Eftir allt uppgjörið áttu að koma ný stjórnmál þar sem fólk kæmi fram af heilindum og auðmýkt, frekar en yfirgangi og eineltiskenndri framkomu í garð annarra.
Við vildum ekki lengur láta stjórnast af freka karlinum sem gerir lítið úr öðrum, svarar spurningum með stælum og útilokar þá sem ekki gera það sem hann segja.
En freki karlinn er ekki farinn. Hann er að vinna Alþingiskosningarnar 2016.
Freki karlinn telur að allt sem aðrir gera sé glatað. Honum finnst það, réttara sagt, en hann segist alltaf „telja“ eða „hyggja“, þegar hann heldur eitthvað eða heldur einhverju fram.
Enginn annar má stjórna en freki karlinn, að mati freka karlsins.
Hver er freki karlinn?
Freki karlinn er ekki einn einstaklingur, eða hópur þeirra, heldur tegund framkomu og framsögu. Við getum öll orðið freki, þegar okkur hentar, og stundum virkar það.
Í kosningabaráttunni hefur Bjarni Benediktsson beitt aðferðum freka karlsins. Hann hefur markvisst gert lítið úr öðrum frambjóðendum, gripið markvisst fram í fyrir þeim og ásakað þá og aðra um lygar án rökstuðnings.
Þegar önnur en Bjarni ræddu saman um að stjórna landinu í sameiningu og láta vita fyrirfram hvaða málamiðlanir þeir ætluðu að gera ef þau yrðu kosin, frekar en að svíkja stór kosningaloforð af því að það hentar þeim, gerði hann lítið úr þeim: „Þetta er bara eitthvað flopp,“ sagði hann.
Hann sagði ekkert merkilegt við að aðrir hefðu komið saman til að lýsa áhuga á samstöðu gegn því að hann stjórnaði áfram og gerði lítið úr þeim. „Það þurfti enga kaffihúsafundi til þess að koma því til fólks.“
Á fundi frambjóðenda í gær spurði maður nokkur út í það hvernig á því stæði að tveir frambjóðendur hefðu verið með eignir faldar í skattaskjólum, svaraði hann:
„Það er búið að ljúga þig fullan af svona frambjóðendum eins og eru hér uppi í pallborðinu. Þetta er bara röng fullyrðing sem ég harma að þú sért búinn að éta upp.“
Hins vegar hafði hann á sínum tíma sagt í sjónvarpsviðtali að hann ætti engar eignir í skattaskjóli. Svo þegar upp komst sagðist hann ekki hafa vitað af því að hann ætti þriðjungshlut í skattaskjólsfélagi á Seychelles-eyjum sem hélt utan um fasteignir.
Og samflokksmaður hans, varaformaðurinn hans, var með umboð fyrir félag á Bresku Jómfrúareyjunum, sem þýðir að hún er sá einstaklingur sem framkvæmir fyrir félagið. En það var vegna þess að eiginmaður hennar, sem átti von á erlendum greiðslum, en er búsettur hér á landi, huggðist eiga viðskipti í skattaskjóli.
„Lygar og uppspuni“
Þegar kjósandi deildi grein af Stundinni á Facebook-vegg Bjarna, um hvernig hann hefur ítrekað beitt þeirri vörn fyrir vafasamri stöðu, gjörningum sínum og hagsmunaárekstrum, að hann hafi ekki vitað af hlutunum, svaraði Bjarni einfaldlega: „Lygar og uppspuni“. Án þess að rökstyðja það með nokkrum hætti.
Í tilraun til að bregðast við athugasemdunum og greina þær sendi blaðamaður Stundarinnar tölvupóst á hann og tvo aðstoðarmenn hans og bað hann að útskýra hvað væri rangt í greininni um fyrri svör hans, en hann hefur ekki svarað.
Neitar að svara spurningum
Bjarni var eini flokksformaðurinn sem neitaði að svara spurningum Stundarinnar í sérstöku kosningablaði, þar sem formennirnir fengu lista af spurningum, meðal annars gagnrýnar spurningar um fyrri orð og gjörðir í stjórnmálum. Hann var ósáttur við spurningarnar en neitaði að útskýra hvaða spurningar hann væri ósáttur við og vildi ekki svara bara þeim sem hann væri sáttur við.
Þeir sem gagnrýna stefnu hans hafa fengið að heyra það frá eiginkonu hans að þeir séu „vanvitar“ og að þeir eigi að „vera úti“.
Þegar greint var frá því að Bjarni hafi hækkað skattbyrði 80% tekjulægri hluta þjóðarinnar, en lækkað skattbyrði 20% tekjuhæstu, svaraði hann því að menn væru að skrifa „misviturt“ og sagði á móti að tekjulægra fólkið borgaði hvort eð er eiginlega engan tekjuskatt. „Í rauninni eru það aðeins tekjuhæstu 30% framteljenda sem standa undir tekjum ríkissjóðs af tekjuskattskerfinu.“
Bjarni Benediktsson gerði lítið úr Pírötum: „Mér finnst þetta varla vera stjórnmálaflokkur.“
Útmálar „þetta fólk“
Í kosningaþætti Stöðvar 2 á fimmtudagskvöld var ljóst að einn karlinn ætlaði að taka þar stjórnina og yfirtaka umræðurnar til að fyrirbyggja að sjónarmið annarra heyrðust vel.
Hann greip fram í fyrir hinum, talaði um hvernig „þetta fólk“ væri að búa til deilur með því að vilja innleiða stjórnarskrána sem þjóðin samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu gegn vilja hans. „Þetta fólk, það vill knýja fram nýja stjórnarskrá með átökum á Alþingi“.
Þegar annar frambjóðandi sagði að stjórnmálamenn þyrftu að endurheimta traust með því að hlusta á niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna, standa við loforð og innleiða stjórnarskrá sem hefði verið mótuð með þjóðkjörnu stjórnlagaráði og samþykkt af þjóðinni í beinu lýðræði svaraði Bjarni: „Þetta eru ótrúleg öfugmæli, að segja, nú verðum við að skapa frið og ró í þessu samfélagi, skapa betri sátt. Leggjum af stað í leiðangur um aðild að Evrópusambandinu og tökum stjórnarskrána og tökum stjórnarskrána og rífum hana í tætlur og hendum henni í ruslið.“
Þetta snýst ekki um einn mann
Freki karlinn er gamaldags aðferð við framkomu og framsögu í stjórnmálum. Aðferð sem verður ekki fyllilega úrelt fyrr en fólk hættir að kaupa hana.
Vandamálið er að því lengur sem freki karlinn er við völd og gerir það sem frekir karlar gera, og getur ekki svarað fyrir það nema með skætingi, útúrsnúningi og útilokun, því verri verður hann. Frekjan verður leið hans til valda og frekjan verður stjórnunarstíll hans við völd.
Frekja veldur valdasamþjöppun og kemur í veg fyrir lausnadrifna þjóðfélagsumræðu. Hún er raunverulegt, samfélagslegt og efnahagslegt vandamál.
Ef fólk hlýðir freka karlinum heldur hann áfram. Því meðvirkari sem við verðum honum, þess fleiri beita aðferðum hans til að ná fram vilja sínum. Það væri synd, því við höfum líklega aldrei haft úr að velja jafnmörgum frambjóðendum og flokkum sem eru ekki frekir heldur fremur auðmjúkir.
Athugasemdir