Fyrir 100 árum ríkti mikill ójöfnuður á Íslandi, ríkir karlar stjórnuðu landinu og konur og vinnumenn réðu svo að segja engu. Það voru því stórmerkileg tíðindi þegar konur loks fengu þann sjálfsagða rétt að kjósa og því höfum við fagnað allt síðastliðið ár bæði með því að heiðra minningu þeirra kvenna sem tóku baráttuna fyrir okkur allar og með því að benda á það sem enn er ábótavant. Þrátt fyrir að Ísland teljist það ríki þar sem mest jafnrétti ríkir þá er enn nokkuð langt í land og þar til fullu jafnrétti er náð þurfum við femínisma og baráttu fyrir jöfnum rétti og tækifærum karla og kvenna.
Það er full ástæða til að rifja reglulega upp sögu og afrek þeirra kvenna sem höfðu kjark á tímum misskiptingar til að krefjast kvenréttinda og þeirra sem hafa haldið áfram baráttunni. Segja má að samstaða kvenna á Íslandi síðustu hundrað árin hafi komið okkur á þann stað í jafnréttisbaráttunni sem við erum á í dag og hafa þar kvennalistar, kvenréttindafélög og verkakvennafélög skipt hvað mestu. Það var því einkar gleðilegt að á 100 ára afmælisári kosningaréttarins urðum við vitni að femíniskri byltingu sem átti sér upptök víða í samfélaginu og sérstaklega meðal ungra kvenna sem ætla ekki að láta bjóða sér misskiptingu á grundvelli kyns. Meðfram virðulegum afmælisviðburðum var hávært ákall um réttlæti fyrir konur og stúlkur í gangi svo að segja allt árið, án þess að það væri skipulagt eða samhæft á neinn hátt.
„Til að þessi draumur okkar verði að veruleika þurfa karlar að afsala sér fastmótuðum samfélagslegum kynjakvótum sínum sem hafa tryggt þeim betri störf, fleiri tækifæri og hærri laun en konum.“
Við sáum #6dagsleikinn þar sem konur sögðu frá hvernig kynjamisrétti þær mæta dags daglega, #þöggun þar sem konur sögðu frá því kynbundna ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir, #konurtala, #skilumskömminni í tengslum við Druslugönguna, #freethenipple eða frelsum geirvörtuna átakið þar sem konur bæði beruðu brjóst sín á netinu og á götum úti. Fólk málaði andlit sín gul eða appelsínugul eða setti slíkar myndir á samfélagsmiðla til að gefa til kynna hvort það hefði orðið fyrir kynferðisofbeldi eða þekkti einhvern sem hafði orðið fyrir því. Fjöldi myndanna og sögurnar sem fylgdu í kjölfarið voru ótrúlega áhrifaríkar, og samstaðan sem myndaðist meðal ungra kvenna á Beuty tips var stórkostleg. Ungt fólk mótmælti því að það mætti ekki mæta í magabolum í skólann og Skrekk-atriði Hagaskóla var eins og hressandi vítamínsprauta fyrir alla sem vilja jafnrétti. Meira að segja börn sjá hvað þetta kynjakerfi okkar er galið og að misskipting valds er hættuleg og bitnar á öllum í samfélaginu sama hvort um er að ræða konur eða karla, börn, hinsegin fólk, transfólk, fatlað fólk, veikt fólk og fólk af ólíkum uppruna. Jafnréttisbaráttan snýst einmitt um valddreifingu á heimilum og í samfélaginu öllu af því að misskipting valds er hættuleg eins og kynbundið ofbeldi sannar. Eftir allt þetta er röðin komin að kjörnum fulltrúum og embættismönnum að meðtaka af fullri alvöru skilaboð ungra Íslendinga sem krefjast þess að allir fái að vera þeir sjálfir, allir fái sömu tækifæri og að fólk geti lifað hér án ofbeldis.
Draumurinn um samfélag jafnréttis næst með samstilltri og öflugri femíniskri byltingu sem skilar okkur því að karlar og konur verða jöfn. Til að þessi draumur okkar verði að veruleika þurfa karlar að afsala sér fastmótuðum samfélagslegum kynjakvótum sínum sem hafa tryggt þeim betri störf, fleiri tækifæri og hærri laun en konum. Kynjakerfið í okkar samfélagi er þrátt fyrir þetta ekki gott fyrir karla þó það umbuni þeim umfram konum, körlum líður illa, þeir beita ofbeldi og taka líf sitt í meira mæli en konur. Með meira jafnvægi í ábyrgð á fjölskyldulífi og launaðri og ólaunaðri vinnu mun öllum líða betur bæði sem einstaklingum og okkur sem samfélagi mun vegna betur.
Nú hafa ráðamenn Íslands tækifæri til að setjast niður og meðtaka hin skýru skilaboð femínisku byltingarinnar 2015. Ef við öll opnum hjarta okkar og hleypum inn manngæsku og kærleika til alls fólks og samstöðu um að byggja á Íslandi samfélag þar sem allir standa jafnir þá getum við það. Gerum árið 2016 að árinu þar sem við tökum byltingarkennd skref í þá átt að breyta draumnum um að allir Íslendingar búi við jöfn tækifæri og frelsi til að eiga gott líf á eigin forsendum, í veruleika.
Athugasemdir