Eftirtektarvert er ennfremur að ekki er öll sagan sögð af líkflutningum Alberts. Á einu stigi rannsóknarinnar gaf hann nefnilega skýrslu um að hann hefði farið á gulu Toyotunni að Hamarsbrautinni í Hafnarfirði í september 1974 – heilum níu mánuðum eftir hvarf Guðmundar – og sótt þangað dularfullt lík sem þeir höfðu þá aflað sér, Sævar, Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar.
Frásögn Alberts af þessu var nánast samhljóða upphaflegri skýrslu hans um flutninginn á líki Guðmundar í janúar.
Þessi óvænta frásögn á að líkindum rót að rekja til þess að á tímabili virðist rannsóknarlögreglan hafa einsett sér að afgreiða nú hvert einasta óupplýst sakamál og sér í lagi mannshvörf á Íslandi með því að Sævar og félagar hefðu verið þar að verki.
Í september 1974 hafði færeyskur maður horfið sporlaust í Reykjavík. Langsennilegast var talið að hann hefði einfaldlega dottið í sjóinn við höfnina og drukknað og á sínum tíma var málið afgreitt sem slíkt. Nú þegar Sævar og félagar voru komnir í gæsluvarðhald var hins vegar upp úr þurru farið að spyrja þá um þennan horfna Færeying og það er til marks um hve viljugir sakborningar voru um tíma til að láta að hverjum vilja lögreglunnar að nú voru þeir hreint ekki frá því að þeir hefðu einhvern tíma haustið 1974 þjarmað illilega að einhverjum Færeyingi.
Og minning Alberts um líkflutninga af Hamarsbrautinni í september 1974 hlaut því að eiga við hinn ógæfusama Færeying!
En svo uppgötvaði lögreglan um síðir, eins og ég nefndi áðan, að Erla Bolladóttir hafði flutt af Hamarsbrautinni þegar í febrúar 1974 og því kom vart til mála að þremenningarnir hefðu verið að þvælast þar með lík Færeyingsins um haustið.
Um tíma var vissulega reynt að koma því heim og saman að þremenningarnir hefðu víst drepið Færeyinginn á einhverjum óþekktum stað í september 1974 og síðan af einhverjum afar dularfullum ástæðum flutt lík hans á Hamarsbrautina, þar sem Erla hafði þá ekki búið í rúmt hálft ár, og hringt þaðan í Albert svo hann gæti komið og sótt líkið – en þetta var einum of fáránlegt, jafnvel fyrir Karl Schutz og íslensku rannsóknarlögregluna, svo þessi þráður málsins var látinn niður falla.
Og raunar tókst ekki að sýna fram á nein samskipti þremenninganna við þennan Færeying, og er hann úr sögunni.
Það segir sig svo nánast sjálft að þegar lögreglan var um sama leyti að reyna að koma Geirfinnsmálinu heim og saman, þá var Albert inntur eftir því hvort hann hefði nokkuð komið að flutningi á líki Geirfinns.
Á þessu stigi rannsóknarinnar á morði Geirfinns taldi lögreglan að Geirfinnur hefði verið drepinn í Dráttarbrautinni í Keflavík af Sævari og félögum og lík hans hefði síðan verið flutt til Reykjavíkur þar sem það hefði verið geymt í tvo sólarhringa á heimili Kristjáns Viðars, en þá loks flutt út í Rauðhóla eða á einhvern annan dularfullan stað.
Þegar Albert var spurður hvort hann hefði eitthvað komið nálægt þessu, þá fór náttúrlega svo að hann rámaði í að hafa komið nálægt flutningum á líki Geirfinns frá heimili Kristjáns Viðars upp í Rauðhóla.
Og viti menn – einmitt þá rifjaðist upp fyrir Sævari og félögum að líklega hafði það eftir allt saman verið Albert kunningi þeirra sem hefði verið fenginn til að flytja líkið, enda kominn með yfirgripsmikla þekkingu á líkflutningum.
Ýmissa orsaka vegna – sem óþarfi er að fara út í hér – þá varð hins vegar að útiloka Albert frá Geirfinnsmálinu, og það var eins og við manninn mælt: Hann mundi nú ekki lengur eftir að hafa komið þar við sögu, og Sævar og félagar könnuðust ekki lengur við að hann hefði tekið þátt í líkflutningum í það sinn.
En sagan af Alberti og hvað hann mundi er reyndar enn lengri og flóknari.
