Siðferði í stjórnmálum var vinsælt umræðuefni, að minnsta kosti á samfélagsmiðlum, í aðdraganda alþingiskosninganna á Íslandi og hafði ef til vill einhver áhrif á úrslit þeirra, samanber fylgishrun Framsóknarflokksins sem að einhverju leyti má skrifa á reikning (meintra) siðferðisbresta fyrrverandi flokksformanns. Hér í Bretlandi hefur kastljósið beinst að tveimur stjórnmálamönnum nýverið og meintum löstum þeirra.
Komið hefur í ljós að helsti talsmaður Brexit, Boris Johnson, skrifaði drög að tveimur vikulegum pistlum í Daily Telegraph þegar Brexit-kosningar voru í aðsigi, annan með Brexit en hinn á móti. Þess má geta að Boris þáði 35 milljóna króna árslaun frá dagblaðinu fyrir þessa vikulegu pistla, meira en tvöfalt þingfararkaup, sem sumir telja ámælisverða græðgi út af fyrir sig. En látum það liggja milli hluta. Ásteytingarsteinninn hér er að Boris lék tveimur skjöldum fyrir kosningarnar og virðist hafa tekið ákvörðun um hvorn pistilinn hann birti einungis í ljósi eiginhagsmuna í pólitísku kapphlaupi um völd og frama. Boris hefur raunar ekki neitað þessu heldur gert góðlátlegt grín að eigin valkreppu og endanlegu vali – eins og honum er einum lagið. Það sem væri talið dæmi um löstinn tvöfeldni hjá venjulegu fólki skilur Boris sem dygð í fari stjórnmálamanns eins og hans sjálf.
Vinsældir í kjölfar tvöfeldni
Forsætisráðherrann Theresa May var andsnúin Brexit fyrir kosningar en skipti um skoðun eftir að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar lá fyrir og er nú orðin fræg fyrir vígorð sitt að „Brexit þýði Brexit“ (sem enginn veit þó nákvæmlega hvað merkir). Slík hughvörf eru í sjálfu sér ekki ámælisverð enda hægt að færa rök að því að góður stjórnmálamaður fylgi almannavilja. Á síðustu dögum hafa blaðamenn hins vegar grafið upp gamlar ræður frá Theresu þar sem hún færir sterk rök fyrir því að (a) ekki megi virkja „Grein 50“, sem hefur úrsagnarferlið úr ESB, nema í kjölfar atkvæðagreiðslu í þinginu og (b) mikil efnahagsvá steðji að Bretlandi eftir að landið gengur úr ESB. Hún hefur hins vegar talað þvert gegn þessum skoðunum á síðustu vikum án þess að láta nokkur orð falla um að hún hafi verið á öndverðum meiði við þær áður eða gefa neinar skýringar á skoðanaskiptunum. Hjá venjulegu fólki væri þetta kallað óheiðarleiki, sem er löstur, en fylgismenn Theresu virðast ekki leggja þetta henni til lasts og hún nýtur enn mikilla vinsælda í skoðanakönnunum meðal almennings.
Við fyrstu sýn að minnsta kosti virðist eitthvað siðferðilega bogið við það sjónarmið að siðferðislestir venjulegs fólks geti verið dygðir (það er mannkostir) hjá stjórnmálamanni. Hyggjum samt að tveimur hugsanlegum andmælum. Fyrri andmælin ganga út frá almennri siðferðilegri afstæðishyggju: að allt tal um siðferði, þar með talið um dygðir og lesti, sé afstætt við samfélög, trúarbrögð og jafnvel einstaklinga. Páll heitinn Skúlason kenndi róttækasta afbrigði slíkrar afstæðishyggju við „sjálfdæmishyggju“ (súbjektífisma). Siðferðileg afstæðishyggja hefur hins vegar beðið skipbrot á síðustu árum með víðtækum rannsóknum á mankostum og mati á þeim í ólíkum samfélögum og ólíkum menningarheimum, sem benda til mikils einhugar í þessum efnum. Almenningur – óháð menningu og trúarskoðunum – virðist meta nokkurn veginn sömu dygðir, einkum heiðarleika, góðvild og þakklæti, og forgangsraða þeim á ótrúlega líkan hátt.
