Með smáum en ákveðnum skrefum er unnið að því að gera RÚV að ekki neinu – í einskonar ,,heilögu stríði“ gegn stofnuninni og starfsmönnum hennar.
Hér á Íslandi hefur vaxið úr grasi óvenju herská kynslóð af hermönnum frjálshyggjunnar. Þeir eru þrautsegir og úthaldsmiklir og vinna eftir þeim herfræðum að „dropinn holar steininn“. Þeir malla áfram í sínu og þeir eiga marga fylgismenn úti í bæ og á ýmsum stöðum í samfélaginu, sem hvetja þá til dáða. Það má líta á þessa aðila sem einskonar „sellur“ og sumir eru „einsmanns-sellur“ – eins konar ,,einmana úlfar“ sem gelta og hvæsa boðskapnum út í samfélagið, með stöðugum straumi.
Hvergi sést þessi aðferðafræði betur en í þeirr „niðurtálgunarstefnu“ sem unnið er með gagnvart Ríkisútvarpinu, sem meðal margra hermanna frjálshyggjunnar er eins og „rauða hættan í austri“ var á sínum tíma. Eitthvað eitur eða æxli í samfélaginu, sem þarf að skera burt, með öllum ráðum. Tálga það niður og skera svo mikið niður við trog, að ekkert stendur eftir nema kjötlaus beinagrindin, ef þá nokkuð. RÚV skal haldið í fjárhagslegri spennutreyju með tilheyrandi óöryggi meðal starfsmanna.
Hið heilaga stríð
Já, þetta er stríð sem þetta fólk háir, eins konar „heilagt stríð“ gegn RÚV og þetta eru bæði aðilar innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokki, sem er að verða jafnvel enn svæsnari frjálshyggjuflokkur, með núverandi formann fjárlaganefndar innanborðs – einstakling sem virðist hata RÚV eins og pestina. Og fer ekkert leynt með það.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hugðist beita sér því að útvarpsgjaldið yrði óbreytt, það er að segja ekki lækkað. En auðvitað gekk það ekki og útvarpsgjaldið var lækkað á þinginu sem lauk fyrir nokkrum dögum. Sú menningarlega fjandsamlega ríkisstjórn sem hér situr við völd er búin að ákveða sig: Það verður unnið að því að sarga RÚV niður, hvað sem það kostar. Enda var samþykkt tillaga á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir skömmu þess efnis að RÚV skuli lagt niður í „núverandi mynd“: „Rekstur ríkisins á fjölmiðlum má ekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla. Landsfundur leggur til að þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil verði endurskilgreind og Ríkisútvarpið ohf. verði lagt niður í núverandi mynd.“
Plástur á sárið
Og hverjir ætla að endurskilgreina? Jú, væntanlega ríkjandi öfl og út frá hvaða hagsmunum verðu endurskilgreint? Jú, ríkjandi afla að sjálfsögðu.
Þetta er eins og lélegur brandari!
Nú þegar þingi lauk var ákveðið að veita RÚV 175 milljónir í aukafjárframlag til innlendrar dagskrárgerðar, sem einskonar „plástur á sárið“ vegna lækknar útvarpsgjalds. Upphæð sem aðeins samsvarar um 12-13 lúxusjeppum. Í fréttum RÚV þann 20. desember sagði forsætsráðherra að RÚV gæti „sótt fram á ýmsan hátt“ í skjóli þessa fjármagns, meðal annars með því að framleiða efni sem tæki inn meiri auglýsingatekjur (hvernig á að gera það?) og að þetta efni yrði væntanlega selt til Norðurlandanna (er einhver trygging fyrir kaupum?). Allt mjög óljóst og óútfært.
Það sem ríkisstjórnin er að sjálfsögðu bara að gera með þessum 175 milljónum er „að sýna lit“ eins og sagt er – reyna að halda andlitinu og segja; „Jú, við settum aukinn pening í RÚV“!
Þrátt fyrir þetta, er niðurstaðan sú sama: Það er verið að vinna að því hægt og rólega, í smáum, en ákveðnum skrefum, að gera RÚV að ekki neinu og stuðla þannig að menningarlegri landeyðingu á Íslandi.
Höfundur er stjórnmálafræðingur
Athugasemdir