Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra mun á allra næstu vikum kynna skýrslu sem hann hefur látið taka saman fyrir sig að beiðni þingmanna í stjórnarandstöðunni um neikvæðar afleiðingar fyrir Ísland af hvalveiðum tveggja fyrirtækja hér á landi. Vel er hægt að ímynda sér fyrirfram hver niðurstaðan verður af þessari samantekt Gunnars Braga: Hvalveiðar Hvals hf. og hrefnuveiðar Gunnars Bergmanns Jónssonar hafa slæm áhrif á ímynd Íslands á alþjóðavettvangi og spilla fyrir samskiptum landsins við stórveldi eins og Bandaríkin.
Hvalveiðar Íslendinga eru eina málið sem snertir Íslendinga sem ég man eftir að Barack Obama Bandaríkjaforseti hafi talað um opinberlega og látið sig einhverju varða. Hann hefur mælst til þess, út frá stofnverndarsjónarmiðum á langreyðum að Íslendingar láti af hvalveiðunum undir eins. Þetta hefur Obama gert með því að vísa til CITES-samningsins svokallaða sem kveður á um bann við viðskiptum með kjöt af dýrum í útrýmingarhættu.
Ef einungis pólitísk rök eru notuð til að vega og meta hvalveiðarnar þá ganga þær auðvitað ekki upp. Hvaða pólitísku rök eru fyrir því að Ísland veiði hval? Það eru fyrst og fremst efnahagsleg rök eins og atvinnusköpun fyrir tugi manna tímabundið á ári hverju þegar vertíð er hjá Hvali hf. á langreyðarveiðunum. Fyrir liggur að hvalveiðarnar sjálfar skila bara tapi fyrir Hval hf. og að fyrirtækið niðurgreiðir þessar veiðar með hagnaði af arðbærri hlutabréfaeign í HB Granda. Fyrirtækið greiðir hins vegar auðvitað skatta og gjöld til ríkisins af hvalveiðunum, jafnvel þó þær skili tapi. Til að mynda voru tekjurnar af hvalveiðunum rúmur milljarður árið 2014 og fer hluti þeirra fjármuna til ríkisins. Kostnaðurinn var hins vegar tveir milljarðar króna.
Þannig að ef þessi pólitísku rök með hvalveiðunum eru látin vega á móti rökunum sem mæla gegn hvalveiðunum þá er niðurstaðan alveg skýr: Það væri pólitískt klókt af hálfu Íslands að hætta hvalveiðunum.
En þetta eru kannski sterkustu rökin gegn hvalveiðunum að mínu mati. Stofnverndarrrökin, sú hugmynd að langreyðarstofninn í heiminum sé í útrýmingarhættu sem slíkur og að þar af leiðandi megi ekki veiða þessa hvalategund neins staðar jafnvel þó hún sé ekki í útrýmingarhættu við Ísland, eru ekki sérstaklega sannfærandi. Hafrannsóknarstofnun segir einfaldlega að það að veiða um það bil eitt prósent af langreyðarstofninum við Ísland á ári, líkt og gert er, séu sjálfbærar veiðar og tefli stofninum þar með ekki í hættu.
Vandamálið er hins vegar ekki að stefna Bandaríkjastjórnar gagnvart hvalveiðum Íslendinga byggir á þeirri hugmynd alfarið að þetta sé rangt mat hjá Hafrannsóknarstofnun þar sem líta beri á langreyðartegundina á heimsvísu þegar veiðar í einstaka löndum eru ákveðnar. Og þar sem langreyðartegundin er skilgreind þannig að hún sé í útrýmingarhættu á heimsvísu þá mega Íslendingar ekki veiða úr stofninum við Ísland jafnvel þó að hann telji um það bil 15 þúsund skepnur. Þannig byggja pólitísk rök Bandaríkjamanna á þessum stofnverndarrökum sem eru sannarlega umdeilanleg. Nú ef stofnverndarrökin ganga ekki upp þá gengur niðurstaða Bandaríkjamanna heldur ekki upp þar sem hún byggir á gölluðum forsendum.
Auðvitað geta þeir sem eru á móti því af hugmyndafræðilegum ástæðum að drepa og borða dýr haldið fram náttúruverndarsjónarmiðum gegn veiðunum. Sú hugmynd er útbreidd, sérstaklega erlendis hef ég tekið eftir, að það sé einhver grundvallarmunur á því að borða hval en að borða naut, elg eða rjúpu þar sem hvalir sé greindari skepnur og nærri mannskepnunni í vitsmunum. Ég á til dæmis einn skoskan vin sem finnst hvalkjötsát eitthvað það ógeðslegasta sem hann getur hugsað sér og hann fordæmir mig fyrir að borða hval. Mér finnst hins vegar enginn munur á því að borða hval og ýmis önnur spendýr eða villibráð.
Þannig að hvað ber að gera: Á Ísland að hætta að veiða hvali þrátt fyrir að vitað sé að stofnverndarrökin, sem pólitísku rökin gegn veiðunum eru byggð á, séu hugsanlega gölluð eða að minnsta kosti villandi? Eða á Ísland að hætta að veiða hvali af því að það er pólitískt klókt að gera það sem stórþjóðir eins og Bandaríkjamenn vilja að smáþjóðin geri og af því að hagsmunirnir af hvalveiðunum eru litlir eða nánast engir? Á Ísland svo kannski bara að hætta að veiða hval af því að eini maðurinn sem hefur haldið úti hvalveiðistefnu Íslands, Kristján Loftsson, er kominn á áttræðisaldur og eftir hans dag mun sennilega enginn taka við skutlinum frá honum og veiðunum verður sjálfhætt?
Já, líklega er bara best að hætta þessum veiðum af pólitískum og efnahagslegum ástæðum og einnig vegna þess að sú viðleitni að reyna að breyta því hvernig umheimurinn lítur á þetta ágæta kjöt sem afurð til manneldis er sennilega vonlaus og myndi sjálfsagt kosta markaðsherferð sem væri dýrari en tekjur af langreyðarveiðunum í nokkur ár. Hvalveiðar Íslendinga eru sem sagt vonlaus iðnaður þó vísindalegu forsendurnar gegn veiðunum séu kannski frekar haldlitlar.
Athugasemdir