Um leið og ég lyfti tjöldunum til að skoða sviðsmynd einkasjúkrahússins sem boðað var í fréttum Ríkisútvarpsins miðvikudaginn 21. júlí sl. fannst mér ég hafa séð hana áður. Þetta var eiginlega dæmigerð „déjà vu“ sviðsmynd. Eða því sem næst. Eftir nokkurra daga rannsóknarvinnu hefur ýmislegt komið í ljós en eflaust er margt enn hulið sjónum.
Við munum sjálfsagt öll eftir hruninu og höfum rifjað sitthvað upp sem gerðist í aðdraganda þess og eftirmálum. Auðmenn fluttu fé í skattaskjól fyrir hrun, í hruninu og eftir, risastórar fjárhæðir og misvel fengnar. Eftir hrun mættu alls konar erlendir lukkuriddarar og vildu kaupa upp landið og helst miðin líka. Enginn vissi hverjir þeir voru eða hverjir væru á bak við þá.
Eins og kom fram í áðurnefndum fréttatíma lítur eignarhaldið svona út:
Byrjum á byrjuninni: MCPB ehf. Lögmannsstofur og endurskoðendur eru með félög og kennitölur í kippum sem hægt er að kaupa. Þær eldri virka áreiðanlegri þótt um nýstofnuð félög sé að ræða. En það er ekki hægt að fela þetta. Þannig er MCPB ekki stofnað 1997 þótt kennitalan gefi það til kynna, heldur er breytt um nafn á félagi kennitölunnar 28. apríl 2016. Eins og sjá má á þessari tengslamynd er Hendrikus Eberhard Middeldorp (a.k.a. Henri Middeldorp) stjórnarformaður félagsins og meðstjórnandi er Gunnar Ármannsson - fyrrverandi framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands til margra ára. MCPB ehf. hefur hvorki vefsíðu né skráð símanúmer á Íslandi.
Næsti liður í eignarhaldinu er Burbanks Holding B.V. Vefsíða félagsins er frontur, ekkert virkar á henni nema tengill beint í Burbanks Capital. Ég finn ekki skráð heimilisfang BH á Google-maps og ekkert símanúmer er gefið upp. Textinn er á hollensku og orðið „sjálfbær“ (sustainable) áberandi. Fallegt. Þarna virðist verið að óska eftir fjárfestum í sjálfbær verkefni - og takið vel eftir því hver verkefnin eru - þau eru aðeins þrjú:
Hringja bjöllur? Íslenskar auðlindir? Eins og áður er getið er þetta óvirk síða að öðru leyti en því að hún vísar í Burbanks Capital. Þar eru líka þrjú meginverkefni og fjárfestingarkostir - getið hvaða?
Burbanks Capital er reyndar ekki nefnt í frétt RÚV, en þar sem Burbanks Holding er galtómur frontur og vísar bara á BC verður að gera ráð fyrir að BC sé með í leiknum. Enn er textinn bara á hollensku svo álykta má að annað hvort sé aðeins verið að leita að hollenskum fjárfestum - eða engum. Alltént ekki alþjóðlegum.
Á heimasíðu Burbanks Capital er „hinum heimsfræga hjartalækni“ (hann er ekki hjartaskurðlæknir) Pedro Brugada mikið hampað. Ég gúglaði hann fram og til baka og varð mjög undrandi hve lítið ég fann um þennan heimsfræga lækni. Til dæmis var ekkert um hann á ensku útgáfu Wikipedia. Hann lærði á Spáni og hefur mestmegnis unnið í Hollandi og Belgíu. Virðist lítið sem ekkert koma við sögu annars staðar í veröldinni. Alveg heimsfrægur... eða hvað?
Næstur í eigendaröðinni er hinn hollenski Henri Middeldorp, sem sagður er fyrrverandi bankamaður. Hann er með lögheimili í Belgíu en íslensk eiginkona hans í Reykjavík. Henri, eða Hendrikus, hefur svolitla viðskiptasögu á Íslandi og er með íslenska kennitölu eins og sjá má hér:
Umsvifin eru ekki stórvægileg og ekkert sem bendir til að maðurinn sé milljarðamæringur sem geti snarað fram tugum milljarða til að reisa sjúkrahús - þótt fyrrverandi bankamaður sé. Eða hafi lánstraust til þess.
