Vinur minn var myrtur á dögunum. Stunginn til bana úti á götu um hábjartan dag. Bara sisona.
Dauði hans var öllum sem til hans þekktu mikil harmafregn. Landar hans gengu um götur og syrgðu hann, rétt eins og við hér heima syrgðum unga konu sem var tekin frá okkur á jafn óvæntan og ósanngjarnan hátt.
Ég kynntist Fouad þegar ég dvaldi á Vesturbakkanum árið 2014. Hann hefði getað sigrað heiminn með brosinu einu saman. Þvílíkur missir fyrir okkur öll.
Þegar ég frétti af dauða hans varð ég strax sannfærð um að Ísraelsher hefði tekið líf hans. Eins fáránlega og það hljómar, þá er það bara vaninn þegar váleg tíðindi berast frá vinum á Vesturbakkanum. Herinn. Ógnarvaldið sem hefur áratugum saman tekið sér vald til að ráða örlögum fólks.
En það var ekki herinn sem drap Fouad. Ég veit ekki hver gerði það. Mögulega og mjög sennilega var það landi hans. Einhver sem sá ástæðu til þess að enda líf hans. Eða tók kannski enga sérstaka ákvörðun um það, gerði það bara.
Þegar mér varð ljóst að morðingi Fouads var að öllum líkindum Palestínumaður fann ég að ég hikaði við að tala opinberlega um dauða hans. Það hefði verið svo sjálfsagt ef morðingi hans hefði verið ísraelskur hermaður. Fulltrúi ógnarvalds sem tekur svo mörg líf og á skilið að heimurinn viti af illskunni sem hann stendur fyrir. Holdgervingur hins illa, manneskja af holdi og blóði sem hefur veiðileyfi á heila þjóð, með þöglu samþykki heimsins. En það var ekki þannig.
Hikið kom ekki til af því að ég trúi engu illu upp á Palestínumenn. Þar eins og annars staðar býr líka fólk sem beitir ofbeldi. Fremur voðaverk eins og þetta, glæp sem enginn skilur. Í öllum samfélögum er bæði gott og vont fólk, líka í Palestínu.
Hikið kom til vegna þess að í hvert sinn sem Palestínumaður fremur glæp, þá hlýtur öll Palestína harðan dóm.
Þegar ég dvaldi á Vesturbakkanum fann ég að spurningarnar sem fólk spurði mig beindust svo oft að ábyrgð þolenda – palestínsku þjóðinni. Það kom mér á óvart hve margir virtust hafa ríka þörf fyrir að koma því á framfæri í tíma og ótíma að íbúar Palestínu ættu líka sína sök í „deilunni“, eins og hernámið er oft ranglega nefnt bæði í fjölmiðlum og af almenningi.
„Það var ekki herinn sem drap Fouad. Ég veit ekki hver gerði það.“
Palestínska þjóðin eins og hún leggur sig eru þolendur hernáms Ísraels, alveg sama hvaða mann ólíkir einstaklingar sem mynda þessa þjóð hafa að geyma. Þeirri staðreynd breyta ekki hugmyndir fólks um einstaklinga með palestínskt ríkisfang. En það að fólk tilheyri sömu þjóð og séu þolendur sama kúgara gerir það ekki líkt. Það gerir það ekki heilagt og gerir það allra síst að einni manneskju með eina skoðun, ákveðna hegðun eða ákveðin karaktereinkenni. Með því að tala um heila þjóð á þann hátt afmanneskjuvæðum við einstaklingana sem mynda hana. Og ekkert eykur styrk kúgarans en hugmyndir heimsins um að þolendur hans séu ekki manneskjur af holdi og blóði. Að þau séu ekki við. Að við séum ekki þau.
Það er alltaf erfitt að kyngja því þegar venjulegt fólk verður fyrir hrottalegu ofbeldi og óréttlæti. Þegar fréttir berast af slíku förum við strax að leita að ástæðu, en alltof oft fer fólk að leita hennar hjá þeim sem fyrir ofbeldinu verður. Kannski er það leið okkar til að sannfæra okkur sjálf um að við getum varið okkur gegn slíku. Að ef við högum okkur öðruvísi, þá sleppum við kannski. Ég skal ekki segja.
Fólk fer að velta fyrir sér klæðaburði konunnar sem var nauðgað. Trúarbrögðum mannsins sem var myrtur. Pólitískum skoðunum hópsins sem varð fyrir árásinni. Svona eins og þau hljóti eitthvað að hafa gert til að verðskulda ofbeldið. Gert eitthvað rangt. Misstigið sig. Að ábyrgðin sé ekki bara gerandans. Hún var svo full. Hann var svo reiður. Þau voru svona, þau voru hinsegin.
En skýringar ofbeldis er ekki að finna í hegðun eða skoðunum þolanda þess. Aðeins gerandi getur borið ábyrgð á ákvörðun sinni um að beita annað fólk ofbeldi. Að nauðga því, að myrða það, að kúga það, að hernema land þeirra og þjóð. Stundum er ofbeldið stundarbrjálæði og stundum er það skipulagt af valdhöfum. Stundum varir það í augnablik en stundum líka í áratugi. Alltaf virðist fólk samt sjá ástæðu til að leita skýringa í fari þolenda. Aftur og aftur.
Þess vegna hikaði ég við að tala um ofbeldið sem dró Fouad til dauða. Því Palestína drap hann ekki, heldur maður sem nú er morðingi. Bæði Fouad og morðingi hans mynda palestínska þjóð. Eins og foreldrar þeirra og nágrannar. En þeir eru ekki eins. Það eina sem þeir eiga sameiginlegt er þjóðernið.
Palestínumenn beita ólíkum aðferðum til að spyrna gegn hernáminu, á því leikur enginn vafi. En hernámið kom á undan andspyrnunni og því getur skýringa á því varla verið að finna í ólíkum aðferðum ólíkra einstaklinga til að spyrna gegn því. Skýringa hernámsins er ekki að finna í hegðun mannsins sem myrti Fouad, ekki frekar en í brosi þess síðarnefnda. En mögulega verður þeirra leitað í tilhneigingu heimsins til að leita skýringa á röngum stöðum. Að einbeita sér að afleiðingum ofbeldisins í stað þess að ráðast gegn rótum þess – sjálfu hernáminu.
Auðvitað á palestínska þjóðin ekki sök á því að óður morðingi tók líf vinar míns. Ekki frekar en hún á sök á því að hernám Ísraelsríkis á landi þeirra fær að viðgangast áratug eftir áratug. En hvernig á að koma heimi sem leitar skýringa ofbeldis hjá þolendum þess í skilning um það?
Athugasemdir