Hið hryggilega mansalsmál sem upp er komið í Vík í Mýrdal leiðir hugann að eyríkinu Sri Lanka, en bæði hinn grunaði gjörningsmaður og meint fórnarlömb hans tvö eru þaðan. Og hér segir því af Sri Lanka.
Sri Lanka er rúmir 65.000 ferkílómetrar að flatarmáli, sem þýðir að það er um það bil tveir þriðju hlutar Íslands. Landið er nálega jafn stórt og Lettland og Litháen, svo önnur Evrópuríki séu höfð til hliðsjónar.
Náttúran þykir ein hin fegursta í heimi hér, landið er enda rétt fyrir norðan miðbaug, svo þar er hlýtt og notalegt. Hæðir og fjöll einkenna landslagið og öll var eyjan vaxin þéttum frumskógi áður en menn fóru að ryðja skógana til að planta þar ýmsu sem þeim fannst ætilegra.
Íbúar eru rétt rúmar 20 milljónir. Sú Evrópuþjóð sem næst er Sri Lankabúum að mannfjölda eru Rúmenar með 19 milljónir og svo Hollendingar með 16.
Íbúarnir hafa frá fornu fari skipst í tvær þjóðir sem stundum hafa eldað grátt silfur. Sinhalesar eru 75 prósent en Tamílar eru um 25 prósent. Þeir skiptast reyndar í nokkra smærri hópa og tíu prósent eru til dæmis múslimar sem eru að einhverju leyti afkomendur arabískra kaupmanna og tala arabískuskotna tamílsku. Annars eru 70 prósent Sri Lankabúa búddistar en 12 prósent eru hindúar og rúm prósent kristin.
Mjög langt er síðan menn fóru að setjast að á hinni blómlegu eyju. Elstu mannvistarleifar sem fundist hafa á Sri Lanka eru 300 þúsund ára gamlar, og ef til vill mun eldri. Þar er þó ekki um að ræða homo sapiens, heldur eldri manntegundir.
Fyrir tæplega 40 þúsund árum var nútímamaðurinn hins vegar kominn til sögu á Sri Lanka. Ekki er ólíklegt að þar hafi verið um að ræða brot af þeim hópi homo sapiens sem fyrstur yfirgaf Afríku og gekk meðfram ströndum Indlandshafs þangað til hann endaði í Ástralíu og komst þá ekki lengra. En hluti hópsins varð eftir í Sri Lanka og vel er líklegt að frumbyggjarnir Veddar séu afkomendur þessara fyrstu landnema.
Veddar búa enn á Sri Lanka en telja nú aðeins tvö til þrjú þúsund manns.
Á fyrsta árþúsundi fyrir Krist voru fleiri aðkomumenn frá Indlandi farnir að setjast að á eyjunni. Ævaforn kvæði herma að þá hafi stjúpbræður tveir barist um eyjuna og sá sigraði sem bjó svo vel að eiga skínandi fallega flugvél sem hann gat notað til árása á hinn.
En hvað sem því líður - um 500 fyrir Krist var ný menning komin til sögu á Sri Lanka. Sinhalesar rekja upphaf þjóðar sinnar til þess að þá hafi fólk af Indlandi flust til eyjarinnar og stofnað öflugt ríki. Einmitt um þær sömu mundir voru Persar og Forn-Grikkir að eigast við í tæplega 7.000 kílómetra fjarlægð við austanvert Miðjarðarhafið.
Nú tók við löng runa sinhalesískra kónga sem réðu ríkjum á Sri Lanka og gekk á ýmsu og margir kónganna máttu eiga við innrásir frá Indlandi og aðrir við valdaránstilraunir og klofningsmenn innanlands. Merkilegt er að á miðri fyrstu öld fyrir Krist - um það bil sem Júlíus Caesar var orðinn hæstráðandi í Róm - þá varð fyrsta konan hæstráðandi á Sri Lanka um nokkurra ára skeið, Anúla hét drottning sú og var fyrsta konan sem vitað er til að hafi ríkt í Asíuríki.
Anúla lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna og á er það nefnt því til sanninda að á fimm árum lét hún eitra fyrir fjórum eiginmönnum, hverjum á fætur öðrum, uns hún var sjálf búin að sölsa tryggilega undir sig alla valdasprota.
En þá höfðu líka hirðmenn fengið nóg af Anúlu og hún var brennd inni svo hún gerði ekki frekari hervirki af sér.
Tengsl voru þá komin á millum Indlands og Sri Lanka annars vegar og Rómaveldis hins vegar. Talið er að Kleópatra drottning Egiftalands hafi ætlað að senda son sinn Caesarion þangað undan morðvörgum Ágústusar keisara, en piltur varð of seinn og morðingjarnir náðu honum til Rauða hafið.
Og þegar Caligula hinn vitfirrti keisari Rómar var ráðinn af dögum árið 41 eftir Krist var hann að horfa á dansflokk pilta og stúlkna „frá Asíu“ sem margir telja að hafi komið frá Sri Lanka.
Leið nú og beið og á ofanverðri fimmtu öld eftir Krist var eins og stundum áður risið öflugt ríki á Sri Lanka. Um svipað leyti og Rómaveldi féll í vestri reisti kóngurinn Kashyapa I klettaborgina Sigirya, sem þykir stórmerkileg og er vinsælasti ferðamannastaður á Sri Lanka, þar eru dásamlegar freskur gerðar af ótrúlegri list.
Á tíundu öld eftir Krist kom svo ný bylgja innrásarmanna frá Indlandi og felldi hið forna ríki Kashyapas. Um það leyti var söguöld á Íslandi og „þá komu Gunnar og Geir og Gissur og Héðinn og Njáll“ - eins og þar stendur.
En nú um skeið var allt upp í loft á eyjunni fögru í Indlandshafi. Og þá reis á norðurhluta eyjarinnar hið svonefnda Jaffna-ríki en það var fyrsta alvöru ríki Tamíla, sem nú komu í fyrsta sinn til sögu á Sri Lanka og það með trukki og dýfu. En hvort Tamílar höfðu búið á eyjunni frá því löngu áður en Sinhalesar mættu, eða hvort þeir voru enn ein innrásarþjóðin, nýkomin frá Indlandi - það er spurning sem illt er að svara, en hefur löngum skipt miklu máli í deilum Sinhalesa og Tamíla.
Frá því greinir líklega síðar á þessum vettvangi.
En þá er lokum að geta þess að sundið milli Indlands og Sri Lanka er um 53ja kílómetra breitt þar sem það er mjóst, en þar er mjög grunnt og ljóst að oft hefur verið manngengt á milli. Raunar er talið að síðasta landbrúin milli Indlands og Sri Lanka hafi ekki rofnað að fullu fyrr en á fimmtándu öld eftir Krist.
Athugasemdir