Í kjölfar hryðujverkaárásanna í París, hefur umræðan um það sem kallað er fjölmenning (multi-culturalism) blossað upp að nýju. Þessi umræða er þó alls ekki ný af nálinni. Segja má að umræða um innflytjendamál sé að öðrum þræði umræða um fjölmenningu. Innflytjendur, hvar sem þeir eru, taka með sér sína menningu þangað sem þeir fara og setjast að. Íslendingar búsettir á Norðurlöndum halda til dæmis þorrablót og láta senda sér hangikjöt, grænar baunir, malt og appelsín.
Upp með múrana
Nú heyrast háværar raddir gegn fjölmenningunni og þessar sömu raddir krefjast að múrar í formi gömlu landamæra Evrópu verði endurreistir, að öll fyrrum landamæri verði endurvirkjuð. Ljóst er að verði það raunin mun líf almennra borgara í Evrópu breytast umtalsvert. Þetta mun einnig þýða aukinn kostnað, bæði fyrir ríki, atvinnulíf, sem og almenna borgara.
Í þessari umræðu birtist líka sú tilhneiging mannskepnunnar að flokka hluti, til dæmis í „við og þið“ og í „góða fólkið“ og „vonda fólkið“. Góða fólkið er til dæmis sá hópur sem er opinn fyrir móttöku flóttamanna, en hinir vondu þá þeir sem vilja helst loka fyrir flóttamenn og láta þá vera „heima hjá sér“. En málið er töluvert flóknara en þetta, svona einfaldar lausnir duga yfirleitt skammt, en hugmyndafræðilegur kraftur þeirra er mikill. Kannski sérstaklega nú á tímum svokallaðra samfélagsmiðla.
En hvernig kemur þetta Zlatan Ibrahimovic þessu við? Jú, mér flaug þetta í hug, eftir að Svíar unnu Dani í umspili um sæti á Evrópumótinu í knattspyrnu, sem fram fer í Frakkland á næsta ári. Zlatan er með svokallaðan innflytjendabakgrunn, þó hann sé fæddur og uppalinn í Malmö í Svíþjóð. Án Zlatans, hefðu Svíar ekki komist á EM. Svo einfalt er nú það, Zlatan skaut Svíum einfaldleg á EM. En Zlatan er ekki eini með innflytjendabakgrunn í sænska landsliðinu, þar eru strákar sem heita til dæmis Bahoui, Erdin, Durmaz, Fejzullahu, Hamad, Zenkin og Milosevic.
Engin silfurskeið
Zlatan Ibrahimovic, er þjóðhetja í Svíþjóð, elskaður og dáður, enda frábær leikmaður, fyrirmynd, skemmtileg persóna og fremstur meðal jafningja í liðinu. Faðir hans er frá Bosníu og móðirin frá Króatíu, lýðveldum fyrrum Júgóslavíu á Balkanskaga. „Heimavöllur“ Zlatans er helsta innflytjendahverfi Malmö, Rosengård (Rósagarðurinn). Fjölskylduaðstæður voru erfiðar, skilnaður og svo framvegis. Zlatan fæddist ekki með silfurskeið í munni, en hefur náð þetta langt vegna eigin verðleika og hæfileika. Hægt væri að líta á fleiri landslið, til dæmis það þýska og segja svipaða hluti, þar sem lykilmenn eru meðal annars með bakgrunn frá Póllandi, Tyrklandi og Afríku.
Ég tek þetta dæmi um Zlatan, vegna þess að þeirri umræðu sem nú fer um eins og eldur í sinu gleymist gjarnan hið jákvæða. Hið neikvæða; blóð, hryllingur og ömurleiki, verða ofan á.
Ég vil einnig taka það fram að ég styð á engan hátt hryðjuverk og morð á saklausum borgurum, heldur fordæmi. Og ég fordæmi líka það sadistíska ofbeldi sem nú virðist vera vinsælast meðal öfgamanna. Enda þegar grannt er skoðað, þá eru helstu forsprakkar vígasamtaka menn með glæpaferil að baki. Það á til dæmis við bæði um leiðtoga Íslamska ríkisins og fyrrum leiðtoga Al-Kaída í Írak, Abu Musab al Zarqawi (myrtur af USA 2006).
Markmiðið: Truflun, hræðsla og ógn
Markmið öfgamann er að valda ótta, hræðslu og trufla daglegt líf almennra borgara eins mikið og hægt er. Því miður hefur ,,Parísar-hópnum“ tekist það. Hið illa er sterkur kraftur, því miður. En hið góða er það líka. Athugum það að múslímar eru um 1,6 milljarður manna og af þeim fjölda er aðeins pínulítið brotabrot svokallaðir öfgamenn. Flestir eru það sem við köllum „venjulegt fólk.“
Einstaklingar eins og Zlatan Ibrahimovic, það sem þeir gera og standa fyrir, eru hinsvegar eins´konar ljós í myrkrinu, og ljós er einmitt það: Ljós. Og þegar myrkrið grúfir yfir mannlífinu, þá eykst einmitt þörfin á ljósi.
Athugasemdir