Einhvern tímann á síðasta áratug var haldinn svokallaður þjóðfundur í leikfimissal Íslendinga – Laugardalshöllinni. Fundargestir voru valdir af handahófi og sátu dagsstund og spjölluðu og komu sér saman um eitthvað sem kallaðist „gildi“ – sem er svona PR-hugtak sem enginn skilur nema fólk sem starfar í PR-geiranum. Gildunum var síðan varpað á tjald og þau vinsælustu voru stærri en hin sem höfðu minna vægi. Eitt af stóru gildunum var „friðhelgi einkalífsins“.
Ég man ég staldraði við þetta. Hvað er friðhelgi einkalífsins? Þessi pæling flýgur í gegnum huga mér kannski í þau fáu skipti sem dyrabjöllunni er dinglað seint að kvöldi og ég kannski búinn að hátta mig, skrölti fram og tauta þá kannski eitthvað um friðhelgi einkalífsins með sjálfum mér, en það ristir sjaldnast djúpt því yfirleitt er góð ástæða að baki því að einhver gengur svo langt að dingla bjöllunni hjá mér seint að kvöldi og fylgir þá vanalega kurteisleg afsökunarbeiðni. Viðkomandi er kannski að leita að hundinum sínum eða eitthvað álíka. Einhvern tímann bankaði leikskólakennari sem var í partíi í næsta húsi og bað um að fá að nota klósettið, henni var svo mikið mál.
Ég pæli líka í þessu þegar einhver hringir í heimasímann. Það fyrirbæri er bara svo gamaldags að ég skil ennþá ekkert í því af hverju ég er ennþá með heimasíma, enda hringir enginn í hann nema kannski aldraðir ættingjar eða litlar stelpur að spyrja hvort dóttir mín sé heima – og jú tryggingasölumenn sem vilja endilega hitta mig og fara yfir tryggingarnar mínar.
En þetta gæti semsagt útlagst sem svona smá „bögg“, en ekkert af þessu er í raun árás á eitthvað sem hægt er að kalla einkalíf. Og hvað er einkalíf? Jú, við getum sagt að best sé að kalla það einkalíf þegar maður fer allsber í sturtu – nema reyndar í sundi – þá er það ekki lengur einkalíf. En við getum kallað það einkalíf þegar maður þarf að setjast á klósettið í rólegheitum, sú athöfn fer sjaldnast fram í hóp – það er einkastund sem þarf friðhelgi. Er kynlíf einkalíf? Já, líklega einkalíf á milli þín og annarrar manneskju. Það væri ákveðið brot á friðhelgi kynlífsins ef fleiri væru eitthvað að snuddast í kring.
En hvað er þá eftir? Fjármál? Varla. Auðvelt er fyrir hvern sem er að komast að því hvað hver sem er fær í laun og jafnvel hvað hann eða hún skuldar. Kannski finnst einhverjum að það tilheyri einkalífi en það einkalíf nýtur þá allavega ekki mikillar friðhelgi. Ætli það hafi verið hugsunin þarna á þjóðfundinum? Friðhelgi fyrir tekjublaði Frjálsrar verslunar?
Þetta friðhelgis-hugtak fór svo á flug nú í janúar tengt máli Birnu Brjánsdóttur. Þá kom upp umræðan um hvort of lítið væri af öryggismyndavélum í miðbænum. Þær reyndust nefnilega gera heilmikið gagn í rannsókn þessa sorglega máls, en gallinn þótti sá að þær voru margar full óskýrar og líklega of fáar – mætti ekki fjölga þeim? Og þá fóru fljótt að heyrast mótmælaraddir. Nafni George Orwell var varpað fram. Á „Stóri bróðir“ að geta fylgst með öllum okkar ferðum? Orwell er mikið tekinn þegar fjallað er um friðhelgi einkalífsins.
„Þarna eru stræti og torg og með því að ganga þar ertu bókstaflega að bera sjálfan þig á torg“
En bíðum við. Hér er um að ræða miðbæ í höfuðborg. Hversu miklu einkalífi ætlar maður sér að lifa þar? Er maður að hugsa um að ganga um allsber og kúkandi, stundandi kynlíf og teljandi peningana sína? Varla. Þarna eru stræti og torg og með því að ganga þar ertu bókstaflega að bera sjálfan þig á torg. Á Lækjartorgi ertu sjálfkrafa meðvitaður um að einhver gæti verið að horfa á þig. Og af hverju má það ekki vera til á myndbandi einhvers staðar – ég tala nú ekki um ef það gæti stuðlað að því að týndir myndu finnast?
Í þessu tali kemur internetið gjarnan upp. Um daginn þurfti ég að kaupa kúplingu í 14 ára gamla jeppann minn. Það kom í ljós að eina leiðin til að kaupa þessa kúplingu hérlendis var að reiða fram 400 þúsund krónur til umboðsins. En bifvélavirkinn minn ráðlagði mér frekar að sjá hvort ég gæti ekki fundið þessa kúplingu á netinu og fengið einhvern til að koma henni hingað. Og viti menn – ég fann þessa líka fínu kúplingu á 100 þúsund úti í Bretlandi og velviljaður maður kom henni til mín. Ég sparaði mér því um 300 þúsund krónur á þessum viðskiptum. Það sem hefur hins vegar gerst í kjölfarið er að nú koma iðulega fram auglýsingar um alls konar kúplingar af öllum stærðum og gerðum þegar ég fer inn á Facebook. Þetta er semsagt vegna þess að ég gúgglaði kúplingu og nú heldur internetið að ég sé svo mikill áhugamaður um kúplingar að ég kunni mér vart læti. Er þetta árás á einkalíf mitt? Tja – þetta er allavega staðfesting á því að internetið er að fylgjast með mér. En ókei, ég veit það þó. Að fara á internetið er heldur ekki alveg það sama og að setjast berrassaður á klósettið. Það hefur alltaf verið hægt að fylgjast með öllum sem fara á internetið. Og ég vona að menn fái ekki sjokk þegar þeir heyra að sama hefur alltaf gilt um síma – allt frá því hann var fundinn upp. Símareikningar voru til dæmis varla reiknaðir út frá tilfinningu. Að baki þeim býr staðföst vitneskja símafyrirtækisins um í hvern þú hringdir og hvað þú talaðir nákvæmlega lengi við viðkomandi. Auðvelt var að hlera gamla sveitasímann. Það var raunar vinsæll samkvæmisleikur. Sama gilti með langlínuna í gamla útvarpinu þegar sjómenn hringdu í konurnar sínar í landi.
Auðvitað þurfum við öll stund út af fyrir okkur og að sjálfsögðu þarf trúnaður að ríkja um ýmis mál. Læknar, lögreglumenn, sálfræðingar og prestar eru bundnir trúnaði. En það er ein stétt sem þarf meira á einkalífi að halda heldur en annað fólk – og það eru glæpamenn. Þeir hafa venjulegast meira að fela heldur en venjulegt fólk og ef þeir héldu ekki hlífiskildi yfir einkalífi sínu væru þeir vísast í vondum málum. Glæpamenn þrífast í myrkrinu og friðhelgi einkalífsins er vatn á þeirra myllu.
Friðhelgi einkalífsins er þá kannski fyrst og fremst fyrir þá sem hafa eitthvað að fela. En hugtakið virkar hins vegar þannig að allir sem heyra kinka ósjálfrátt kolli – jú auðvitað þarf að standa vörð um friðhelgi einkalífsins. Við viljum nefnilega öll halda í möguleikann á að geta falið okkur.
Athugasemdir