Ísland minnir á stað, eða öllu heldur staðleysu, í bók eftir José Saramago. Staður sem er hættur að vera staður og orðinn ástand sem hefur yfirtekið bæði íbúana og menningu þeirra. Fólk er ýmist haldið dularfyllri blindu eða flutt með allt sitt hafurtask inn í verslunarmiðstöð sem er orðin upphaf og endir samfélagsins.
Mér varð stundum hugsað til skáldsins þegar ég var búsett í vesturbænum með kornabarn og stytti mér stundir í rigningasumrinu við að ganga með vagninn niður í miðbæ. Þetta sumar var líflegt um að litast í miðbænum út af ferðamönnunum. Mannlífið fjölbreytt, þrátt fyrir einsleitan fatnaðinn: fjallgönguskó, glænýja ullarpeysu og bakpoka; þéttsetið á kaffihúsum og blússandi gangur í lundabúðunum.
Allt í sóma í Oklóhóma nema hvað miðbærinn líktist frekar risavöxnu hótellobbíi en miðbæ í höfuðborg. Búið að bora niður túristasjobbu með tuskuselum og Bláalónskremum í hverja holu, kaffihúsin búin að skrúfa svoleiðis upp prísana á kaffibolla og brauðsneið að manni leið eins og útigangsmanni í Disneylandi andspænis unglingnum í afgreiðslunni og túristarnir allir klæddir eins og þeir væru nýkomnir ofan af Vatnajökli, álíka taktlausir og fólkið í sundfötunum í gamla miðbænum í Barcelona þangað til borgaryfirvöld bönnuðu ferðamönnum að spranga um í strandklæðnaði (lesist berir) um verslunargötur borgarinnar. Vinkona mín, búsett í Barcelona til margra ára, sagði mér að í vinsælasta miðbæjarhverfinu, El Born, væru um 80 prósent íbúanna ýmist ferðamenn eða útlendingar sem notuðu íbúðirnar einungis í nokkra mánuði á ári, nokkuð sem gerði heimamönnum erfitt fyrir að finna íbúð, hvað þá á viðráðanlegu verði. Mér varð líka hugsað til hennar þetta sumar, sjálf í leiguíbúð þarna í vesturbænum, umkringdri túristarútunum.
„Það var ekkert skemmtilegt að gera í miðbæ Reykjavíkur fyrir konu með barnavagn nema kíkja inn á Borgarbókasafn eða í Eymundsson.“
Innsti kjarninn í miðbæ margra evrópskra höfuðborga líkist auðvitað hótellobbíi en það bjargar þeim flestum að allt í kring eru skemmtilegar hliðargötur og þær liggja síðan að öðrum fjölbreyttum hverfum. Það var ekkert skemmtilegt að gera í miðbæ Reykjavíkur fyrir konu með barnavagn nema kíkja inn á Borgarbókasafn eða í Eymundsson á milli þess sem hún þræddi sig taugaveikluð á milli hlussustórra túristaflutningabíla og bað þess að þeir myndu ekki bakka á barnavagninn. Meira að segja fuglarnir á Tjörninni réðust á okkur mæðginin, þetta sumar. Ef ég minntist á að miðbærinn hefði engan karakter lengur var svarað með spurningunni: Viltu ekki fá útlendinga inn í landið?
Jú, ég hef alltaf staðið í þeirri trú að það væri bráðhollt fyrir íslenskt samfélag ef fleira fólk frá sem flestum löndum heimsins myndi flytja til Íslands og ferðast þangað. En ef að lítil borg eins og Reykjavík á að bera mikinn ferðamannastraum er nauðsynlegt að virkja aðra hverfakjarna í borginni og íbúa þeirra svo þar fái lífvænlegt borgarlíf að dafna. Það mætti líka auðvelda fólki að reka matarmarkaði og fyrirtæki sem gera markvisst út á mannlífið í heild sinni, heimafólk og allskonar ferðafólk, en ekki bara lundaóða ellilífeyrisþega á skemmtiferðaskipum og langdrukkna unglinga í helgarferð.
Ferðamenn kosta skipulag og útsjónarsemi. Vandinn er bara sá að Íslendingar forðast að hugsa í æsingnum að græða á ferðamönnunum. Í fljótu bragði virðist græðgin vera slík að sjálfsvirðingin er engin, því síður virðing fyrir fólkinu sem kemur langa leið til að heimsækja landið. Við nennum hvorki að vernda náttúruna fyrir ágangi fólks með auknu skipulagi né menninguna sem fólk kemur hingað til að upplifa. Við viljum bara selja þeim afþýtt hamborgarabrauð með þunnri skinkusneið og kaffibolla á 3.000 krónur, annað væri blóðugt, og súkkulaðistykki í sérstakri túristapakkningu á 1.500 krónur. Helst vildum við selja ömmu okkar líka, bara ef liðið er tilbúið að borga á staðnum og langt umfram hugsanlegt raunvirði. Á endanum reynum við að selja úr okkur sálina, spurning hvort einhver vilji kaupa það sem ekkert er?
*Grein Auðar Jónsdóttur er innlegg í umfjöllun um ferðamannaiðnaðinn á Íslandi sem birt er í júníblaði Stundarinnar.
Athugasemdir