Þegar Albert og rannsóknarlögreglumennirnir höfðu komist að sameiginlegri niðurstöðu um að hann hefði verið á svörtu Bjöllunni en ekki gulri Toyotu þegar hann var kallaður að Hamarsbrautinni í janúar 1974, þá hljóðaði frásögn Alberts á þá leið að Sævar hefði hringt heim til hans frá Hamarsbrautinni um eittleytið um nóttina – rétt eftir að þeir félagar höfðu drepið Guðmund, samkvæmt sögunni – og hefði Sævar beðið hann þess lengstra orða að koma nú á bíl föður síns suður í Hafnarfjörð þar sem hann þyrfti að aðstoða þá félaga lítilsháttar.
Albert kvaðst meira að segja muna mjög greinilega að í símtalinu hefði Sævar boðið sér hassmola fyrir hjálpina. Það góða boð hefði verið ástæðan fyrir því að Albert tók sig upp um nóttina og dreif sig suður í Hafnarfjörð að beiðni Sævars – sem honum var þó ekki sérlega vel við.
Í sjálfu sér var þetta ekki ósennileg saga og smáatriðið um hassmolann virtist einkar sannfærandi. En nú kom enn babb í bátinn.
Það kom nefnilega á daginn að síminn á Hamarsbrautinni hafði verið lokaður nóttina sem Guðmundur Einarsson var drepinn.
Þar með féll sú saga um sjálfa sig. Á þessum árum löngu fyrir daga farsíma gat Sævar einfaldlega ekki hafa hringt af Hamarsbrautinni og boðað Albert til sín.
En Alberti og lögreglunni var ekki fisjað saman. Með þrotlausri yfirlegu tókst að koma saman nýrri frásögn um að Albert hefði verið úti að keyra á svörtu Bjöllunni þetta kvöld með Sævari, Kristjáni Viðar og Tryggva Rúnari (þrátt fyrir margnefnda litla vináttu Alberts og Sævars) og þeir hefðu svo hitt Guðmund og tekið hann með sér á Hamarsbrautina þar sem kom til þeirra slagsmála sem enduðu með að Guðmundur var drepinn.
Þetta virtist geta komið svona nokkurn veginn heim og saman – en um leið versnaði aldeilis í því fyrir Albert sjálfan.
Hlutur hans í málinu var skyndilega orðinn annar og meiri en í upphafi.
Hann var ekki lengur sá sem kom aðvífandi og var fenginn til að flytja lík – án þess að hafa hugmynd um hvað hann væri að flytja! – heldur hafði hann verið viðstaddur allan tímann.
Þótt Albert teldist ekki hafa átt þátt í þeim átökum sem leiddu til dauða Guðmundar, þá var hann nú augljóslega mun rækilegar samsekur en áður hafði verið.
Og það hafði aldrei staðið til hjá Alberti.
En þetta var eina atburðarásin sem allir gátu sæst á sem skýringu þess að Albert hefði verið staddur á bíl föður síns suður í Hafnarfirði þessa nótt. Það kom ekki lengur til mála að Sævar hefði hringt í hann, og þess vegna hlaut Albert að hafa verið á staðnum allan tímann!
Fram að þessu hafði enginn sakborninganna í málinu minnst á að Albert hefði verið viðstaddur morðið, þótt allir hefðu fallist á að hann hefði keyrt líkið. En nú þegar farið var að bera þessa nýju útgáfu undir aðra, þá gerðust þau undur og stórmerki að allt í einu rifjaðist upp fyrir Sævari, Kristjáni Viðari og Tryggva Rúnari að þeir höfðu – já! – verið í bíltúr með Alberti og hann hefði staðið aðgerðalaus hjá úti í horni meðan þeir lúskruðu á Guðmundi á Hamarsbrautinni.
Hér er náttúrlega við hæfi að setja upphrópunarmerki!
Og á þessum stað er kannski passlegt að taka fram að þótt þáttur Alberts sé rifjaður hér upp sérstaklega, þá er það alls ekki meint honum sérstaklega til hnjóðs. Hann var einfaldlega fastur í sama kóngulóarvef og aðrir sakborningar í þessu undarlega og sorglega völundarhúsi sem málið var orðið.
Og því var ekki lokið.
Næst gerðist það nefnilega í málinu að nærri heilu ári eftir að yfirheyrslur byrjuðu, þá fór Sævar allt í einu að blanda einum manni enn í þessa atburðarás.
Gunnar Jónsson hét sá, sem nú kom eins og skrattinn úr sauðarleggnum inn í Guðmundarmálið, en hann hafði verið kunningi þeirra um þessar mundir.
Samkvæmt málsskjölum virðist það hafa gerst í hálfgerðu bríaríi, nánast eins og fyrir slysni, að Gunnar blandaðist inn í málið.