Dygðir afstæðar eftir stöðu
Síðari andmælin snúast hins vegar um að mannkostir og lestir séu, að einhverju leyti að minnsta kosti, afstæðir við félagslegt hlutverk eða stöðu. Aristóteles, sjálfur faðir dygðakenninga í siðfræði, viðurkenndi þetta og gerði sér mat úr. Hann benti meðal annars á að hófsemi í mataræði birtist, sem dygð, á gjörólíkan hátt hjá Ólympíukappa og kyrrsetumanni. Hann skilgreindi einnig tiltekinn hóp fólks, sem hann kallaði „stórmenni“, fólk sem hefði aðgang að miklum auðæfum og völdum og bæri skylda til að gerast velgjörðarfólk almennings. Það sem við myndum kalla venjulega gjafmildi hjá okkur væri smásálarskapur hjá þeim; stórmenninu bæri að eyða tíma sínum í að byggja glæsileg mannvirki og halda stórar veislur í þágu almennings – og stunda þannig örlæti í stærri stíl en venjulegu fólki er kleift. (Við getum hugsað okkur Bill Gates sem aristótelískt „stórmenni“ í nútímanum.) Jafnframt veitti Aristóteles stórmenninu undanþágu frá ýmsum hefðbundnum notalegheitum sem við köllum mannkosti hjá venjulegu fólki, svo sem að sýna þakklæti og tillitssemi í stóru sem smáu, þar sem stórmennið hefði svo mikið fyrir stafni að það hefði ekki tíma til að sinna litlu kurteisisskyldunum.
Tökum eftir því að jafnvel þótt við föllumst á kenningu Aristótelesar um stöðubundið afstæði dygða þá hjálpar það naumast til að réttlæta tvöfeldnina og óheiðarleikann sem dæmi voru tekin um að framan. Aristóteles tilgreinir hvernig félagslegt hlutverk geti breytt (a) birtingarmyndum og (b) forgangsröðun dygða; það væri hins vegar fjarri honum að segja að slíkt hlutverk geti breytt eðlislægum lesti í dygð eða öfugt. Þar sem flestar nútíma kenningar um starfsdygðir í stjórnmálum eða viðskiptum eru tilbrigði við stef úr kenningu Aristótelesar er því hæpið að hægt sé að finna réttlætingu á gjörðum Boris og Theresu í hefðbundnum dygðafræðum, eins og þau eru kennd í háskólum nútímans.
Óheiðarleiki sem eiginleg dygð
Þess ber þó að geta að til er afbrigði starfsbundinna dygðafræða sem gengur út frá því að starfsbundnu dygðirnar séu sérdygðir fremur en mismunandi birtingarmyndir almennra dygða á afmörkuðum sviðum, til dæmis stjórnmálalífs eða viðskipta, eins og Aristóteles gerði ráð fyrir. Hugmyndin að baki þessu er sú að dygðir hafi notagildi fremur en eigingildi: dygð á sviði X sé þannig sérhver sú skapgerðarvenja sem þjóni þeim markmiðum sem svið X stefnir að – en ekki einungis almenn dygð, eins og heiðarleiki, löguð að eðli X. Ef við gerum svo ráð fyrir því að höfuðdygð viðskiptalífsins sé gróði og höfuðmarkmið stjórnmála völd er auðvelt að sjá hvernig nýta má þessa almennu kenningu til að rökstyðja að tvöfeldni Boris og óheiðarleiki Theresu séu í raun dygðir á því stjórnmálalega leiksviði sem þau hafa gert að sínu. Það eru meira að segja til lærð rit sem færa rök að því að kaldlyndi sé mannkostur í fari stjórnanda (sem stjórnanda) þar sem hann láti þá síður tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur.
Er rétt að völdin séu takmarkið?
Spurningin sem við hljótum að spyrja okkur er hins vegar sú hvort við föllumst á sérdygðakenninguna. Og jafnvel þótt við gerum það blasir önnur og enn mikilvægari spurning við: Er það rétt að höfuðmarkmið viðskiptalífsins sé gróði og stjórmálastarfs völd? Einhver lesandi mun vonandi malda í móinn og benda á að höfuðskylda stjórnmálamanns sé að þjóna almannahagsmunum með því að efla farsæld í samfélaginu. Farsæld er siðferðilegt hugtak. Það er afskaplega hæpin skoðun að hægt sé að efla siðferðileg gildi á borð við farsæld með því að rækta almenna siðferðilega lesti, svo sem óheiðarleika, þó á afmörkuðu sviði sé.
Mikið hefði verið skemmtilegt, í aðdraganda alþingiskosninganna á Íslandi, að fá skýrari skilgreiningar frá flokkum og frambjóðendum á því hvaða skilning þeir leggja í farsældarhugtakið og hvernig þeir telja að persónulegir mannkostir (eða hugsanlega lestir?) stjórnmálamanna stuðli að almennri farsæld í samfélaginu. En það var kannski til of mikils mælst.
Athugasemdir