Á jörðinni búa um 7.400 milljónir manns. Áætlað er að um 1000 milljónir af þeim búi við gífurlega fátækt (e. extreme poverty) en gífurleg fátækt er gróflega skilgreind sem tekjur upp á minna en $1.25 (um 145 krónur) á dag. Fólk sem býr við gífurlega fátækt hefur almennt ekki greiðan aðgang að hreinu drykkjarvatni, næringu, heilbrigðisþjónustu, menntun og húsaskjóli. Ungbarnadauði er einnig tengdur fátækt en talið er að um 6 milljónir barna deyi fyrir fimm ára aldur. Mikill árangur hefur náðst í barátunni til að útrýma gífurlegri fátækt en frá því árið 1990 hefur hlutfall jarðarbúa sem búa við slík skilyrði lækkað frá yfir 40% og stefnir nú í undir 10%. Þessi árangur er hvað mest áberandi í Kína og Indlandi en á sama tíma hefur fátæku fólki fjölgað í Afríku.
Sameinuðu þjóðirnar hafa sett sem viðmið að þjóðir skulu gefa 0,70% af vergri landframleiðslu í þróunarsjóð Sameinuðu þjóðanna. Eins og stendur gefur Ísland aðeins um 0,24% af vergri landframleiðslu í þennan þróunarsjóð en sex lönd, Svíþjóð, Noregur, Lúxemborg, Danmörk, Holland og Bretland, gefa meira en lágmarksviðmið Sameinuðu þjóðanna segir til um. En það er ekki eingöngu á færi þjóðríkja að berjast gegn gífulegri fátækt heldur geta vellauðugir einstaklingar lagt mikið af mörkum. Auðkýfingar eins og Bill Gates og Warren Buffet hafa verið til fyrirmyndar í þeim efnum og hvatt ríkt fólk, í orði og verki, til þess að gefa af auði sínum til góðgerðarmála í stað þess að geyma auðinn til dæmis í skattaparadísum þar sem hann gerir nákvæmlega ekkert gagn.
Þegar litið er til þess hversu mikill munur er á hag venjulegs fólks á Vesturlöndum og þeim sem búa við gífurlega fátækt liggur ljóst fyrir að getan til að stuðla að breytingum einskorðast hvorki við þjóðríki né moldríka einstaklinga. Við getum flest öll gefið brot af tekjum okkar til góðgerðamála og haft þannig veruleg áhrif til batnaðar á líf annarra án þess að það komi niður á hagsæld okkar svo að nokkru nemi. Í þessu samhengi er stundum nefnt að velmegandi fólk geti hæglega séð af um 1% af mánaðartekjum sínum til góðgerðarmála. Þeir sem eru hálaunaðir geta svo auðvitað gefið hærra hlutfall.
Farið hefur af stað ný hreyfing sem á ensku kallast „Effective Altruism“ sem á íslensku mætti kalla „Skilvirk góðmennska“ en fólk sem aðhyllist og lifir samkvæmt þeirri hugmyndafræði reynir að haga lífinu sínu á þann hátt að það geti gert sem mest gott. Dæmi eru um fólk sem fer í nám sem býður upp á hálaunastörf gagngert til þess að geta gefið sem mestan pening í góðgerðarmál og að fólk tileinki sér lífstíl þar sem það getur gefið stóran hluta tekna sinna í góðgerðarmál. Í þessu felst þó ekki nein stórtæk fórnfýsi hvað varðar lífsgæði því þetta fólk lifir að flestu leyti eðlilegu lífi, en öðlast í ofanálag tilgang og hamingju.
Þegar hér er talað um góðgerðarmál er lykilatriði að verkefni séu valin með það að leiðarljósi að þau séu skilvirk og áhrifamikil. Það er þekkt að fólk á það til að gefa litlar upphæðir til margra góðgerðarmála eða gefa til þess að bjarga ákveðnum einstaklingum í vanda án þess þó að vita með vissu hvort eða hvernig gjöfin komi til með að skila árangri. Í dag eru hins vegar ýmsar stofnanir að störfum sem vinna markvisst að því að meta árangur og störf góðgerðasamtaka og þar með er hægt að taka upplýstar ákvarðanir um hvert maður gefur peningana sína þannig að þeir skili sem mestum árangri. Helstu stofnanir sem meta góðgerðarsamtök eru GiveWell og The Live You Can Save. Dæmi um góðgerðarsamtök sem teljast skila hvað mestum árangri í baráttunni gegn gífurlegri fátækt eru Against Malaria Foundation, Deworm the World og Fistula Foundation. Ein samtök, Give Directly, koma peningum beint til fátækra og hafa þessi samtök, ef til vill ekki í samræmi við viðtekin gildi, sýnt góðan árangur í að bæta líf fátækra fjölskyldna.
Til þess að taka þátt í baráttunni gegn gífulegri fátækt hefur verið stofnað á Íslandi félagið Gefum Saman sem safnar mánaðarlega peningaupphæðum og gefur reglulega í viðurkennt skilvirkt góðgerðarfélag. Nú nýlega gáfum við saman 100.000 krónur, eða rúmlega $850, til Schistosomiasis Control Initiative (SCI). Schistosoma, eða ögður, eru sníkjudýr sem hrjá mörg hundruð milljónir manna. Ögðurnar hafa verst áhrif á börn og geta bæði takmarkað lífsgæði og hamlað þroska. Fyrir 100.000 krónur er hægt að gefa lyf og meðferð til rúmlega 1.900 barna.
Eins og stendur eru aðeins fáeinir einstaklingar að gefa í sjóð Gefum Saman en öllum er frjálst að taka þátt og láta af hendi rakna mánaðarlega upphæð í sjóðinn. Því fleiri sem taka þátt í að gefa saman því meiri verður árangurinn. Sett hefur verið upp Facebook síða félagsins með frekari upplýsingum um Gefum Saman. Takmark félagsins er að gefa reglulega, um fjórum sinnum á ári, til viðurkenndra góðgerðarfélaga sem hafa sýnt fram á að þau skili árangri og gera hvað mest gagn fyrir peningana. Einnig, eftir því hversu vel tekst að safna, er hugsanlegt að einstaka sinnum þá gefi félagið til innlendra góðgerðarmála, bæði til þess að vekja athygli á starfinu og til þess að fá fleiri til liðs við söfnunina. Með því að skrá sig í félagið Gefum Saman ákveður maður upphæð til að gefa mánaðarlega og með hverri gjöf verður sent fréttabréf á póstlista félagsins með upplýsingum um góðgerðarfélagið sem var gefið til, hversu mikið og hvaða áhrif það er talið hafa.
Hjálpumst að við að gera líf þeirra verst settu bærilegra. Tökum skilvirkan þátt í að útrýma gífurlegri fátækt. Gefum saman.
----
Stofnendur félagssamtakanna Gefum Saman eru Benjamín Sigurgeirsson, Jenný Sigurgeirsdóttir og Sigurjón Sigurgeirsson.
Umsóknareyðublað til að taka þátt og frekari upplýsingar má fá í gegnum tölvupóst: gefumsaman@gmail.com.
Athugasemdir