En ég fann aftur á móti MCPB Realestate sem virðist vera í eigu Henris og þar er hann að selja íbúðir í tveimur blokkum á Norðurbakkanum í Hafnarfirði! Lögfræðilegur ráðgjafi byggingaraðilans er áðurnefndur Gunnar Ármannsson. MCPB Realestate er ekki skráð félag undir því nafni í Fyrirtækjaskrá. Henri Middeldorp er skráður kontaktaðili með íslenskt símanúmer, belgískt númer (+32) sama og hjá Burbanks Trust & Investments og netfang hjá Burbanks Capital. Belgíska númerið fann ég hvergi í símaskrám.
Þá er það Burbank Trust & Investments sem sagt er nærri helmingseigandi verkefnisins ástamt Henri Middeldorp. Fréttastofa RÚV fékk engar upplýsingar um það á þeim forsendum að ekki væri heimilt að gefa þær upp. Helmingur þess eignarhalds er semsagt leyndó.
BT&I er ekki með heimasíðu á netinu. Félagið er sagt til húsa að Weegschaalstraat 3 í Eindhoven í Hollandi með belgíska símanúmerið (+32) sem ég fann hvergi skráð. Burbanks Capital er skráð til húsa á sama stað með hollenskt símanúmer (+31), líka óskráð. Ég hringdi en enginn svaraði. Þetta er húsið þar sem bæði Burbank Trust & Investments og Burbanks Capital eru skráð til húsa:
Ekki stórt hús og þegar skiltið við húsið sem listaði fyrirtækin sem í því voru var skoðaður fannst ekkert sem byrjaði á Burbanks.
Svo virðist sem bæði Burbanks Trust & Investment og Burbanks Capital séu skúffufyrirtæki sem hyggjast reisa einkasjúkrahús á Íslandi fyrir allmarga tugi milljarða sem óljóst er hvaðan koma. Að því er virðist hyggjast fronturinn Burbanks Holding í samvinnu við Burbanks Capital fjárfesta í auðlindum Íslands - hreina vatninu og orkunni. Og aðeins á Íslandi án þess að stíla á alþjóðlegan fjárfestamarkað.
Í kvöldfréttum RÚV á þriðjudaginn var viðtal við sérfræðing, James S. Henry, og ráðgjafa íslenskra stjórnvalda í aðgerðum gegn skattaskjólum. Hann sagði að aflandsviðskipti Íslendinga séu enn í gangi, en nú hafi aflandsfólkið skipt Tortóla og slíkum stöðum út fyrir Holland og Lúxemborg - sem hafa jú verið skattaskjól árum eða áratugum saman. Spurning hvort við eigum að leggja saman tvo og tvo... Aflandsfé ríkra Íslendinga? Peningaþvætti? Hvað er eiginlega á seyði hér?
Ég klippti saman brot úr viðtalinu við Henry og fréttirnar næstu tvo daga þar sem Henri Middeldorp sagði frá fyrirhuguðu einkasjúkrahúsi í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld, heilbrigðisráðherra kvaðst koma af fjöllum svo Middeldorp kúvendir sögunni, hafði ekki haft samráð við yfirvöld en segist ætla að byggja og fá svo leyfi. Athygli vekur hve bæjarstjóri Mosfellsbæjar er fljótur að gera lóðarsamninginn - það tók innan við viku án samráðs við neinn. Hvað segir aðalskipulag og deiliskipulag Mosfellsbæjar?
Fréttir RÚV 20. til 26. júlí 2016
.
Viðbót 1: Það er ekki amalegt að eiga frænda og vin í Hollandi. Hann fór inn á vefsíðu Viðskiptaráðs (Chamber of Commerce) og fann Burbank Holding B.V. staðsett í hús þar og viti menn! Það félag er til húsa á sama stað og hin tvö félögin - í litla húsinu sem myndin er af hér fyrir ofan. En BH er það eina af þessum þremur sem skráð er hjá Viðskiptaráði. Og það eru hvorki meira né minna en 238 félög skráð í litla húsinu með mörgu skúffunum.
Viðbót 2: Klókur náungi lagði til að Gunnar Ármannsson, sem ég nefndi hér fyrir ofan, sé prímus mótor í þessu máli. Hann kemur eða hefur komið að öllum þremur fjárfestingarkostum - heilbrigðismálum, vatni og orku. Gunnar er auk þess verkefnisstjóri ráðgjafafyrirtækisins Shiboomi á Íslandi. Á vefsíðu Shiboomi segir m.a. um Gunnar: „Hann hefur beinan aðgang að og sambönd við hæstráðendur á Íslandi.“
Er Henri Middeldorp leppur Gunnars Ármannssonar?
