Vekjaraklukkan hringir og ég nenni ekki á fætur. Snúsa og held áfram að sofa. Af hverju þarf ég endalaust að mæta á þennan ömurlega stað? Vinna allan daginn og horfa á aðra hafa það gott á samfélagsmiðlum. En ég fletti á Netflix, spila tölvuleiki, sef og mæti í vinnuna. Sem er ömurlegt. Af hverju ég?
Hversu oft heyrir maður svona tal hjá fólki sem endalaust vorkennir sjálfu sér? Allir eru að gera'ða gott nema ég … Hverjum er ekki drullusama? Ef þú ert óánægður eða óánægð með stöðu þína, gerðu eitthvað í því. Farðu fyrr á fætur. Hreyfðu þig fyrir vinnu. Stattu þig betur í vinnunni en næsta manneskja. Slepptu tölvuleiknum, sjónvarpinu og skrollinu á Facebook. Notaðu tímann og orkuna í að gera líf þitt betra í framtíðinni. Það er ekkert mál að væla yfir fortíðinni og halda svo áfram að væla í framtíðinni. Heimurinn er fullur af slíku fólki. Ef þú ert meðal þeirra og ert enn að lesa þennan pistil þá eru líkur til þess að þú hafir áhuga á að rífa þig upp og breyta. Aðrir eru löngu hættir að lesa og búnir að finna afsökun fyrir því að það sem ég er að segja eigi ekki við þá. Ég sé hvort sem er einhver sjálfumglaður sjálfskipaður postuli lífsstíls sem sé leiðinlegur. Líklega þegar búin/n að skrifa athugasemd undir greinina og vita ekki að þessi lína kemur fljótlega í greininni. En það er nú samt þannig að sama hver staðan þín er, þú getur alltaf gert hana betri.
„Ef Edda Heiðrún Backman gat bætt líf sitt, þá get ég það og þú líka. Hún er hetjan sem þorði að bjarga sjálfri sér.“
Edda Heiðrún Backman fór úr þeirri stöðu að vera ein ástsælasta leik- og söngkona þjóðarinnar yfir í þá stöðu að vera í hjólastól lömuð frá hálsi og niður. Vitandi að líf hennar yrði ekki langt eftir að hún greindist með MND. Hvað gerði Edda? Hún gerði líf sitt betra. Fann sér verkefni og skaraði framúr. Og hún málaði ein fallegustu málverk sem máluð hafa verið með munninum. Lifði mörgum árum lengur en læknar höfðu spáð í björtustu spám. Ef Edda Heiðrún Backman gat bætt líf sitt, þá get ég það og þú líka. Hún er hetjan sem þorði að bjarga sjálfri sér.
Ef þú ákveður að bæta lífið þitt og þína stöðu, þá ertu að bjarga sjálfri þér frá sjálfri þér. Það krefst áræðni og orku. En það skapar líka orku. Sá sem hreyfir sig á hverjum degi býr til sína eigin orku. Ef þú hefur markmið sem þig langar að ná, þá býr það til orku. Orka sem er innra með þér og keyrir þig áfram til að gera betri hluti. Leti býr til meiri leti. Ef þér líður illa, ekki segja: „Ég ætla bara að leggjast í sófann í kvöld, ég er eitthvað svo orkulaus.“ Ég sá viðtal við konu fyrir nokkrum árum. Mig minnir að hún hafi átt 100 ára afmæli en var spræk og var enn að skapa. Gott ef hún var ekki í gullsmíði eða einhverri slíkri skapandi grein og hafði aldrei hætt alveg að vinna. Mig minnir að það hafi verið Ragnhildur Steinunn sem var að taka við hana viðtal. Ragnhildur spurði: „En verðurðu aldrei þreytt og vilt bara setjast í sófann heima, hafa það náðugt og hvíla þig?“ Konan leit á hana og brosti. „Það gerir ekkert gagn. Enda ef ég er þreytt þá virkar miklu betur að fara út að ganga og ganga úr sér þreytuna.“ Ég horfði á þetta viðtal og velti þessu svari mikið fyrir mér. En þetta er rétt. Orka verður ekki til í sófanum. Orkan verður til í náttúrunni, við hreyfingu, við að skapa, við að gera gagn. Við erum ekki eins og síminn okkar sem er settur í hleðslu og er svo fullur orku daginn eftir. Við erum meira eins og sjálftrekkjandi úr sem trekkist upp við það að eigandinn ber það á hendinni en hættir að ganga þegar það er lagt til hliðar.
Nú, ef þú ert enn að lesa, þá ertu annað af tvennu. Orkumikill einstaklingur sem ert löngu búinn að gera eitthvað í málunum. Hugsar inn á við og nærð árangri. Hefur bara gaman af því að lesa þetta af því þú veist að allt sem stendur hér er rétt eða allavega í áttina að því. Eða þá að þig langar virkilega til að breyta lífi þínu og ert tilbúin/n til þess. Ef þú tilheyrir seinni hópnum þá er gott að byrja á að hugsa: Hvað vil ég fá út úr lífinu? Hvað þýðir betra líf? Og svo, hverju þarf ég að breyta til að ná því?
Ótal margir eiga það sameiginlegt að skorta áræðni. Þora ekki að taka skrefið af ótta við að mistakast og að vinna þeirra sé þá til einskis. Þeir sem ná árangri eiga það hins vegar allir sameiginlegt að þeir reyna bara aftur ef það mistekst. Það skiptir engu máli. Mistök eru til að læra af þeim og halda svo áfram.
Settu þér markmið. Skrifaðu þau niður. Ekki hlusta á afsakanir í sjálfri þér. Mundu að sá sem ekki hreyfir sig nær ekki árangri. Sá sem ekki hugsar um mataræðið hefur ekki orku. Sá sem hefur ekki orku vorkennir sjálfum sér. Sá sem vorkennir sjálfum sér leggst í sófann og horfir á heiminn fara framhjá sér í raunveruleikaþáttum. Heimurinn er ósanngjarn og mun ekki vorkenna þér. Og síðast en ekki síst. Sá sem stefnir ekkert nennir engu. Settu þér markmið. Eigðu drauma og eltu þá. Annars ertu eins og laufblað í vindi sem fýkur bara eitthvað og vonast til þess að fjúka ekki í drullupoll.
Nú er ég orðinn svo peppaður eftir að skrifa þetta að ég held ég bara geri eitthvað merkilegt í dag. Ég ætla að bjarga sjálfum mér frá sjálfum mér.
Athugasemdir