„Meira en tíu þúsund flóttabörn hafa horfið eftir komuna til Evrópu. Óttast er að þau hafi fallið í hendur glæpagengja og verið seld mansali“ hljómaði úr útvarpi allra landsmanna um daginn. Lengi vel hélt fólk að þrælasala væri eitthvað sem viðgekkst fram á byrjun 20. aldar en fjaraði svo út, vondu mennirnir, sem við höfum séð svo margar bíómyndir um, sem rændu fólki í Afríku og seldu. Það var hryllingur rétt eins og þrælahald í dag og því miður er það svo að nú eru fleiri þrælar en voru þegar þrælahald var löglegt. Alþjóða vinnumálastofnunin (ILO) segir að í dag séu 21 milljón manns í þrældómi og að fjöldinn hafi nær tvöfaldast á síðustu 10 árum. Ríflega helmingur eru konur og stúlkur og helmingur þeirra er seldur til kynlífsglæpamanna, fjórðungur þræla í heiminum eru börn.
Gróðinn af þessari starfsemi er eitthvað um 20.000.000.000.000 á ári, eða 20 þúsund milljarðar!, sem er það sama og kostar að reka Ísland í 31 ár. Mansal er sem sagt arðbærasta glæpastarfsemi samtímans og álíka algengt og vopna- og eiturlyfjasala. Framboð á fólki í neyð er mikið og ódýrt að flytja það milli landa og eftirspurn er þannig að auðvelt er að selja, jafnvel oft sömu manneskjuna.
Ríkisstjórnir Norðurlandanna hafa lagt á það áherslu að vinna gegn þessari glæpastarfsemi. Ísland er þar á meðal þótt við séum í þessum samanburði langt á eftir nágrannaþjóðum okkar. Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir gegn mansali felur í sér að unnið verði að forvörnum, aðstoð og vernd fyrir fórnarlömb, rannsókn mansalsmála og samstarfi, samráði og mati á árangri. Fram hefur komið að lögregla hafi ekki fengið fjárveitingu vegna aðgerðaáætlunar gegn mansali og að lögreglumenn hafi sinnt fræðslu um mansal í frítíma sínum. Ísland var enda gagnrýnt í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins á síðasta ári fyrir slaka frammistöðu í baráttunni gegn mansali.
„Mansal er sem sagt arðbærasta glæpastarfsemi samtímans og álíka algeng og vopna- og eiturlyfjasala.“
Í erindi Line Barfod, dansks lögfræðings, á dögunum kom fram að meðan lítil hætta er á að lögregla upplýsi mansal og refsi glæpamönnunum, þá verði til fólk sem er reiðubúið til að hneppa aðra í þrældóm. Það er því gríðarlega mikilvægt að styrkja og fræða alla aðila réttargæslukerfisins um mansal og eðli þess. Sá sem er seldur mansali er sjaldnast í sýnilegum hlekkjum og algengt er að um sé að ræða flókið samand ofbeldismanns og fórnarlambs sem jafnvel er ekki er viljugt til samstarfs við að uppræta brotið. Stundum af ótta við refsingu eða öryggi ættingja sína. Mansalinn hefur kannski neytt viðkomandi til að brjóta lög eða heldur fórnarlambi sínu í óvissu um eigin réttarstöðu. Í sumum tilfellum treystir viðkomandi ekki yfirvöldum.
Við vitum að mansal viðgengst á Íslandi, það vakti til að mynda óhug þegar lögregla frelsaði þrjár konur úr kjallara á dögunum og fram hefur komið að tugir mansalsmála eru til rannsóknar hjá lögreglunni hérlendis um þessar mundir. Grunur um mansal hefur meðal annars komið upp í fiskvinnslu, ferðaþjónustu, byggingariðnaði, vændi, heimilishjálp, bakaríi, á veitingastað, skemmtistað og í tengslum við margskonar glæpastarfsemi.
Við stuðlum einnig að þrælasölu með þeim vörum sem við kaupum því hætta er á eitthvað af þeim vörum sem við kaupum séu framleiddar af þrælum sem fá lítið eða ekkert greitt fyrir vinnu sína og leggja líf sitt jafnvel í hættu við óviðunandi aðstæður.
„Við sem samfélag þurfum að ákveða að standa með fórnarlömbum mansals og veita þeim þá vernd og hjálp sem þau eiga skilið.“
Við þurfum eiginlega öll að fræðast um mansal og láta vita ef okkur grunar eitthvað. Ef manneskja hagar sér undarlega, er ekki með vegabréf eða skilríki gæti hún verið fórnarlamb mansals og þá er mikilvægt að láta lögreglu vita. Við sem samfélag þurfum að ákveða að standa með fórnarlömbum mansals og veita þeim þá vernd og hjálp sem þau eiga skilið burtséð frá uppruna eða stöðu á Íslandi. Kvennaathvarfið hefur tekið að sér að veita konum skjól og hjálp þó það sé eiginlega neyðarúrræði en engin úrræði eru til fyrir karla eða börn sem seld hafa verið mansali sem er bagalegt þar sem nokkuð öruggt getur talist að hingað koma einnig karlar og börn sem hafa verið seld. Rauði krossinn hefur komið að stuðningi við fórnarlömb en óvissa er um samstarf félagsþjónustu sem þarf að slípa til til að sá einstaklingur sem verður fyrir þessum hryllilega glæp hérlendis geti gengið að hjálp vísri..
Til að ráðast að rót vandans þyrfti auðvitað að útrýma fátækt og misskiptingu í heiminum þannig að hver einasta manneskja fengi þá virðingu, þann aðbúnað og tækifæri í lífinu sem hún á skilið. Á meðan það er ekki þannig þurfum við að krefjast þess að þær vörur og matvæli sem okkur standa til boða séu framleiddar við viðunandi aðstæður og ekki af þrælum. Við verðum að hætta að líta á það sem eðlilegan hlut að hægt sé að kaupa aðgang að líkama fólks í hvaða tilgangi sem er og við þurfum að opna augun fyrir því sem viðgengst í kringum okkur og segja STOPP. Þrælahald var bannað fyrir rúmri öld síðan og það er hægt að stöðva það ef við tökum öll höndum saman - það á enginn að hagnast á neyð annarra hvort sem er meðvitað eða bara með því að standa á sama.
Athugasemdir