Sævar hélt því að vísu fram síðar að hann hefði – að minnsta kosti undir niðri – verið að gá að því hvort rannsóknarlögreglumennirnir myndu kaupa nákvæmlega hvaða rugl sem var. Hvað sem satt er í því, þá gat Sævar þess allt í einu að Gunnar þessi hefði verið viðstaddur morðið á Hamarsbrautinni. Ekki nokkur maður hafði áður minnst á Gunnar í tengslum við málið. En Sævar kvaðst nú muna þetta greinilega. Hann sagðist meira að segja muna að meðan átökin við Guðmund stóðu yfir hefði Gunnar setið á gulfóðruðum stól frammi á gangi.
Þegar Kristján og Tryggvi og svo Albert voru nú yfirheyrðir enn eina ferðina, þá mundu þeir nú allir skyndilega eftir því að Gunnar Jónsson hafði verið með í bíltúrnum á Bjöllunni hið örlagaríka kvöld og síðan verið á Hamarsbrautinni þegar Guðmundur var drepinn.
Og fyrr en varði var búið að setja saman langa og flókna frásögn um bíltúr þeirra félaga þetta fræga kvöld. Og skorti þar ekki sannfærandi smáatriði – þótt enginn hefði munað eftir neinu af þessu aðeins örskömmu áður!
Þetta var að verða svo fáránlegt að það er nánast grátlegt.
Gunnar Jónsson hafði reyndar fyrst og fremst verið vinur Alberts, en síður þeirra þremenninga. Samt var nú boðið upp á það í skýrslu að Albert hefði fram að þessu bara alveg steingleymt því að þessi góði vinur hans hefði verið viðstaddur allan tímann. Hann sagðist ekki kunna neina skýringu á því að hann hefði fram að þessu gleymt Gunnari.
Bara einhver gleymska líklega.
En nú sagðist hann muna þetta allt mjög vel.
Tilkoma Gunnars Jónssonar varð til þess að ýmsu þurfti að breyta í sögunni.
Það var ekki beinlínis líklegt, en gat þó átt sér stað að fimm fullvaxnir menn hefðu troðist saman í bíltúr í einn lítinn svartan Volkswagen. En hins vegar var ógjörningur að Gunnar hefði verið með í bílnum þegar lík Guðmundar átti að hafa verið flutt af Hamarsbrautinni út í Hafnarfjarðarhraun.
Það var einfaldlega ekki pláss í Volkswagen Bjöllu fyrir fimm menn og eitt lík.
Til að sagan gengi upp varð því að losna við einhvern þeirra, og lausnin varð sú að losa sig við þennan vandræðalega Gunnar sem enginn virtist hvort sem er almennilega vita hvaða hlutverki gegndi í sögunni.
Albert var því kallaður til yfirheyrslu og spurður hvort ekki gæti verið að hann hefði keyrt Gunnar heim til sín eftir að Guðmundur hafði verið drepinn á Hamarsbrautinni, en svo hefði hann sjálfur snúið þangað aftur til að flytja líkið úr í hraun.
Ekki þarf að orðlengja að Albert mundi nú skyndilega eftir því að nákvæmlega svona hafði það verið.
Já, hvernig hafði hann getað gleymt því? Hann hafði einmitt skutlað Gunnari heim eftir að Guðmundur var drepinn og svo farið aftur á Bjöllunni suður í Hafnarfjörðinn.
En svo bara alveg gleymt því.
Gunnar þessi Jónsson var búsettur á Spáni þegar hér var komið. Tveir rannsóknarlögreglumenn fóru utan til að vita hvort hann vildi koma til Íslands til að bera vitni. Hann féllst á það og heimkominn til Íslands kannaðist hann ekkert við að hafa verið viðstaddur morð á Guðmundi Einarssyni, sem hann kvaðst ekkert þekkja til.
En eftir fáeinar yfirheyrslur og samprófanir með Albert, þá fór Gunnar skyndilega að muna sitt af hverju.
Á blaðsíðum 96-100 í dómi Hæstaréttar (sjá hérna) eru vitnisburðir Gunnars. Þar má sjá á nánast hrollvekjandi hátt hvernig Gunnar er sífellt leiddur áfram eftir hringstigum þessarar rugluðu atburðarásar þar til hann stendur allt í einu yfir líki Guðmundar Einarssonar í húsinu við Hamarsbrautina …
- - - - -
Margt hefur verið skrifað um þessi mál, og sagan hefur meira að segja borist til útlanda. Hérna er makalaust fín úttekt BBC á málinu.
Það skal tekið fram að sá þáttur Guðmundar- og Geirfinnsmála sem ég rakti hér að ofan er þrátt fyrir allt hvorki sá flóknasti né einkennilegasti. En hann hæfir vel til að sýna hve málið allt er gjörsamlega fáránlegt. Það er þjóðarskömm að þetta skuli ekki fyrir löngu hafa verið tekið upp.
En nú hyllir vonandi undir það.
Athugasemdir