Það skyldi þó aldrei vera?! En hvaðan kemur fjármagnið?
Viðbót 3: Eins og fram kemur í viðbót 2 var Gunnar Ármannsson fulltrúi PrimaCare sem ætlaði að reisa einkasjúkrahús í Mosfellsbæ fyrir nokkrum árum - en þá fyrir liðaskiptasjúklinga. Verkefnið gekk ekki eftir af einhverjum ástæðum. Ég fann Kastljóssviðtal við Gunnar Ármannsson og fulltrúa Shiboomi, Gary Woolf á lagernum hjá mér, klippti og YouTubaði. Þarna er PrimaCare til umfjöllunar.
Kastljós 31. ágúst 2009
Bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Haraldur Sverrisson, sagði skýringuna á því að ekki þurfti meira en viku til að samþykkja Burbanks-fléttuna þá, að búið væri að fara í gegnum þetta ferli áður - með PrimaCare semsagt. Hér getur fólk rifjað upp það ferli.
Ég fékk póst frá bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ sem segir:
„Fréttir um samning Haraldar Sverrissonar bæjarstjóra í Mosfellsbæ við erlenda fjárfesta um lóð undir sjúkrahús og -hótel við Sólvelli hafa víða vakið hörð viðbrögð. Íbúahreyfingin hefur tekið einarða afstöðu gegn framkvæmdinni sem hún telur virka eins og illa undirbúna tilraun til að einkavæða íslenska heilbrigðiskerfið og kalla á stórfelldan innflutning á erlendu vinnuafli, án þess að fyrir liggi hvernig takast skuli á við það verkefni. Frá skipulagslegum sjónarhóli er staðsetningin auk þess afleit; í útjaðri íbúðabyggðar í Reykjahverfi, sem er friðsælt hverfi fjarri aðalsamgönguæðum.
Íbúahreyfingin telur að skynsamlegt hefði verið að leggja þverfaglegt mat á verkefnið fyrirfram, s.s. áhrif þess á íslenska heilbrigðiskerfið og vinnumarkaðinn, auk þess sem skoða hefði átt staðarval í samráði og út frá hagsmunum íbúa, starfsmanna og almenningssamgangna.
Athygli vekur að fulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarráði skuli ekki hafa komið í veg fyrir samninginn við MCPB ehf, en honum hefði verið í lófa lagið að gera ágreining um tillöguna, sem hefði þá orðið til þess að hún hefði ekki fengist samþykkt, heldur ákvörðunin falin bæjarstjórn. Á landsvísu hefur Samfylkingin lagst gegn einkavæðingu heilbrigðiskerfisins en svo virðist sem félagarnir í Mosfellsbæ séu á öðru máli.
Langt er í að ráðist verði í þetta verkefni og því vandséð af hverju bæjarstjóra lá svona mikið á að fá verkefnið samþykkt í sumarfríi bæjarstjórnar. Aðeins eitt mótatkvæði nægir til að fella tillögur í bæjarráði og færa ákvörðunarvald yfir til bæjarstjórnar sem kemur saman eftir sumarfrí þann 17. ágúst nk. Í bæjarráði Mosfellsbæjar hafa einungis tveir fulltrúar D-lista og einn fulltrúi S-lista atkvæðisrétt. Fulltrúar M- og V-lista eru áheyrnarfulltrúar og geta því ekki greitt atkvæði.
Á síðasta kjörtímabili gerði Íbúahreyfingin verulegar athugasemdir við tillögur bæjarstjórnarmeirihluta D- og V-lista um sölu á lóð undir einkasjúkrahús í Mosfellsbæ, en þá var verkefnið í nafni Primacare og heilsueflandi samfélags. Á þeirri afstöðu hefur engin breyting orðið og þykir okkur rétt að árétta það.“
Ekki verður þetta Samfylkingunni til framdráttar í kosningunum í haust.
Viðbót 4: Tvær mjög góðar greinar um þetta einkasjúkrahússmál voru birtar í Fréttablaðinu/Vísi í dag.
Önnur eftir Guðmund Andra Thorsson: http://www.visir.is/gallsteinar-og-gullsteinar/article/2016160729445
Hin eftir Kára Stefánsson: http://www.visir.is/fyrst-thad-ma-skjota-isbirni/article/2016160729422
Es.: Þessi pistill er ekki fullkláraður. Ég á eftir að setja inn slóðir og eflaust eitthvað fleira sem ég er að gleyma eða ekki búin að finna. Takið viljann fyrir verkið og tékkið á pistlinum aftur.
Athugasemdir