Við erum að leita okkur að íbúð til að kaupa. Þurfum lögheimili í Reykjavík fyrir mánaðamót því Úa, 15 mánaða dóttir mín, byrjar á leikskóla þar um miðjan ágúst. Álagið að kaupa íbúð með stuttum fyrirvara er töluvert. Nýverið gerðu starrar sér svo hreiður í þakskyggni hússins okkar svo kæró og dóttir voru flóabitnar úti um allt með mörgum svefnlausum nóttum og pirruðum kláða.
Til að róa þandar taugar fórum við með föðurfjölskyldunni í Elliðaey á Breiðafirði um helgina til að gista eina nótt. Sú nótt reyndist svefnlaus og krefjandi. Úa hélt fyrir okkur vöku með brölti, grát og kvarti. Klukkan fimm um morguninn var hún brennandi heit. Litli líkaminn titraði í 40 gráðum. Lystarlaus og föst úti í eyju.
Þegar við komum í land brunuðum við í bæinn. Við heimkomu tókum við eftir punktum í andliti hennar, sem ég taldi vera freknur. Þegar sjúklingurinn var nýsofnaður í faðminum á mér kom mamma hennar inn, með lækni í símanum. Hún bað mig að athuga hvort Úa væri stíf í hálsi. Við vöktum hana og ýttum höfðinu fram og hún kvartaði. Stífleiki í hálsi, punktblæðingar í andliti og hár hiti eru allt einkenni heilahimnubólgu.
Við keyrðum því úr Mosfellsbæ á barnaspítala Hringsins á ólöglegum hraða. Ósofinn í stresskasti með grun um að barnið mitt væri með heilahimnubólgu ók ég eins og með andskotann á hælunum. Blikkaði hægfara bíla á vinstri akgrein, brunaði dæsandi yfir á appelsínurauðu.
„Stífleiki í hálsi, punktblæðingar í andliti og hár hiti eru allt einkenni heilahimnubólgu...“
Í loftköstunum niður Ártúnsbrekkuna hugsaði ég ekkert um fasteignir, kauptilboð, greiðslumat, ástand lagna, fermetraverð og staðsetningu. Ég hugsaði um það eitt hversu ótrúlega mikið ég elska dóttur mína:
Þegar hún kalla mig „baba“. Þegar hún stendur uppi á stól og heldur ræður á bulltungumáli. Þegar hún fer að sofa og biður mig að syngja uppáhaldslagið sitt. Þegar hún tekur utan um hálsinn á mér og kyssir mig á hökuna með opnum munni. Ég elska hana meira en þessi orð geta útskýrt og þessi uppákoma þvingaði þá staðreynd inn í vitund mína.
Nú, nokkrum dögum síðar, er blessunarlega ljóst að hún var með svokallaða sjöttu sótt. Oftast meinlausa veirusýkingu, sem þó ber mörg sömu einkenni heilahimnubólgu. Nú, þá er bara að finna réttu íbúðina.
Athugasemdir