Nú sest hið langmetta fólk að alsnæðingi og þá kviknar spurningin: Erum við góð þjóð?
Þrátt fyrir að árið og álfan hafi séð mesta flóttamannastraum frá stríðslokum er enn enginn Sýrlendingur kominn til landsins. Erum við góð þjóð?
Stundum er það rifjað upp hversu köld og vond við vorum á stríðsárunum þegar fáum sem engum Gyðingum var veitt hæli hér, en því miður virðist okkur ekkert hafa farið fram.
Erum við góð þjóð?
Hluti þjóðarinnar sendi skýr skilaboð fyrr í haust og sendi ákall sitt á Kæra Eygló, fór og skráði sig til hjálpar uppí Rauða krossi og sagðist nánast til í allt, en samt er enginn kominn enn. Erum við góð þjóð?
Það mun reyndar von á góðum hópi Sýrlendinga í janúar, en á sama tíma erum við að senda sýrlenska fjölskyldu úr landi. Erum við góð þjóð?
Við erum nýbúin að senda 27 manns úr landi um miðja nótt. Erum við góð þjóð?
Með því að gera hneykslunarbylgju umhverfis Alþingishúsið tókst fólki að bjarga tveimur albönskum barnafjölskyldum aftur hingað í læknaskjól og þetta framtak átti að gefa okkur góð friðþægingarjól, en um leið var tekið fram að sú undantekning hefði alls „ekkert fordæmisgildi“. Erum við góð þjóð?
Í þeim töluðu orðum var síðan samþykkt að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun. Erum við góð þjóð?
Á sama tíma reis önnur henykslunaralda vegna þess að einhver hafði spreyjað orðið Fasistar á glugga Útlendingastofnunar sem því miður var þó alltof nálægt því að vera réttnefni. Erum við góð þjóð?
Stofnunin hafði fyrr á árinu viljandi gleymt að skrá börn hælisleitaneda í skóla, sem þó var skýlaus réttur þeirra. Erum við góð þjóð?
Að þessu spurði ég mig líka í Ungverjalandi í haust þar sem mafíustjórnin þarlend leit á flóttamannastrauminn sem „múslímska innrás“ og veitti ekki nokkrum manni hæli, ekki frekar en við Íslendingar höfum gert, nú fjórum mánuðum síðar. Erum við góð þjóð?
Þjóðverjar tóku við tæpri milljón flóttamanna. Erum við góð þjóð? „Wir schaffen das“ sagði Angela Merkel. Erum við góð þjóð?
Samkvæmt því hlutfalli ættum við að taka við 4.000 flóttamönnum. Erum við góð þjóð? Hér fengu 11 hæli 2013, 28 árið 2014. Erum við góð þjóð?
Við erum líklega of upptekin í okkar eigin tilveru til að geta myndað stöðugan hneykslunaröldugang umhverfis Alþingishúsið. Erum við góð þjóð?
En við erum með fólk í þessum málum, fólk sem sum okkar kusu til þess arna. Erum við góð þjóð?
Ég hef sjálfur ekkert gert nema skrá mig á lista í Rauða krossinum og skrifa statusa. Erum við góð þjóð?
Enn er enginn pólskur eða tælenskur þáttur á RÚV. Erum við góð þjóð?
Enn hefur enginn nýbúi spilað með fótboltalandsliðunum okkar. Erum við góð þjóð?
Enn eiga innflytjendur engan fulltrúa á Alþingi. Erum við góð þjóð?
Á dögunum var kvartað yfir því að veðurfréttir væru lesnar með þýskum hreim. Erum við góð þjóð?
Ég fór í bankann í morgun og fékk svo góða afgreiðslu hjá búlgarska þjónustufulltrúanum að ég gat ekki setið á mér og spurði frá hvaða landi hún væri (hún tók því reyndar vel en þetta hlýtur þó að vera þreytandi eins og maður hefur fundið svo oft). Erum við góð þjóð?
Æ, við eigum svo langt í land, eins og þær hundruðir og þúsundir manna sem leita betra lífs á götum og í almenningsgörðum Evrópu, þær eiga líka ansi langt í okkar land, og þá er síðan Útlendingastofnun að mæta. Erum við góð þjóð?
Þetta er spurningin sem mætir manni liggjandi á tóma diskinum á aðfangadagskvöld, rétt áður en átið hefst. Erum við góð þjóð?
Getum við kannski einhverntíma orðið það? Samanburðurinn við stríðsárin bendir reyndar ekki til þess, (nú eru 70 ár liðin) en samt má reyna að vona.
Gleðileg jól til allra Kæru Eyglóa ársins! Reynum allavega að verða betri þjóð.
Pistillinn er einnig birtur á Facebook-síðu Hallgríms.
Athugasemdir